Ólympíuleikarnir standa upp úr
Sundkonan Erla Dögg Haraldsdóttir hefur verið dugleg við að setja Íslandsmet á árinu. Hún setti alls 10 met og það gerði hún einnig í fyrra. Þrátt fyrir mikið æfingaálag hefur hún verið afburða nemandi í gegnum árin og dúxaði á náttúrufræðibraut frá Fjölbrautaskóla Suðurnesja í vor. Eftir það tók hún þátt í stærstu íþróttahátíð heims, Ólympíuleikunum, og í haust flutti hún til Bandaríkjanna þar sem hún er í háskólanámi auk þess sem hún æfir sund á fullu. Hún var kjörin Íþróttamaður Reykjanesbæjar 2008. Víkurfréttir tóku þessa miklu íþróttakonu tal og spurði fyrst hvernig árið hafi verið hjá henni?
„Árið var mjög gott fyrir mig að mínu mati. Þetta var einnig mjög annasamt og spennandi ár. Ólympíuleikar, útskrift og síðan að flytja til Bandaríkjanna og fara í háskóla þar. Ég var með það langtíma markmið að komast á Ólympíuleikana 2008 og ég náði lágmörkum inná þá í apríl. Ég bætti mig mikið í öllum mínum sundum á árinu og setti mörg íslandsmet.
Ég útskrifaðist af náttúrufræðibraut frá Fjölbrautaskóla Suðurnesja í maí, dúxaði þar, með hæstu meðaleinkunn og fékk sérstök verðlaun í stærðfræði, raungreinum og spænsku. Sumarið var frábært, ég var fjallkonan á 17. júní sem var æðislega skemmtilegt. Annars var ég á fullu að æfa og keppa víða um Evrópu og endaði svo sumarið á Ólympíuleikum, sem var ólýsanleg upplifun og frábær reynsla.
Síðan tók enn eitt ævintýrið við strax eftir Ólympíuleikana í Peking, en það var að halda út til Bandaríkjanna í nám og einnig synda og keppa fyrir háskólann. Það hefur verið alveg rosalega gaman og margt sem ég er að læra sem á eftir að nýtast mér í framtíðinni,“ sagði Erla Dögg.
Ertu sátt við þann árangur sem þú náðir í sundinu í ár?
„Ég er mjög sátt við þann árangur sem ég náði yfir heildina lítið og margt sem kom á óvart. Eins og til dæmis þegar ég náði þriðja ólympíulágmarkinu (í 200m bringu).“
Hvernig upplifðir þú Ólympíuleikana í Peking og varstu sátt við árangurinn þar?
„Ólympíuleikarnir í Peking voru alveg ólýsandi upplifun. Það var alla vega nóg af adrenalíni í gangi. Allt var til fyrirmyndar við framkvæmd leikanna og frábærar byggingar. Eg var ánægð með árangurinn en ekki alveg fullkomlega sátt, því maður fer alltaf með því hugarfari og markmiði að bæta sig, en eg var búin að vera í gríðarlegri framför allt árið, sem ég var sátt með.“
Hver eru helstu markmið þín fyrir komandi ár?
„Eins og staðan er í dag þá stefni ég ótrauð á næstu Ólympíuleika, árið 2012. Annars er það helst að klára háskólann hérna úti í Bandaríkjunum og æfa og keppa á fullu með því.“
Er eitthvað eitt sem stendur upp úr frá liðnu ári?
„Já, þegar ég lít yfir árið í heild sinni þá finnst mér Ólympíuleikarnir standa upp úr. Ég var búin að stefna að þessu svo legni og loksins kom að því, og þetta var líka alveg frábært, miklu betra en ég bjóst við. “
Getur þú sagt aðeins frá skólanum þínum og hvað þú ert að læra?
„Skólinn sem ég er í heitir Old Dominion University. Hann er staðsettur í Norfolk í Virginia. Það eru um 13.000 þúsund nemendur í skólanum og annar eins fjöldi í fjarnámi. Skólinn er þekktur fyrir góða verkfræðideild og stefni ég einmitt á að fara í iðnverkfræði hérna. Ég er mjög ánægð með skólann, það sem ég er búin að kynnast af honum og kennararnir eru mjög viðkunnalegir.“
Hvernig eru aðstæður til æfinga í skólanum, er mikill munur frá því hér heima?
„Aðstæður er frekar góðar, en eins og er, þá er verið að laga aðal sundlaugina og við erum ekki að æfa við mjög góðar aðstæður núna en laugin á að vera tilbúin í byrjun ársins 2009, svo það á eftir að lagast mjög mikið. Hins vegar er aðstaða fyrir lyftingar og þrek mjög góð og erum við með sér þjálfara þar. Við erum einnig með aðgang að námsráðgjöfum og aðstoðarfólk fyrir námið ef við þurfum. En annars eru laugarnar heima á Íslandi miklu betur búnar að mínu mati. Krakkarnir hér eru ekki vön eins góðu og við, og ég tala nú ekki um nýju laugina okkar í Reykjanesbæ.“
Segðu okkur aðeins frá sjálfri þér, fölskyldunni þinni og hvernig það æxlaðist að þú fórst að stunda sund?
„Ég er fædd þann 19. apríl 1988 á Akranesi. Hef búið á sama stað í Njarðvík síðan ég var tveggja ára. Ég á yndislega foreldra sem hjálpa mér mjög mikið. Ég á tvær frábærar systur, eina eldri og eina yngri og svo eigum við hund. Ég er metnaðargjörn og vil standa mig vel í því sem ég tek mér fyrir hendur. Mér finnst gaman að vera í góðum félagsskap og slappa af þegar tími gefst til. Ég æfði fimleika frá sex ára aldri, eða þangað til ég var 10ára. Þá hætti ég því ég var alltaf eitthvað að slasa mig. Steindór Gunnarson, sundþjálfarinn minn, var að kenna mér skólasund í Njarðvíkurskóla og hann fékk mig til að prófa að koma á sundæfingu. Ég prufaði og það var ekki aftur snúið eftir það. Við systurnar höfum allar verið í sundi en þær hættu báðar ungar. Það fer mjög mikill tími í þessa íþrótt og maður þarf að vera tilbúin að fórna ýmsu, en þegar vel gengur sér maður ekki eftir neinu.“
Hvernig sérð þú framtíðina fyrir þér í sundinu, er endalaust hægt að bæta sig?
„Miðað við þær framfarir sem hafa verið í sundi í heiminum á þessu ári, er greinilega alltaf hægt að bæta sig eitthvað, eins og heimsmet sem voru talin ósláanleg hafa verið að falla og svo framvegis. Það er stanslaust verið að þróa tæknina og til koma nýs sundfatnaðar hjálpar líka til. Það er alltaf hægt að gera betur held ég og laga smáu tækniatriðin, svo ég segi að framtíðin í sundi er frekar björt.“
Hefur þú tölu yfir öll Íslandsmetin sem þú hefur sett á ferlinum?
„Nei, ég hef ekki hugmynd um það. En ég veit að ég setti um það bil 10 Íslandsmet á síðasta ári og ég held líka eitthvað um 10 á þessu ári,“ sagði Erla Dögg.
-------------
Steindór Gunnarsson, sundþjálfari, um Erlu Dögg:
„Erla Dögg hefur mikið keppnisskap"
Við báðum Steindór Gunnarsson, sundþjálfara, að lýsa Erlu Dögg:
„Hún hefur alltaf verið gríðarlega hæfileikarík. En hennar helstu kostir eru, metnaður, vinnusemi, samviskusemi, dugnaður og hugarfar til að ná langt, þ.e. hún trúir á sjálfan sig og þjálfarann sinn. Ég tel að nú sé hún bara komin á fyrri toppinn á ferli sínum og næsti toppur muni koma á næstu 2- 4 árum eins og gerðist milli síðustu ÓL. Margir bestu sundmenn heims eru að ná sínum besta árangri 24- 28 ára. Það sem ég sé að muni gerast hjá henni í framtíðinni er að hún mun bæta við sig líkamsstyrk sem mun færa henni betri tíma og þar tel ég að hennar mestu möguleika á framförum. Hennar mesti styrkur sem íþróttamaður er að hún setur sér markmið og vinnur markvisst að þeim ásamt því að hún hefur mikið keppnisskap,“ segir Steindór.