ÖLDUNGAR Í NÁMSFERÐ TIL BERLÍNAR
Þann 11. maí sl. héldu tíu konur af Suðurnesjum í 10 daga námsferð til Þýskalands. Guðbjörg Jónsdóttir kennari við Fjölbrautaskóla Suðurnesja skipulagði námsferðina fyrir nemendur í Þýsku 403 í Öldungadeild skólans í samvinnu við Volkshochschule Steglitz í Berlín. Í ferðinni fengu nemendur tækifæri til að nota þá kunnáttu sem þeir höfðu öðlast í þýskumælandi landi og bæta við sig.Menningarsjokk á farfuglaheimilinuFyrstu nóttina var gist á hóteli í Hamborg og daginn eftir var farið með lest til Berlínar. Thelma Jónsdóttir (Keflvíkingur með meiru) systir kennarans og dóttir eins nemandans tók á móti okkur á brautarstöðinni í Berlín. Hún var okkur síðan innan handar allan tímann á meðan dvölinni stóð. Dvalið var í átta nætur á farfuglaheimili í Austur-Berlín. Sumir fengu reyndar vægt menningarsjokk þegar þangað var komið en jöfnuðu sig fljótt. Fjóra morgna var farið í Volkshochschule Steglitz á þýskunámskeið. Á námskeiðinu var lögð áhersla á talþjálfun og gekk það frábærlega. Einn daginn fóru nemendur í starfskynningu á ýmsa vinnustaði í Berlín. Þar fengu þeir tækifæri til að kynnast mismunandi störfum sem tengjast þeirra eiginstörfum hér á Íslandi. Hertha Berlín og SvanavatniðÝmsir merkir staðir voru skoðaðir í borginni. Farið var á Ólympíuleikvanginn í Berlín og fylgst með leik Hertha Berlin og Hansa Rostock í þýsku bundesligunni. Þar voru um 80000 áhorfendur og stemmningin var gífurleg. Eyjólfur Sverrisson leikur með Hertha Berlín og fannst okkur meiriháttar að fá að sjá hann á leikvanginum og vorum við mjög stoltar af því að vera Íslendingar þetta kvöld. Þessi leikur mun seint líða okkur úr minni. Farið var á Svanavatnið (ballett) og gyðingatónleika sem voru frábærir. Dómkirkjan í Berlín var skoðuð og er það ein sú glæsilegasta kirkja sem við höfum augum litið, að utan sem að innan. Í Berlín minnir margt á seinni heimsstyrjöldina og þar á meðal safn sem heitir Checkpoint Charlie sem er staðsett á landamærum Austur- og Vestur Berlínar. Þangað fórum við og var það mjög áhrifamikið. Þar var m.a. sýnt frá byggingu Berlínarmúrsins og hvernig fólk reyndi að flýja yfir hann á mismunandi vegu. Einnig fórum við að sjá það sem eftir er af Berlínarmúrnum og gengum í gegnum Brandenburger Tor en þar var einmitt Berlínarborg skipt í tvo hluta með hinum fræga Berlínarmúr á árunum1961-1989. Í kastala í Vestur-BerlínSíðasta daginn færðum við okkur yfir í vesturhluta Berlínar og gistum í kastala. Í ferðinni kynntumst við því bæði borgarlífinu ásamt sveitinni og náttúrunni í Berlín og vorum við alsælar með ferðina. Til Berlínar vorið 2001Nemendur ferðarinnar höfðu flestir verið 4 annir í þýsku í Öldungadeild F.S og fannst þeim þeir læra mjög mikið í þessari ferð. Við hvetjum Suðurnesjamenn sem áhuga haf á að læra þýsku til að koma og læra þýsku í Öldungadeild Fjölbrautaskóla Suðurnesja en skráning fer einmitt fram þessa dagana. Hver veit nema að farið verði með hóp til Berlínar vorið 2001! Að lokum langar okkur að þakka þeim aðilum sem veittu okkur stuðning vegna ferðarinnar.