Ómissandi að fara í ferðalag
Ingibjörg Gísladóttir er úr Garðinum og starfar hjá Landsbankanum í sumar. Hún segir mikilvægt að koma sér út úr bænum til þess að verslunarmannahelgin verði aðeins öðruvísi en aðrar helgar.
Hvað á að gera um verslunarmannahelgina og hvert á að fara?
Þetta árið á að skella sér upp í sumarbústað með kærastanum og fjölskyldunni.
Hvað finnst þér einkenna góða verslunarmannahelgi og finnst þér eitthvað vera ómissandi um þessa helgi?
Það sem mér finnst einkenna góða verslunarmannahelgi er góður félagsskapur og ferðalög. Það er ómissandi að fara eitthvað út á land, annaðhvort í útilegu, sumarbústað eða til Eyja, eitthvað sem skapar þessa útilegustemningu. Ef maður fer ekki eitthvað úr sínum heimabæ gæti þetta verið eins og hver önnur helgi í vaktafríi.
Er einhver verslunarmannahelgi sem er eftirminnilegri en aðrar hjá þér?
Mín fyrsta verslunarmannahelgi sem ég eyddi ekki með foreldrum mínum en þá fékk ég að fara með vinkonu minni og foreldrum hennar til Akureyrar og við skemmtum okkur frábærlega. En fyrsta Eyjaferðin er líka ofarlega, það toppar eiginlega ekkert upplifunina við að fara þangað og ætla ég klárlega aftur á næstu árum!