Mannlíf

Ólafur Björnsson níræður í dag
Þriðjudagur 22. apríl 2014 kl. 10:07

Ólafur Björnsson níræður í dag

Afmælisgreinar í tilefni dagsins.

Afi minn, Ólafur Björnsson fv. útgerðarmaður verður níræður þann 22. apríl næstkomandi.

Ólafur Björnsson fv. útgerðarmaður verður níræður þann 22. apríl næstkomandi.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Hér er vitnað í bók Sturlaugs bróður hans, Steinabáta, um komu hans til Keflavíkur.

„Þann 22. apríl 1929 (á afmæli Óla) kemur móðir mín Unnur Sturlaugsdóttir til Keflavíkur með mig og eldri bræður mína Ólaf og Magnús. Við komum frá fæðingarstað okkar, bænum Hnúki í Klofningshreppi í Dalasýslu.“.
Ólafur hefur verið virkur í þjóðfélagsumræðunni og í að skrá minningar sínar, m.a. í bókunum um Baldur hf og árin hjá Skeiðarsamlaginu ásamt Faxa og sjómannablaðinu Víkingi og fleiri ritum.  

Hér er tilvitnun í Ólaf. „Á togara vildi ég helst komast. Lengst af voru keflvískir sjómenn nær eingöngu bátamenn. Hér voru engir togarar. Þegar að ég var strákur var það fjarlægur draumur að komast á togara. Ég var einn um þann draum af mínum félögum.“

Sextán ára var Ólafur orðinn hausari á togaranum Venus frá Hafnarfirði. Ólafur lauk hinu meira fiskimannaprófi frá Stýrimannaskóla Íslands 1945. Var verkstjóri hjá Togaraútgerð Keflavíkur 1953-1956. Ólafur rak Baldur hf. í um þrjátíu ár og var í bæjarstjórn Keflavíkur fyrir Alþýðuflokkinn í tuttugu og fjögur ár. Hann átti hugmynd að fyrsta frambyggða bátnum sem smíðaður var við íslenskar aðstæður. Notaði fyrstur skutdrátt við Ísland á Baldri KE 97. Átti frumkvæði að ýmsum nýjungum við dragnótarveiðar.

Varaþingmaður var Ólafur árin 1978–1979. Formaður Olíusamlags Keflavíkur frá 1966. Í stjórn LÍU og SÍF og í fjölda nefnda á þeirra vegum 1968–1984. Formaður stjórnar Samlags skreiðarframleiðenda 1983–1991. Formaður stjórnar Heilsugæslu Suðurnesja og sjúkrahúss 1986–1990.

Verkalýðs- og sjómannafélag Keflavíkur og síðar Verkalýðs- og sjómannafélag Keflavíkur og nágrennis tilnefndi Ólaf sem heiðursfélaga. Ólafur var einn af aðalhvatamönnum að stofnun sjómannadeildar VSFK og var kjörinn fyrsti formaður deildarinnar og gegndi því starfi frá stofnun 1949 til ársins 1961. Þá var hann á sama tíma varaformaður félagsins. Hann var fulltrúi félagsins hjá Sjómannasambandi Íslands og sat í fyrstu framkvæmdastjórn sambandsins sem fyrsti varaforseti þess.

Ólafur missti konu sína  Margréti Zímsen Einarsdóttur árið 1966. Þau eignuðust sex börn. Árið 1970 giftist Ólafur Hrefnu Ólafsdóttur. Afkomendur Ólafs og Margrétar, sem flestir búa í Reykjanesbæ eru komir yfir sextíu.

Ólafur tekur á móti gestum í Bátasafninum á afmælisdaginn milli kl. 16 og 18. Gjafir eru afþakkaðar en þeir sem vilja geta lagt Velferðarsjóði Suðurnesja lið. Söfnunarbaukur fyrir sjóðinn verður á staðnum.

Ólafur Grétar Gunnarsson.

--

Apríl, 2014

Kæri vinur:

Þegar þú varðst áttræður, sendum við Bryndís þér afmæliskveðju með Mogganum á sólarstrendur í Suðrinu frá ísilögðum ströndum Finnska flóans við Eytsrasalt. Nú, áratug síðar, þegar þú fagnar níræðisafmælinu í góðravinahópi við fjöruborðið í Duushúsi, biðjum við Bryndís fyrir árnaðaróskir til þín og Hrefnu frá sólbökuðum ströndum Andalúsíu.

Það hefur ekki farið fram hjá okkur vinum þínum, hvað Elli kerling hefur lengi mátt fara halloka í glímunni við þig. Við þykjumst kunna á þessu skýringu. Sumir lifa samkvæmt þeirri kennisetningu, að allt eyðist sem af er tekið. Og spara kraftana fram í andlátið. Aðrir hafa fyrir satt, að allt eflist, sem á reynir, og hlífa sér því hvergi. Slíkir menn bera fúslega annarra byrðar. Og eflast við hverja raun.
Þannig maður er Ólafur Björnsson. Þannig höfum við, samferðamenn þínir, reynt þig í blíðu og stríðu.

Það er sama, hvar þú tókst til hendinni: Á dekkinu, í brúnni, við verkstjórn eða útflutning, í eigin rekstri eða við uppbyggingu heimabyggðar – alls staðar munaði um þig. Það er hverju orði sannara, sem Kjartan Jóhannsson sagði um þig sextugan:
„Enginn hefur verið af því svikinn að fela þér verk eða trúnað......“. Að ávinna sér traust samferðamanna af verkum sínum – hver getur kosið sér betri eftirmæli?
Frá því við samfögnuðum þér á áttræðisafmælinu fyrir áratug, hafa ógæfumenn reynt að gera ævistarf þinnar kynslóðar og forfeðra hennar og formæðra að engu með oflátungs- og flottræfilshætti, valdhroka og fjárgræðgi. Varð þar margur af aurum api. Svei þeim öllum – og megi þeir aldrei þrífast.
Ég gleymi hins vegar ekki æðruleysi þínu, þegar uppvíst var, að drjugum hluta af ævisparnaði þínum hafði verið rænt. Lífið hefur kennt Ólafi Björnssyni að kippa sér ekki upp við smámuni. Hann tekur því, sem að höndum ber, möglunarlaust. Sumir menn –  og þú ert í mínum huga ljóslifandi dæmi um það – gera allt AF engu; aðrir menn gera allt AÐ engu. Í því liggur gæfumunurinn.

Montgomery marskálkur, sem frægur varð af stríði sínu um eyðimerkur Norður-Afríku  gegn Rommel hinum þýska í seinni heimsstyrjöldinni, lýsti síðar einum liðsmanni sínum þannig síðar, að ef hann, (Montgomery) mætti velja aðeins einn mann til fylgdar sér í háskaför – og eiga svo líf sitt undir trúnaði hans, atfylgi og útsjónarsemi –  þá mundi hann velja þennan mann. Stæði ég í þeim sömu sporum, mundi ég hiklaust velja Ólaf Björnsson með mér í slíka glæfraför. Svo mikils met ég drengskap hans, karlmennsku og kjark.

Heill þér níræðum!
Þú lengi lifir!

Vinarkveðjur,
Jón Baldvin og Bryndís