Okkar eigin Grindavík
Undanfarin tuttugu ár hefur Grunnskólinn í Grindavík lagt metnað sinn í að vera með leikstjóra fyrir unglingastigið á árshátíðinni. Í ár var hins vegar erfitt að nálgast leikara til að leikstýra unglingunum og því var brugðið á það ráð að leita á nýjar slóðir. Marta Eiríksdóttir var fengin til verksins en hún hefur yfir tuttugu ára reynslu af leiklistarvinnu með börnum og unglingum. Marta er grunnskólakennari að mennt með viðbótarmenntun í leiklistarkennslu og leikstjórn, sem hún lærði í Danmörku á árum áður. Hún kenndi jafnframt leiklist í Fjölbrautaskóla Suðurnesja í fimm ár.
Þar sem Marta var ráðin frekar seint til verksins, ákvað hún að láta stuttan æfingatíma vinna með sér og leyfa nemendunum sjálfum að semja leikritið. Nemendur bjuggu því til draumastykkið sitt, sem fjallar um unglingalíf á gamansaman hátt.
Þetta er einvala lið hæfileikaríkra nemenda en allir þátttakendur eru í aðalhlutverkum. Söngur og dans mun krydda leiksýninguna ásamt einfaldri en fallegri sviðsmynd. Þetta verður alvöru unglinga leikhús, þar sem krakkarnir semja leikritið, semja líka suma söngtextana við skemmtileg lög og dansa nýjustu dansana.
Þegar Marta vinnur að leiksýningu með börnum og unglingum leggur hún alltaf mesta áherslu á að nýta skapandi kraft leikhópsins og að nemendur finni hvað þau vaxa í jákvæðri sjálfsmynd sinni við þátttökuna.
Framundan er stíft en skemmtilegt æfingatímabil hjá þrjátíu nemenda leikhópi, þar sem allir sem einn stefna að frábærri sýningu, sem vonandi gleður og kætir þá sem koma og sjá!
Bæjarsýningar verða 6. og 7 .apríl kl. 20:00-22:00 á hátíðarsal skólans. Einnig verða sýnd valin atriði frá miðstigi. Kaffi og veitingar verða til sölu og rennur ágóðinn í ferðasjóð 10. bekkinga. Miðaverð fyrir fullorðna kr.1000. Miðaverð fyrir börn á grunnskólaaldri kr. 500. Miðasala fer fram við innganginn. Árshátíðarblað, sem 10. bekkingar hafa unnið undanfarnar vikur, verður til sölu og kostar kr. 500.