Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Mánudagur 27. maí 2002 kl. 09:05

Ólafur Thordersen setti met í þrekprófi slökkviliðsmanna BS

Ólafur Thordersen, bæjarfulltrúi og stjórnarmaður Brunavarna Suðurnesja, tók tilboði Sigmundar Eyþórssonar, slökkviliðsstjóra, á dögunum um að þeyta nýtt þrekpróf fyrir slökkviliðsmenn B.S. Prófið er uppbyggt með tilliti til slökkviliðsstarfa og mælir bæði styrk og þol þeirra. Sigríður Kristinsdóttir eigandi líkamsræktarstöðvar Perlunnar stjórnar þrekprófi Slökkviliðs B.S.
Sigmundur slökkviliðsstjóri tók síðan áskorun Ólafs og þeyttu þeir kappar prófið undir harðri stjórn og nákvæmri tímamælingu Sigríðar í Perlunni. Styrktarprófið, sem byggir á upphífingum, armbeyjum, þríhöfðaarmbeyjum, magaæfingum, réttstöðulyftu fór fram í Perlunni og stóðu þeir kappar sig með ágætum og uppfylltu lágmarksákvæði prófsins.

Að því loknu var haldið í Reykjaneshöllina en þar voru þeir klæddir í Reykköfunarbúnað slökkviliðsins, eða samtals 20 kg. búnað, sem endurspeglar búnað Reykkafara B.S. Í þrekprófinu, sem byggir á að ljúka 4,8 km. göngu með 20 kg. á bakinu innan tiltekins hámarkstíma, náði Ólafur forskoti á Sigmund og kom hann í mark á undan Sigmundi. Ólafur lauk því þrekprófinu á tæpum 26 mínútum en Sigmundur á rúmum 28 mínútum.

Að loknu prófinu sagði Sigmundur slökkviliðsstjóri “ég er mjög ánægður með útkomuna þó að skemmtilegra hefði verið að vinna Ólaf, en þessar niðurstöður endurspegla það að Ólafur er í mjög góðu líkamlegu formi og vel hæfur líkamlega til slökkviliðsstarfa. Þessi frábæri tími Ólafs slær tíma Ingvars Georgssonar út sem var besti tími B.S. til þessa, eða 27 mínútur og 30 sek.

Þetta framtak Ólafs er mikil hvatning fyrir okkur slökkviliðsmenn og okkur stjórnendur slökkviliðsins til að gera betur. Það er virkilega gaman og hvetjandi fyrir okkur að sveitarstjórnarmenn sýni mikilvægu málefni sem þessu svona áhuga. Á árunum hefur Ólafur átt ákveðið frumkvæði í því að slökkviliðsmenn hafa frjálsan aðgang að öllum líkamsræktarstöðvum í Reykjanesbæ‘‘ sagði Sigmundur Eyþórsson í samtali við Víkurfréttir á Netinu.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024