Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Ógerlegt að greina á milli eftirlætisbóka og -höfunda
Sunnudagur 22. desember 2019 kl. 08:11

Ógerlegt að greina á milli eftirlætisbóka og -höfunda

– Skúli Thoroddsen lögfræðingur og rithöfundur er lesandi vikunnar.

Lesandi vikunnar í Bókasafni Reykjanesbæjar er Skúli Thoroddsen en hann er einn af þeim sem gaf út nýja bók fyrir jólin, bókina Ína.

Hvaða bók ertu að lesa núna?

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Veröld sem var, sjálfsævisögu Stefan Zweig, enn eina ferðina og var að ljúka við Olgu eftir Bernhard Schlink, höfund Lesarans, sem var aldeilis frábær.

Hver er þín eftirlætisbók?

Þær eru svo margar að ógerlegt er að greina á milli.

Hver er eftirlætishöfundurinn þinn?

Þeir eru margir; Ismail Kadaré (Albani), Amos Oz (Ísraeli), Pamuk (Tyrki), Ivan Klima (Tékki) og þeir Steinbeck, Hemingway, Scott Fitzgerald og Joyce Carol Oates frá Bandaríkjunum, Rússarnir eru Tolstoy, Gorky og Dostojevskí, frá Svíþjóð Kerstin Ekman, Knut Hamsum (Norðmaður), Nexö (Dani) og William Heinesen (Færeyingur og Bandaríkjamaður). Af íslenskum er Þórbergur Þórðarson minn maður, Jóhannes úr Kötlum, Snorri Hjartason, Sigfús Daðason, Thor og höfundur Njálu. Af núlifandi eru það Jón Kalman, Gyrðir og Einar Már en það er ómögulegt að gera upp á milli snillinganna.

Hvernig bækur lestu helst?

Ljóðabækur og skáldsögur en ég dett líka af og til í reyfara, einkum sænska.

Hvaða bók hefur haft mest áhrif á þig?

Jóhann Kristófer eftir franska skáldið Romain Rolland. Verkið var samið gegn ríkjandi hugmyndum tímans, gegn afstöðu eða afstöðuleysi þeirrar listar sem þá var í tísku, hálfkákinu og hálfvelgjunni á tímabili siðferðilegar og félagslegrar rotnunar (á enn við). Hann vildi sýna einingu mannanna, hversu margbreytilegt form hennar kann að vera, sem sé höfuðmarkmið listarinnar og vísindanna. Hreinn húmanismi hjá Rolland, þ.e. manngæska og samkennd með mönnum.

Hvaða bók ættu allir að lesa?

Veröld sem var.

Hvar finnst þér best að lesa?

Í stólnum mínum.

Hvaða bækur standa upp úr sem þú vilt mæla með?

Bréf til Láru, (Þórbergur), Yfir Ebrofljótið (Álfrún Gunnlaugsdóttir) og Vopnin kvödd (Hemingway).

Bókasafn Reykjanesbæjar er opið alla virka daga frá klukkan 9 til 18 og á laugardögum frá klukkan 11 til 17. Á heimasíðu safnsins sofn.reykjanesbaer.is/bokasafn er hægt að mæla með Lesanda vikunnar.