Óli Haukur bræðir heimsbyggðina
– tunglsljósið lýsir upp magnaða íslenska náttúru
„The most beautiful video you’ll ever see“ segir á vefnum UNILAD sem birti sl. fimmtudag magnað myndskeið frá Íslandi sem unnið er af OZZO Photography.
Það er Keflvíkingurinn Óli Haukur Mýrdal, Ozzo, sem stendur á bakvið myndskeiðið sem tekið er upp víðsvegar um Ísland.
Stærstur hluti myndbandsins er íslensk náttúra og útivist þar sem tunglsljósið er eini ljósgjafinn í myndatökunni. Þá taka norðurljósin við en myndskeiðið, sem er rúmar 3 mínútur, er sveipað ævintýraljóma.
Myndskeiðið hefur þegar fengið yfir tvær milljónir áhorfa á síðu UNILAD, því hefur verið deilt 14.500 sinnum og 42.000 hafa sýnt því viðbrögð með því að smella á like eða gefið önnur jákvæð viðbrögð. Þá hafa næstum 13.000 manns tjáð sig um efni myndskeiðsins.
Óli Haukur hefur náð langt í náttúruljósmyndun sinni og myndir hans hafa farið víða. Þá er hann jafnframt einn fremsti dróna-flugmaður landsins en myndskeiðið sem rætt er um hér að framan er allt myndað með dróna. Óli Haukur hefur unnið að verkefnum fyrir kvikmyndaframleiðendur víða úr heiminum og komið að „Hollywood-verkefnum“ með drónann.
Óli Haukur hefur einnig farið nýjar leiðir í drónaflugi og eitt af því sem hann reyndi á dögunum var að láta dróna draga kajak. Það má sjá í myndskeiðinu hér að neðan.