Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

  • Öll svörin á einn stað
    Helga Steinþórsdóttir.
  • Öll svörin á einn stað
    Sigrún Ólafsdóttir, formaður Krabbameinsfélags Suðurnesja, afhendir Helgi fyrstu Bleiku slaufuna.
Laugardagur 11. október 2014 kl. 10:00

Öll svörin á einn stað

Stórir draumar hjá Krabbameinsfélagi Suðurnesja.

Hlutfallslega greinast færri á Suðurnesjum með krabbamein en víða annars staðar á landinu, annað en haldið hefur verið fram. „Dagarnir eru langir hjá þeim sem greinast og mikil bið. Við viljum auðvelda þeim biðina,“ segir Helga Björg Steinþórsdóttir, talsmaður Krabbameinsfélags Suðurnesja.

„Minn draumur er að geta breytt því sem var í boði þegar ég fékk krabbamein. Þá var ég að gúgla til að finna upplýsingar um sjúkdóminn og það er ekki gott. Þetta eru svo miklar upplýsingar víða að úr heiminum og þá er nánast búið að jarða mann,“ segir Helga Steinþórsdóttir, talskona Krabbameinsfélags Suðurnesja. Faðir Helgu lést úr krabbameini og móðir hennar hefur oft greinst með meinið en er, að sögn Helgu, ótrúlega hress. Sjálf greindist Helga með lungnakrabbamein en segir ferlið hafa gengið vonum framar.

Vilja auðvelda biðina
Helga er með 34% lungnastarfsemi og segist líta úr fyrir að vera miklu hraustari en hún er í raun. Hún er mjög upptekin af hreyfingu og hollustu, það sé það eina sem sé í boði fyrir sig til að halda sem bestri mögulegri heilsu. Hún reykti áður fyrr og var oft bent á hættuna á að fá lungnakrabbamein. Helga segir að fjölskyldur verði oft dofnar þegar einhver innan þeirra greinist með krabbamein. Einnig sé tímabilið oft erfiðara fyrir aðstandendur en sjúklinginn. „Okkur langar að vera til staðar fyrir báða hópana. Dagarnir eru langir hjá þeim sem greinast og mikil bið. Við viljum auðvelda þeim biðina.“ Hlutfallslega greinast færri á Suðurnesjum með krabbamein en víða annars staðar á landinu, annað en haldið hefur verið fram. „Það kom fram á fundi hjá Krabbameinsfélags Íslands. Samt greinast mjög margir Suðurnesjamenn á hverju ári. Andlega hjálpin er til staðar hjá Ljósinu í Reykjavík og hún hjálpar mörgum. Við viljum vera með einhvers konar sýnishorn af því hér á Suðurnesjum. Vera með öll svörin á einum stað þar sem fólk finnur að fleiri eru í sömu sporum,“ segir Helga.  

Fjórir greindust úr sömu fjölskyldunni
Reynsla langflestra sem greinast með krabbamein er að þeir upplifa sig sem dálítið eyland. Allir verða hissa og fá áfall, einangrast jafnvel og verða uppteknir af sjúkdómnum og fjölskyldunni. „Flestir tengja krabbamein við dauða, sem er miklu sjaldnar en niðurstaðan, eða að lenda í miklum erfiðleikum. Ég fékk lungnakrabbamein og í 30% slíkra tilfella er kannski líklegt að lifa í fimm ár. Á móti greinist fólk með lungnakrabba yfirleitt miklu eldra en ég. Það hjálpaði mér að greinast svona ung. Æxlið mitt var orðið stórt og var illkynja en hægt var að skera það í burtu,“ segir Helga, en bætir við að óvenjumargir hefðu greinst með sama meinið og hún á sama tíma, þar af fjórir úr sömu fjölskyldunni.

Hentugra húsnæði væri betra
Salan á Bleiku slaufunni í október rennur einungis til Krabbameinsfélags Íslands og verður Krabbameinsfélag Suðurnesja að sjá um eigin fjáraflanir. Stuðningskvöld eru haldin fyrir félagið og rennur allur ágóði beint til þess. Sérstök áhersla verður lögð á það í þessum mánuði, m.a. með Float-parýi, eða samfloti, í Akursundlaug. „Við viljum líka vekja fólk til umhugsunar með að fara í skoðun og forvarnirnar. Okkur langar að gera svo miklu meira en við erum að gera. Það hefur ekki gengið nógu vel að ná til fólks. Húsnæði félagsins er við hlið húsnæðis þar sem hælisleitendur halda til og er það því læst. Þeir sem vilja leita sér aðstoðar eða fræðslu hjá okkur, sem eru þung skref að taka, þurfa að hringja bjöllu í stað þess að geta bara gengið beint inn og fundist þeir velkomnir, sem þeir sannarlega eru. Við þyrftum húsnæði á öðrum stað og geta stjórnað opnunartíma betur,“ segir Helga.  

Vilja fleiri karlmenn
Ýmis dagskrá er hjá félaginu og það á sér velgjörðarfólk, eins og Ágústu Gizurardóttur jógakennara og Lögfræðiþjónustu Suðurnesja. „Gönguhópur hittist tvisvar í viku og hann er mjög mikilvægur því þá fer fólk að tala saman og ýmis vandamál leysast. Hvernig best er að snúa sér í hinu og þessu í óvæntum og nýjum aðstæðum. Það hangir alltaf yfir manni hvort meinið taki sig upp aftur þó að jákvæðar niðurstöður séu. Það koma tímabil og þá er svo gott að geta rætt við einhvern,“ segir Helga og að draumurinn sé að byggja upp eitthvað jákvætt þar sem gott og gaman er að koma, fræðast og iðka tómstundir og sköpun. „Bæði fyrir konur og karla. Okkur vantar fleiri menn því þetta er ekki kvensjúkdómur.“

 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

VF/Olga Björt