Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Olíukóngurinn hættir að dæla eftir hálfa öld
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
þriðjudaginn 19. apríl 2022 kl. 08:21

Olíukóngurinn hættir að dæla eftir hálfa öld

Steinar Sigtryggson, umboðsmaður Olís í fimmtíu ár, hefur lifað tímana tvenna.

„Ætli það sé ekki að hafa kynnst mikið af fólki og auðvitað líka margar ánægjustundir með starfsfólki og viðskiptavinum í þessa hálfa öld,“ segir Steinar Sigtryggson, umboðsmaður Olís þegar hann er spurður um hvað standi upp úr eftir að hafa verið í fimmtíu ár í framlínu eldsneytissölu og tengdra vara á Suðurnesjum.

Steinar hefur lengi verið kallaður olíukóngurinn af vinum sínum enda verið í kringum olíu og bensín í hálfa öld. Eitthvað sem nær allir hafa þurft og nota þegar ekið er af stað í bílnum eða hvers kyns ökutækjum eða vinnuvélum. Þegar hann er spurður út í þróunina í rafbílavæðingu segist hann nú ekki hafa miklar áhyggjur af því. „Á löngum tíma í rekstri hefur margt komið upp, m.a. ýmislegt sem hefur haft mjög mikil áhrif á tekjur okkar. Það hefur alltaf eitthvað komið í staðinn og þannig verður það áfram,“ segir Steinar og rifjar upp þegar hrun varð í útgerð og þegar hitaveitan leysti húsakyndingu með olíu af hólmi. Olíukóngurinn kippir sér ekki upp við svona breytingar og fagnar þróuninni, hver sem hún er. Elsti sonur hans, Kjartan hefur til dæmis selt fleiri rafbíla en bíla með dísel eða bensíni, að undanförnu. 

Hættir eftir fimmtíu ár

Framundan eru breytingar hjá Steinari og hjá Olís á Suðurnesjum utan Grindavíkur, sem hann hefur stýrt af samviskusemi og dugnaði í öll þessi ár. Það eru ekki margir einstaklingar sem eiga svona langan tíma að baki í rekstri. Nú er okkar maður að leggjast í helgan stein en það á ekkert alltof vel við hann. Steinar er vanur að vinna mikið en hann verður 75 ára á árinu og ætti þess vegna að vera meira úti á golfvelli, þar sem hann unir hag sínum vel, heldur en á skrifstofunni í Njarðvík. „Ég er að hætta. Þetta er orðið fínt og það eru breytingar framundan hjá Olís. Ég verð eitthvað til taks næstu mánuði,“ segir Steinar. 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Breytingarnar verða þannig að húsnæðinu í Njarðvík þar sem fyrsta ÓB stöðin var opnuð verður breytt á þann veg að tveir nýir veitingastaðir, Grill 66 og Lemon, verða opnaðir. Áfram verður vörusala Olís sem þjónustar mikinn fjölda fyrirtækja, stofnana og einstaklinga á Suðurnesjum. Nýlegir eigendendur Olís eru stórfyrirtækið Hagar sem ætlar sér enn stærri hluti á Suðurnesjum. Þessi breyting er liður í því. 

Við settumst niður með Steinari á Marriott hótelinu við Aðaltorg til að fara aðeins yfir langa sögu kappans í rekstri og lífi hans. Við Aðaltorg eru einmitt nýjustu ÓB dælurnar og fljótlega eftir opnun, skömmu fyrir heimsfaraldur, seldust þar flestir bensín- og olíulítrar á Suðurnesjum enda blasa Olís dælurnar við ferðamönnunum þegar þeir koma með bílaleigubílana eftir Íslandsferð.

En hvernig var að vera strákur í Keflavík fyrir meira en hálfri öld. 

„Það var gaman að alast upp í Keflavík en ég man að það var ekki komið klósett alveg strax á mínu æskuheimili við Klapparstíg í Keflavík. Það var bara útikamar. Lífið var samt gott þó það væri ekki mikil velsæld. Það var alveg fátækt víða,“ segir Steinar sem eins og mörg ungmenni á þeim tíma byrjaði að vinna í fiski fyrir fermingu og í fiskinum kynntist hann eiginkonu sinni, Birnu, þegar þau unnu bæði í fiskverkuninni Litlu milljón í Keflavík. Ættingi hennar rak málningarfyrirtæki og hugur okkar manns leitaði þangað. Steinar ætlaði að verða málari og byrjaði að vinna við það. „Ég byrjaði að vinna í slippnum að mála síldarbátana fyrir komandi vertíð. Í hópnum voru skemmtilegir gaurar sem áttu eftir að verða landsþekktir, m.a. þrír Hljóma meðlimir, Rúnar Júll, Engilbert og Erlingur en þeir munduðu allir penslana um það leyti sem þeir stofnuðu hljómsveitina en sá fjórði, Gunni Þórðar keyrði leigubíl. Það var gaman að vera í kringum þá peyja og upplifa stemmninguna í kringum vinsælustu hljómsveit landsins. Þá voru fleiri þarna sem áttu eftir að verða frægir fótboltamenn,“ segir Steinar þegar hann rifjar þetta upp og sýnir blaðamanni mynd af fótboltadrengjum úr Keflavík árið 1959. 

Steinar Sigtryggsson og Birna Martinsdóttir og börnin fjögur, f.v. Kjartan, Ásgeir, Sigtryggur og Sólrún.

Á sjóinn

Málningarfyrirtækið fór illa og því varð að leita að nýrri vinnu. „Við Birna voru að byrja að búa og það var ekkert annað í stöðunni en að fá aðra vinnu. Ég frétti af því að Örn Erlingsson, skipstjóra, vantaði mann á bát sinn svo ég ákvað að banka upp á hjá honum og bjóða krafta mína. Hann sagðist að vísu vera búinn að ráða í stöðuna en eftir smá spjall sagði hann mér bara að koma líka. Ég fór á síldveiðar með honum og það gekk vel. Ég fékk mjög góðar tekjur en ég man eftir því að hafa lent í miklu óveðri í einum túrnum. Við fengum á okkur brot, ég var hrikalega sjóveikur en var þó á stýrinu á minni vakt. Við vorum heppnir að komast í höfn,“ segir Steinar sem reyndi aftur við málninguna. Nú á Keflavíkurflugvelli hjá málningarverktaka en önnur tilraun með málningarpensilinn gekk ekki heldur og hann fór aftur á sjóinn. Fékk pláss á 20 tonna bát sem hét Ver sem var að fara á loðnuveiðar. „Það var allt morandi í loðnu og við mokveiddum loðnu með tveimur öðrum bátum, ekki stærri en þetta en gekk vel. Reyndar var þetta hörkupúl því veiddum í nót og háfuðum upp úr henni í bátinn. Man meira að segja eftir þegar við lögðum nótina í höfninni í Keflavík og mokuðum upp loðnu. Alger þrælavinna því nótin var dregin með höndum.“

Leiðin í eldsneytið

Steinar vann í framhaldi af sjómennskunni um tíma í hlaðdeildinni hjá Loftleiðum á Keflavíkurflugvelli áður en Magnús nokkur Magnússon, kenndur við Höskuldarkot, réði hann til starfa til að sjá um innheimtu hjá BP (forvera Olís) sem hann var umboðsmaður fyrir í Keflavík. Okkar maður fann sig ágætlega hjá Magnúsi og því var leiðin greið til að taka við sem umboðsmaður eftir að Magnús hætti tveimur árum síðar eða árið 1975.

„Á þessum tíma var mikil útgerð og svo vorum við að selja olíu til húskyndingar. Á öllum heimilum var kynnt með gasolíu með þar til gerðum brennurum sem voru geymdir í sérstökum kyndiklefum í húsunum. Þannig var neysluvatn hitað sem og ofnar hússins. Ég man eftir að nýir háþrýstibrennarar komu á markaðinn sem voru sparneytnari en þarna var ekki komin hitaveita. Hún kom nokkrum árum síðar sem hafði mikil áhrif á okkar rekstur því olíusala til húsakyndingar var mikil, um 10 millijón lítrar á ári. Þetta var því talsverður skellur fyrir okkur því á nokkrum árum voru nær öll hús á Suðurnesjum orðin hitaveitukynnt.“

Hvað var til ráða hjá nýja umboðsmannninum?

„Sterk útgerð og sjósókn bjargaði okkur. Innan skamms tíma var ég komin með fimm togara og fimmtíu vertíðarbáta í viðskipti og þannig jókst olísala á nýjan leik. Ég man t.d. eftir því þegar það var mikil loðnuveiði. Þá kom hingað mjög stórt birgðaskip sem loðnuskipin lönduðu í og þá urðu mikil uppgrip hjá okkur. Þá vorum við með fimm olíubíla á fullu alla daga að dæla olíu á skipin. Ég man að bara í kringum þetta loðnuævintýri hér seldum við 1,3 milljón lítra af olíu sem var gríðar mikið.“

Tveimur árum eftir að Steinar tók við starfseminni færðist rekstur bensínstöðvarinnar Torgs í Keflavík og smurstöðvar á sama stað undir hann. Salan jókst í gegnum mikil fyrirtækjatengsl og nokkrum árum síðar tók Steinar við rekstri verslunarinnar á sama stað. Þá stofnaði hann Básinn og elsti sonur hans, Kjartan og kona hans, stýrðu verslunarrekstrinum, nokkrum árum síðar tók svo Ásgeir sonur hans við þar. Síðan hafa öll börnin og nokkur barnabörn unnið þar. Í mörg ár var Steinar með allan reksturinn í sínu nafni og tekjurnar voru háar, einhvern tíma var rætt um að hann væri með meiri laun en forstjóri Olís. Steinar hlær að því en segir að árið 2000 hafi verið ákveðið að Olís tæki yfir allan rekstur á nýjan leik en hann myndi starfa áfram fyrir félagið. 

Lengst af voru húsakynni BP og  Olís að Njarðarbraut, við sjóinn skammt frá höfninni í Njarðvík. Í viðtali við Víkurfréttir árið 1990 segir Steinar það hafa verið rætt að opna aðra bensínstöð en áratug síðar var farið í það verkefni þegar skrifstofur Olís fluttu þangað og opnuðu ÓB stöðina ásamt verslun og lager. 

Lægra verð í sjálfsafgreiðslu

„Það voru ekki allir hrifnir af því að við værum að fara að opna þarna en við byrjuðum að byggja árið 2000 á Fitjum. Árið síðar opnuðum við ÓB stöðina á Suðurnesjum en hún var fyrsta sjálfsafgreiðslustöðin á Suðurnesjum sem var opin allan sólarhringinn. „Við buðum þarna talsvert lægra verð og viðtökurnar voru frábærar. Vörulagerinn var miklu stærri og sömuleiðis opnuðum við góða verslun. Framundan eru núna breytingar með opnun tveggja veitingastaða en við munum einnig sinna vörusölu sem er mjög mikil. Við þjónustum marga stóra aðila eins og bílaleigur, sveitarfélög, sundlaugar, elliheimili, skóla og fyrirtæki á Suðurnesjum með margs konar vörur, allt frá pappír og bleium yfir í smurolíur og hreinsivörur. Undir merkjum nýs eiganda Olís eru vörutegundirnar orðnar nokkrir tugir þúsunda. Í gamla daga var þetta mun einfaldara. Þá vorum við mest að afgreiða tvist, grysju og smurolíu,“ segir olíukóngurinn og hlær og bætir því við að starfsemin í nágrenni Olís á Fitjum eigi eftir að aukast á næstunni með opnun annarra aðila eins og Byko og World Class. 

Olíubílar frá Olís í gamla daga við höfuðstöðvarnar í Njarðvík.

Situr við tölvuna og breytir bensínverði

Það er ekki hægt að ræða við Steinar öðruvísi en að ræða bensín- og olíuverð.

„Já, það eru margir sem halda ég sitji við tölvuna og breyti hreinlega verðinu þegar þeir koma en það er ekki alveg svo einfalt. Ég hef ekkert með verð að gera í dag. Það var þannig í gamla daga en þó þannig að verðlagsráð var með málið. Ég fékk í mörg ár símskeyti þegar verðið breyttist. Fyrr mátti ég ekki breyta,“ segir Steinar og þegar hann er spurður um hvað ríkið taki í sinn hlut af hverjum eldneytislítra segir hann það vera í kringum 170 krónur. En þá liggur beint við að spyrja okkar mann út í rafbílana. Stendur til að setja upp hleðslustöðvar hjá Olís og hvernig leggst þessi aukni áhugi á rafbílum í okkar mann.

„Í fyrsta lagi er það ekki mikill bísness fyrir bensínstöðvarnar að vera með hleðslustöðvar því lang flestir hlaða sína rafbíla heima hjá sér í flestum tilfellum. Hlutfall rafbíla hefur hækkað en er ekki hátt og svo er spurning hvernig framhaldið verður því það vantar rafmagn á Íslandi. Við þurfum að virkja meira ef við ætlum að geta sinnt þessari orkuþörf til framtíðar og frekari rafvæðingu tækja og tóla. Við sóttum um að opna hleðslustöð við Aðaltorg í Reykjanesbæ en það gekk ekki út af veseni með að fá rafmagn.“ 

Fótbolti og golf

Steinar hefur í gegnum tíðina verið duglegur í félagsmálum. Hann er gamall Alþýðuflokksmaður eða Krati en varð sjálfstæðismaður þegar Alþýðuflokkurinn og Alþýðubandalagið sameinuðust í Samfylkingu. Steinar var í fótbolta þegar hann var strákur og lék með 5. flokki Keflavíkur sem lék til úrslita um Íslandsmeistaratitilinn árið 1959. Þá spilaði hann einnig stundum með 4. flokki sem varð meistari þetta ár en þá voru þrír flokkar að spila um stóra titilinn því 3. flokkur var þarna líka. „Þarna var upphafið að gullaldarliði Keflavíkur. Við vorum með frábæra þjálfara, Hafstein Guðmundsson, Ríkharð Jónsson og Albert Guðmundsson og þetta voru skemmtilegir tímar. 

Steinar segist hafa átt skemmtilega tíma í félagsmálum í kringum knattspyrnuna. Hann var t.d. varaformaður Ungmennafélags Keflavíkur á áttunda áratugnum. „Það var happaskref hjá okkur þegar við réðum Hauk Hafsteinsson sem framkvæmdastjóra UMFK 1975 og það eru margar góðar miningar frá þessum tíma. Ein ferð er mér ofarlega í huga þegar við fórum í keppnisferð vestur á firði, lékum nokkra leiki en kepptum m.a. á Súgandafirði og þegar við mættum þurfti ég að fara í dómaragallann en slapp við að dæma bara fyrri hálfleik. Um kvöldið var skemmtun þar sem Sumargleðin með Ragga Bjarna var að skemmta. Meðal atriða var bingó og það var ekki vinsælt hjá heimamönnum þegar ég vann stærsta vinning kvöldsins sem var utanlandsferð fyrir tvö. Raggi Bjarna ætlaði að afhenda mér gjafabréfið en fann það ekki og skrifaði nafnið mitt á servíettu til staðfestingar á vinningnum. Þetta var ekki flókið og ég mætti á ferðaskrifstofuna með undirritaða servíettu frá Ragga Bjarna og fór nokkru síðar í þessa fínu ferð,“ segir Steinar og hlær þegar hann rifjar þetta upp. 

Steinar var í fótbolta sem strákur og hér er hann á frægri mynd með drengjum úr 5., 4. og 3. flokki en hann var í 5. flokki og varamaður í 4. flokki.
Á myndinni eru flestir af keflvískum knattspyrnudrengjum sem áttu eftir að gera garðinn frægan með gullaldarliði Keflavíkur á árunum 1964 til 1975.
Steinar steinlá fyrir golfíþróttinni þegar hann var kominn til vits og ára og hér á myndinni má sjá hann með einum af golffélögum sínum úr golfferðahópi  Golfklúbbs Suðurnesja, Jóni Birni Sigtryggssyni. Þeir félagar fáru báðir holu í höggi í Skotlandi, í Mekka golfsins árið 2002. „Leiran er minn besti staður en það er mjög skemmtilegt að heimsækja golfvelli úti í heimi,“ segir kylfingurinn Steinar sem hefur leikið golf víða um heim, m.a. á  Indlandi.
 

Heillaðist af golfinu

Okkar maður kynntist svo golfíþróttinni 1980 og fór í sína fyrstu golfferð til Skotlands með Herði Guðmundssyni, þáverandi formanni Golfklúbbs Suðurnesja. 

„Ég féll algerlega fyrir golfinu og hef ekki sleppt kylfunni í fjörutíu ár. Golfið er búið að vera frábært fyrir mig í öll þessi ár. Það hefur verið gaman að spila í útlöndum, við erum hópur sem hefur farið árlega til Skotlands, Englands eða Írlands á vorin. Svo hef ég verið duglegur að fara í Leiruna hér heima með góðum vinum. Hólmsvöllur í Leiru er gott dæmi um frábært sjálfboðaliðastarf en svæðið væri ekki til ef þeir bræður Hörður og Hólmgeir Guðmundssynir hefðu ekki unnið kraftaverk við uppbyggingu vallarins og síðar klúbbhúss. Ég var í stjórn GS í nokkur ár og m.a. þegar klúbburinn stækkaði völlinn í 18 holur og opnaði nýtt klúbbhús. Leiran er alger perla og einn fallegasti staður landsins.“

Það er stundum sagt að börnin fylgi foreldrunum en þriðji sonur Steinars, Sigtryggur sem hefur starfað hjá Olís mun taka við umboðsmannastarfinu af föður sínum og pabbinn er ánægður með það. Steinar hefur verið heppinn með heilsuna alla tíð en síðustu árin hefur hún aðeins dalað og okkar maður er að glíma við hægfara krabbamein sem hefur verið haldið niðri. „Þetta er aðeins að trufla mig. Ég þarf að fara til Svíþjóðar til lækna þar sem vilja skoða þetta en maður vonar bara að þetta gangi vel. Ég er alla vega nokkuð hress og veikindadagarnir í fimmtíu ár hafa ekki verið margir,“ segir Steinar Sigtryggson, olíukóngur Suðurnesja, og vildi að lokum senda öllu samstarfsfólki og viðskiptavinum í gegnum tíðina bestu þakkir.

Steinar sýnir blaðamanni Víkurfrétta teikningar af starfsemi Olís við Aðaltorg í Keflavík, við Marriott hótelið. Þar eru nú þegar komnar nokkrar dælur frá Olís sem m.a. sinna vel ferðamönnum sem koma til Íslands.

Baráttan um Olís

Það hefur oft verið barátta í kringum eignarhaldið á Olíuverslun Íslands, Olís. Steinari er það mjög minnistætt þegar Óli K. Sigurðsson keypti fyrirtækið. 

„Það var umtalað þegar Óli K. Sigurðsson eignaðist Olís með eftirminnilegum hætti. Það varð fræg saga um að Óli hafi borgað kaupin á Olís þannig að hann reiddi fram innistæðulausa ávísun á föstudegi eftir lokun banka en Óli hafi síðan tekið helgarsöluna hjá nýja fyrirtækinu sínu til þess að innistæða yrði fyrir ávísuninni þegar hún yrði innleyst á mánudagsmorguninn. Hann stóð síðan í hellings baráttu í framhaldinu um að halda fyrirtækinu. Umboðið mitt í Keflavík var stórt og með góða veltu þannig að Óli var í miklu sambandi við mig því hann þurfti að nota hverja krónu til að halda fyrirtækinu gangandi næstu mánuði og ár. Ég þurfti að vera með allar klær úti til að halda góðu peningaflælði fyrir kallinn. Sú barátta endaði nokkru síðar með því að Texaco varð stór hluthafi í Olís og þá kom ró á reksturinn. 

Steinar er með skemmtilega mynd af Óla heitnum við skrifborðið sitt í húsakynnum Olís í Njarðvík.