Okkar eigin Eurovision-stjarna
- Sólborg Guðbrandsdóttir tekur þátt í undankeppni Söngvakeppninnar þann 10. febrúar nk.
Sólborg Guðbrandsdóttir kemur fram í undankeppni Söngvakeppni sjónvarpsins næstkomandi laugardag ásamt Tómasi Helga Wehmeier en þau flytja saman lagið „Ég og þú“. Sólborg er fædd og uppalin í Keflavík en að hennar sögn er söngur og að koma fram eitt það skemmtilegasta sem hún gerir. Fjölskyldan hennar er söngelsk en Davíð, bróðir hennar, semur íslenska textann við lagið „Ég og þú“ og Sigríður, systir hennar, syngur bakraddir ásamt Sigurði Smára, sem er einn af bestu vinum Sólborgar. Sólborg hefur starfað sem blaðamaður hjá Víkurfréttum frá því í fyrra, en við settumst niður með henni fyrir Söngvakeppnina þar sem að hún var í hlutverki viðmælanda en ekki blaðamanns.
Þurfti ekki að hugsa sig tvisvar um
Sólborg og Tómas kynntust í The Voice í fyrra þar sem þau voru bæði í Team Svala en Tómas hafði samband við Sólborgu eftir skilaboð frá Wales-búanum Rob Price á á Facebook. „Þegar hann hafði samband við mig með hugmynd að dúett fyrir keppnina, þá sagði ég strax já og þurfti ekkert að hugsa mig neitt um. Rob Price, sá sem hafði samband við Tómas og semur lagið með okkur, langaði að senda inn lag fyrir undankeppnina hér heima. Við hittumst þá og byrjuðum að spjalla saman, vorum komin með grunn að laginu þegar við fórum út til London þar sem við tókum lagið upp með Rob en það var mjög skemmtilegur tími.“
Söngvakeppnin góð kynning
Söngvakeppnin hefur verið talin góður stökkpallur fyrir söngvara og listamenn á Íslandi, en margir hafa öðlast töluverða frægð eftir að hafa tekið þátt í henni enda er keppnin eitt vinsælasta sjónvarpsefni þjóðarinnar sem annað hvort elskar að elska keppnina eða elskar að hata hana. „Þetta er svolítið stórt og „scary“ og það er pínu klisjukennt að segja að þetta hafi alltaf verið draumurinn en þetta er það samt sem áður. Söngvakeppnin eða Eurovision er eitt það besta sem maður getur gert til að koma sér á framfæri í tónlistarheiminum á Íslandi.“
Frá upptökum í London
Eru ekki kærustupar
Fjöldinn allur af fagfólki vinnur í kringum keppnina og það er hugsað vel um keppendur. „Það er sjúklega vel haldið utan um okkur öll, við erum velkomin alls staðar, allir eru svo næs og það er fagfólk í hverju horni. Það skiptir engu máli hvort þú ert fagmaður í faginu eða nýliði, þetta er allt saman svo ótrúlega gaman.“
Tómas og Sólborg eru búin að kynnast vel í öllu ferlinu en þau eru oft spurð hvort þau séu kærustupar. „Við erum ekki par,“ segir Sólborg og hlær, en að hennar sögn eru þau einnig ólíkir tónlistarmenn. „En einhvern veginn náum við vel saman í þessu lagi.“
Var laglaus á sínum yngri árum
Þegar Sólborg var lítil var hún frekar laglaus að eigin sögn. Hún kom fyrst opinberlega fram fyrir framan fólk á ættarmóti þegar hún var krakki. „Ég man hvað ég var ótrúlega stressuð, en það verður minna mál að koma fram með hverju giggi.“ Sólborg hefur tekið þátt í hinum ýmsu söngvakeppnum í gegnum árin og einnig í fleiri uppákomum. „Ég hef tekið þátt í Samfés, Hljóðnemanum í FS og reynt að komast inn í Söngvakeppni framhaldsskólanna, ég tók þátt í The Voice, fór í áheyrnaprufu fyrir Röddina og núna er ég í Eurovision. Ég hef líka tekið þátt í uppfærslum hjá Leikfélagi Keflavíkur. Mér finnst mjög gaman að leika.“
Þá hefur Sólborg einnig tekið þátt í uppsetningu Með blik í auga á Ljósanótt sem hefur notið mikilla vinsælda síðustu ár en hún hefur meðal annars verið í bakröddum á þeim sýningum.
Nýtur augnabliksins
Þegar Sólborg er spurð að því fyrir hverju hún sé spenntust á laugardaginn næstkomandi segist hún hlakka mikið til þess að klára þetta. „Það er ekki því mig langar að drífa þetta af, því ég er virkilega að njóta augnabliksins og hvers skrefs í ferlinu en ég hlakka svo til þegar ég er búin að klára undankeppnina því þetta er búið að vera svo langur aðdragandi og ótrúlega mikið að gera, þó mér finnist það mjög skemmtilegt. Þetta hefur einhvern veginn verið svo fjarstætt í langan tíma en núna er komið að þessu og ég hlakka til að geta sagt: „Ég tók þátt í Eurovision.“
Uppáhaldsmatur?
Nautakjöt og hnetusteik.
Uppáhaldsflík?
Gervipels sem ég var að kaupa í H&M. Er búin að vera nokkuð dugleg að mynda mig í honum.
Uppáhalds-app?
Instagram (solborgg).
Saknar þú hársins?
Stundum. Ég sakna þess þegar það er kalt úti, ég sakna þess að geta sett það í tagl og snúð – en svo sakna ég þess ekki því það var svo mikið vesen einmitt að þurfa að setja það í snúð.
Uppáhaldsdrykkur?
Ég ætti að segja vatn, en það er Monster og Coke.
Hvað finnst þér skemmtilegast að gera fyrir utan það að syngja og koma fram?
Mér finnst mjög gaman að skrifa, hvort sem það er tengt starfi mínu sem blaðamaður eða MORFÍs og mér finnst líka gaman að semja tónlist.
Hvað ætlar þú að verða þegar þú verður stór?
Mig langar að vinna við tónlist og í fjölmiðlum, ætli það verði ekki einhver blanda af því.
Mottó?
Betra er að vera sein og sæt heldur en fljót og ljót.
Hér að neðan má sjá viðtal við Sólborgu og Tómas sem birtist í Suðurnesjamagasíni Víkurfrétta.