Ógeðslegt rusl fyllir höfin
Listahátíð barna lauk um nýliðna helgi en á hátíðinni skaut endurunninn risafiskur upp kollinum á Keflavíkurtúni. Ferlíkinu er ætlað að minna okkur á að passa upp á höfin sem eru að fyllast af plasti.
„Verkefnið hófst þannig að Valgerður Guðmundsdóttir, menningarfulltrúi Reykjanesbæjar, leitaði til okkar fyrir hönd Listasafns Reykjanesbæjar með hugmynd að verkefni fyrir Listahátíð barna,“ segja þær Anna María, myndlistarmaður, og Þórey Ösp Gunnarsdóttir sem voru smiðjustjórar verkefnisins en risafiskur þessi er heljarmikil skepna sem ætti ekki að fara fram hjá neinum sem á leið um nágrenni Keflavíkurtúnsins við Duus Safnahús.
„Í ár var yfirskrift Listahátíðar barna „Hreinn heimur, betri heimur“ og var hátíðin tileinkuð umhverfisvernd,“ segir Anna María. „Verkefnið var viðamikið og Valgerður hefur þurft að finna einhverjar nógu klikkaðar til að taka það að sér … svo hún leitaði til okkar.“
Fríholtið finnst
Það var árið 2014 að Tómas Knútsson, hershöfðingi Bláa hersins, fann fríholt í Víðisandsfjöru sem er á milli Herdísarvíkur og Strandakirkju. Það var svo í fyrra, þegar Blái herinn átti þátt í strandhreinsiverkefni með sendiráðunum í tilefni alheimshreinsunardagsins, að fríholtið var sótt og fært til Þorlákshafnar. „Fróður maður úr Ölfusinu sagði við mig að fríholtið, sem er núna á Keflavíkurtúninu, hafi komið árið 2001 í fjöruna á Víðisandi,“ sagði Tómas. Hann flutti svo fríholtið til Reykjanesbæjar og færði Listasafninu.
Svona stór fríholt eru engin smásmíði og þau eru notuð á hafi úti þegar skip leggjast hvort upp að öðru, þá eru minni fríholt notuð þar sem bátar leggjast að bryggju.
Tommi Knúts ferjaði fríholtið til Reykjanesbæjar.
Þannig að verkið hefur orðið flóknara en þið bjuggust við?
„Nei, svona er að vinna að list. Það eru margar áskoranir sem maður mætir,“ segir Anna María og Þórey bætir við: „Þetta byrjaði kannski sem einföld hugmynd en það komu sífellt fleiri að verkinu til að leysa ýmis vandamál sem komu upp í ferlinu.“
Valgerður fékk þá hugmynd að fá unglinga úr Fjörheimum til að aðstoða við gerð risafisksins þar sem hún vissi að þau væru í fjáröflun. Krakkarnir stóðu sig vel, mættu í þrjú skipti til að flokka plastrusl og taka þátt í að skapa skúlptúrinn.
Fjölskyldudagur Listahátíðar barna
„Á laugardeginum varð þetta gjörningur þar sem við og krakkarnir vorum að vinna við að búa til þennan fisk og öllum bæjarbúum stóð til boða að koma og taka þátt í að bæta rusli á hann,“ segja þær stöllur.
Gjörningurinn á fjölskyldudeginum.
Og voru bæjarbúar viljugir að taka þátt?
„Nei,“ segja þær báðar í kór. „Örfáir tóku þátt. Það er svolítið þannig að eftir að við höfum hent ruslinu í sorptunnuna þá er það orðið skítugt og ógeðslegt og við viljum helst ekkert vera að koma of nærri því,“ segir Anna María. „Krakkar sýndu þessu áhuga en foreldrarnir héldu þeim í ákveðinni fjarlægð og voru duglegir að beina athygli þeirra annað.“
„Þetta er mjög lýsandi fyrir viðhorf fólks gagnvart umhverfismálum,“ segir Þórey. „Fólk talar mikið um umhverfisvernd en þegar á hólminn er komið reynist það oft vera frekar í orði en á borði. Það vill ekki óhreinka sjálft sig ...“
Þórey bætir við: „… en margir stöldruðu við og sýndu þessu áhuga. Spurðu af hverju við værum að gera þetta og spjölluðu við okkur um náttúruvernd. Ekki bara meðan á hátíðinni sjálfri stóð heldur líka á meðan við vorum að undirbúa verkið.“
… með rauða kúlu á maganum
Skilaboð þessa gjörnings voru náttúrlega að vekja athygli á þessari gríðarlegu plastmengun sem er í hafinu,“ segir Anna María. „… og ekki bara í hafinu heldur líka í heimilissorpinu. Sem dæmi þá er ótrúlegt magn af plastumbúðum sem kemur bara úr Costco, það er bara ein verslun!“
Þórey heldur áfram: „Það var sláandi að sjá hvað ein búð getur haft mikil áhrif, krakkarnir týndu upp úr pokunum:“ „Costco, Costco, Costco ....,“ segja þær í kór.
Hefur skepnan hlotið eitthvað nafn?
„Hún hefur gengið undir nafninu Fagur fiskur í sjó,“ segir Anna María. „Og við bættum meira að segja rauðri kúlu á magann á honum,“ bætir Þórey hlæjandi við.
Tómas afhendir fríholtið.
Hvernig finnst ykkur þetta hafa heppnast?
„Mér fannst skilaboðin alveg komast til skila,“ segir Anna María. „Mér fannst mjög áhrifaríkt að sjá hvað fólk var forvitið og tilbúið að spjalla en það vildi helst ekki snerta. Það sýnir eiginlega vandamálið í hnotskurn. Neysla er ekki einkamál, við sitjum öll uppi með þetta. Svo finnst mér frábært að Listasafnið skuli leita til listamanna í bæjarfélaginu og bjóða íbúum að taka þátt – líka að leita til barna, það er í anda Listahátíðar barna.“
„Verkefnið heppnaðist vel og tókst að ljúka við það á tilsettum tíma þó verkið stækkaði sífellt og vatt upp á sig. Sennilega hefði aldrei tekist nema með aðstoð góðra manna eins og þeirra á þjónustumiðstöð bæjarins, sérstaklega Gumma [Birkissyni] sem logsauð sporðinn á fisknum fyrir okkur,“ segir Þórey. „Þeir ferjuðu fiskinn líka fyrir okkur og svo má ekki gleyma Gámaþjónustunni í Hafnarfirði sem safnaði fyrir okkur þremur körum af plasti.“
„Svo fær fiskurinn að standa eins langt fram á sumar og hann þolir,“ segir Anna María. „Helst fram yfir Ljósanótt.“