Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Öll fjölskyldan á sviði
Föstudagur 20. desember 2013 kl. 10:02

Öll fjölskyldan á sviði

„Auðvitað eru það forréttindi að fá að stíga á svið með börnunum sínum,“ segir Sigurbjörn Daði Dagbjartsson sem heldur jólatónleika á skemmtistaðnum Bryggjunni í Grindavík á sunnudaginn. Sigurbjörn mun þar koma fram ásamt tveimur dætrum sínum og stjúpdóttur, auk þess sem bræður hans og frændur munu mæta á sviðið. Sannkölluð fjölskylduhátíð. Þetta kemur fram á vísi.is.

„Undanfarin ár höfum við farið á elliheimilið í bænum og báða leikskólana fyrir jólin og spilað og sungið. Það hefur fært manni jólaandann beint í æð. En í ár datt okkur í hug að stækka við okkur og ákváðum að halda bara tónleika,“ segir Sigurbjörn Daði en bætir því við að fjölskyldan ætli samt sem áður að heimsækja elliheimilið og leikskólana þetta árið. Dætur hans eru níu, fimmtán og nítján ára. Hann segir þær afar góða söngvara.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

„Þær syngja allar dásamlega. Þær radda mikið og gera það ótrúlega vel. Ég er meira bara partíspilari, þær eru miklu betri en ég,“ segir hann stoltur. Aðalstarf Sigurbjörns er sjómennska en hann notar tómstundir sínar í gítarspil.

„Ég er í tveimur hljómsveitum, Backstabbing Beatles ásamt bræðrum mínum og frændum, og Geimförunum, sem munu einmitt halda ball á milli jóla og nýárs í Salthúsinu í Grindavík. Það ball er vel sótt, þetta verður sextánda skiptið sem við höldum þessa tónleika,“ útskýrir Sigurbjörn.

Bræður hans úr Backstabbing Beatles, þeir Gauti og Einar, munu stíga á svið á jólatónleikunum og taka lag sem þeir sömdu fyrir síðustu jól og var spilað á Rás 2. Sigurbjörn segir að þrátt fyrir að allir þessir fjölskyldumeðlimir og ættingjar séu í tónlist hafi ekki verið lögð nein sérstök áhersla á það í uppeldinu.

„Mamma og pabbi spila til dæmis ekki á hljóðfæri. En þau eru reyndar mikið söngfólk. Þetta gæti komið út frá því. Ég byrjaði bara að syngja með plötum þegar ég var ungur og svo fór maður að prófa sig áfram á gítarnum. Þetta er auðvitað bara áhugamál," segir sjómaðurinn Sigurbjörn sem er einmitt á sjó um þessar mundir og kemur heim rétt fyrir tónleikana.

„Við erum öll að æfa okkur hvert í sínu lagi núna og svo fáum við einhverja tvo daga til æfa okkur saman þegar ég kem í land," útskýrir Sigurbjörn.

Tónleikarnir fara fram sunnudaginn 22. desember á skemmtistaðnum Bryggjunni í Grindavík klukkan 21.