Ókeypis leiðsögunám með stuðningi stjórnvalda
Með falli WOW air varð til aðgerðaráætlun Mennta- og menningarmálaráðuneytis fyrir Suðurnesin sem snýr að hagnýtingu tækifæra. Miðstöð símenntunar á Suðurnesjum, lagði meðal annars til að svæðisbundið leiðsögunám yrði styrkt í þeim aðgerðum yfirvalda. Markmið með aðgerðinni var að efla ferðaþjónustu á svæðinu og auka tækifæri til nýrra atvinnutækifæra. Styrkur Mennta- og menningarmálaráðuneytisins í haustbyrjun gerði það að verkum að unnt var að bjóða Leiðsögunám hjá MSS án skólagjalda og þurftu þátttakendur því eingöngu að greiða fyrir inntökupróf í erlendu tungumáli. Teknir voru inn þrjátíu nemendur sem er jafnframt stærsti einstaki hópur sem hefur skráð sig í leiðsögunámið hjá MSS. Með náminu eflist þekking á meðal þátttakenda á Reykjanesskaga og gefur þeim möguleika til að skapa ný atvinnutækifæri, sem getur leitt til aukins ferðamannastraums og lengingu dvalar ferðamanna á svæðinu.
Einstakt tækifæri
Guðjónína Sæmundsdóttir, er forstöðumaður Miðstöðvar símenntunar á Suðurnesjum. Við hittum hana að máli og forvitnuðumst um þessar aðgerðir stjórnvalda fyrir íbúa Suðurnesja.
Leiðsögunámið var eitt af úrræðum
Mennta- og menningarmálaráðuneytisins. Námið sem fór af stað í haustbyrjun, var einstakt tækifæri fyrir fólk sem hafði dreymt um að fara í leiðsögunám. Við komum með tillögur sem yfirvöld samþykktu og eitt af því var þetta nám. Leiðsögunámið hefur það að markmiði að nemendur öðlist sérmenntun á sviði leiðsagnar og hafi færni og hæfni til þess að standast kröfur ferðaþjónustunnar hverju sinni um áreiðanleika og fagleg vinnubrögð. Að auki mæltum við með íslenskunámskeiði, náms-og starfsráðgjöf, starfsþróunarnámskeiði og frumkvöðlanámskeiði. Öll námskeiðin fara fram á íslensku og nokkur á ensku og pólsku. Ennfremur erum við með Menntastoðir, Skrifstofuskóla 1 og 2. Síðan erum við með Stökkpall sem er námsleið fyrir ungt fólk. Þá bjóðum við upp á kvennasmiðju og karlasmiðju en þar erum við að vinna með sjálfsuppbyggingu og frumkvæði,“ segir hún
Getur opnar ýmsar dyr
„Ég kláraði sjálf leiðsögunámið árið 2017 og veit af eigin raun að þetta er mjög áhugavert nám. Ég er ferðamálafræðingur í grunninn og átti þann draum að fara í leiðsögumanninn en hafði sjálf ekki tækifæri til þess fyrr en börnin mín voru orðin eldri. Ég elska útiveru og geng mikið á fjöll. Ég er ekki mikið í leiðsögn í dag en geri það stundum. Það var kappsmál mitt að koma leiðsögunáminu á koppinn hjá MSS á sínum tíma. Það tókst ekki alveg strax í byrjun þegar við vildum bjóða upp á þetta nám fyrst en tókst svo árið 2004 en ég hafði brennandi áhuga og vissi að námið myndi gagnast svæðinu því hér eru svo margir möguleikar á sviði ferðaþjónustu. Þegar maður hefur trú á einhverju þá getur svo margt gerst, maður finnur ákveðnar lausnir. Í dag erum við að uppskera og útskrifa leiðsögumenn frá MSS. Viðfangsefni leiðsögunámsins eru margvísleg en farið er yfir sögu Íslands, jarðfræði, gróðurfar, mannlíf, tengingu við þjóðsögur og bókmenntir, auk hagnýtra atriða varðandi skipulag ferða, leiðsögutækni, samskipti og margt fleira. Hluti af náminu er svokallað svæðisbundið leiðsögunám þar sem áhersla er lögð á Reykjanesskaga. Inntökukröfur í leiðsögunámið er stúdentspróf eða sambærilegt, 21. árs og eldri. Miðað við aðsóknina í námið sáum við að margir höfðu látið sig dreyma um þetta nám en því miður var ekki pláss fyrir alla. Þetta er heilmikið nám sem gengur ekki bara út á gönguferðir og útiveru. Við erum í samstarfi við Menntaskólann í Kópavogi sem útskrifa með okkur. Við kennum námið á einu ári og þeir sem vilja bæta við sig geta tekið eitt ár í MK. Það er hægt að sérhæfa sig í fjallaleiðsögn, gönguleiðsögn og rútuleiðsögn fyrir allt landið. Hver leiðsögumaður hefur tækifæri til að skapa sitt eigið vörumerki og höfum við flott dæmi um það eins og Nanný með gönguferðirnar, Reynir sem tekur á móti fjölmörgum hópum og Helga Ingimundar. Þeir sem skapa sér sérstöðu geta fengið ágætar tekjur úr þessu. Atvinnumöguleikar ráðast af fólkinu sjálfu og áhuga þeirra. Leigubílstjórar geta til dæmis haft mikla möguleika sem leiðsögumenn og einnig rútubílstjórar sem vilja sameina þessi störf sín við leiðsögn. Svo eru þeir sem eru hættir að vinna, komnir á eftirlaun en hafa gaman af til dæmis sögum sem hægt er að tengja við landssvæði. Þetta fólk velur oft rútuleiðsögn eða léttari gönguferðir. Mér finnst persónulega skemmtilegast að fara um náttúruna enda er hún einstök hér og mikil jarðfræði og sögur sem tengjast náttúrunni“ segir Guðjónína.
Leiðsögunámið er kennt á haustönn 2019 og vorönn 2020. Kennt er tvö kvöld í viku og einstaka helgar verða vettvangs- og æfingarferðir. Námið veitir rétt til inngöngu í Félag leiðsögumanna.
Vilja hjálpa fólki af stað með hugmyndir sínar
Það hafa margir nemendur hjá MSS öðlast sjálfstraust og hugrekki til að fara af stað út í lífið og látið drauma sína rætast í framhaldinu.
„Okkar hlutverk er að vera til staðar fyrir einstaklinga sem vilja bæta líf sitt, vilja mennta sig, einstaklinga sem eru með hugmyndir og langar til að koma þeim af stað. Við bjóðum alla velkomna, þá sem vilja bæta við sig kunnáttu, vilja efla sig sjálf, þá sem vantar ráðgjöf, þá sem eru skapandi, svo dæmi séu tekin. MSS hefur yfir að ráða hæfu og metnaðarfullu starfsfólki sem er tilbúið að aðstoða alla. Það er bara að líta við,“ segir hún að lokum.