Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Ógeðslega spennandi hrollvekja
Hilmar Bragi Bárðarson
Hilmar Bragi Bárðarson skrifar
sunnudaginn 22. október 2023 kl. 06:04

Ógeðslega spennandi hrollvekja

SKÓLASLIT 3: Öskurdagur er spennandi og hrollvekjandi lestrarupplifun fyrir áhugasama og forvitna krakka og líka alla hina sem vilja vera með. Lestrarupplifunin er í boði Reykjanesbæjar og er hugarfóstur kennsluráðgjafa á Suðurnesjum og Ævars Þórs Benediktssonar rithöfundar. Á hverjum virkum degi í október mun birtast einn kafli úr sögunni ásamt myndlýsingu Ara Hlyns Guðmundssonar Yates inni á skolaslit.is. Þar er einnig hægt að hlusta á kaflana. Sagan er sögð með miðstig grunnskóla í huga en er í raun fyrir alla sem þora. Sagan nær svo hámarki þann 31. október.

„Við erum komin í gang aftur og erum í raun að ljúka þessu ferðalagi með Skólaslitum 3 í þessari frábæru seríu. Þetta fer vel af stað í ár líkt og undanfarin ár. Við vitum svo sem út í hvað við erum að fara. Það er hrollvekja og hún gerist hér á svæðinu. Okkar krakkar í Reykjanesbæ og Suðurnesjabæ hafa að einhverju leyti áhrif á framgang sögunnar,“ segir Anna Hulda Einarsdóttir, kennsluráðgjafi hjá Reykjanesbæ.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Sagan er eins og áður skrifuð af Ævari Þór Benediktssyni og Ari Yates myndskreytir en hann teiknar mynd fyrir hvern einasta kafla sögunnar.

Aldrei verið eins spennt

„Þetta er bara ógeðslega spennandi og við í Fjörheimum höfum aldrei verið eins spennt og við erum núna. Við ætlum að halda draugahúsið sem við vorum með 2021 aftur og ég held að ég geti fullyrt að þetta verður stærsta draugahús samtímans,“ segir Ólafur Bergur Ólafsson, tómstundaleiðbeinandi Fjörheima og 88 Hússins.

„Október er undirlagður í skólunum okkar og einnig í Fjörheimum,“ segir Anna Hulda og Ólafur Bergur bætir því við að það sé búið að halda vampíruvöfflukvöld og vera með blóðsósuskreytingar. „Þetta er bara geggjað verkefni og gaman að fá að ljúka því með þessum hætti og það er mikil stemmning í öllum sem taka þátt“.

„Það er skemmtilegt að þetta er hrollvekja. Það eru uppvakningar og allskonar skemmtilegt en það er líka verið að taka á málefnum líðandi stundar eins og samskiptum, vináttu, hinseginleikinn kemur við sögu og bara fjölbreytileikinn í allri sinni frábæru mynd. Það eru allskonar málefni sem eru tekin til umfjöllunar í sögunni og frábært tækifæri fyrir kennara, foreldra, starfsfólk félagsmiðstöðvarinnar og í raun alla til að taka þátt í,“ segir Anna Hulda. Ólafur Bergur bætir við að þetta sé geggjað verkefni og það sé gaman að segja frá því að Fjörheimar eru að fara af stað með Halloween- eða skólaslitaklúbb sem ætlar að skipuleggja draugahúsið sem verður opið 31. október. „Þau sem hafa áhuga á að taka þátt í honum geta kíkt til okkar í Fjörheima á mánudags- og miðvikudagskvöldum frá 18:30 til 20:00. Það verður stór hópur ungmenna úr 8. til 10. bekk sem mun setja upp þetta draugahús. Í hitteðfyrra mættu í kringum 2.000 manns úr Reykjanesbæ og af Suðurnesjum. Ég veit einnig til þess að það kom fólk af höfuðborgarsvæðinu í heimsókn. Þetta draugahús er risaverkefni inni í öðru risaverkefni sem Skólaslit 3 eru,“ segir Ólafur Bergur.

Anna Hulda segir að hver skóli fyrir sig sé svo með sérstök verkefni tengd sögunni frá degi til dags. „Það er líka svo gaman að þetta er sagan okkar og hún gerist á okkar svæði. Það sem komið er af sögunni í ár gerist í flugstöðinni, þannig að við þekkjum sögusviðið og getum tengt vel við það“.

Ólafur Bergur segir að það sé örugglega gaman fyrir krakkana að sjá sitt samfélag í sögunni.

Ólafur Bergur Ólafsson og Anna Hulda Einarsdóttir. VF/Hilmar Bragi

Fengu tækifæri til að hafa áhrif á söguna

Ævar Þór Benediktsson heimsótti alla skólana á Suðurnesjum í september áður en hann hóf að skrifa söguna. Hann sagði frá Skólaslitum 3 og gaf nemendum sem hann talaði við tækifæri á að koma með hugmyndir inn í söguna. Í tengslum við söguna í ár vann unglingaráð Fjörheima stiklu eða myndband með vísun í söguna. Unglingaráðið hefur jafnframt komið að myndbandagerð fyrir tvær fyrri skólaslitasögurnar. „Stiklan í ár er einstaklega hrollvekjandi og alveg á heimsmælikvarða,“ segir Ólafur Bergur og hann segir að ungmennin í Fjörheimum séu algjörir snillingar. „Við erum mjög stolt af þeim og við erum líka þakklát að fá að taka þátt í þessu verkefni sem brýtur upp október á skemmtilegan hátt“.

Anna Hulda segir að þetta verkefni um Skólaslit komi til með að setja mark sitt á október um komandi ár. Skólaslitum sé ekki lokið þó svo það komi ekki ný saga á næsta ári. Skólarnir eigi þessa sögu og geta unnið með hana með nýjum árgöngum á næstu árum. „Þetta er eitthvað sem er komið til að vera,“ segir Anna Hulda.

Viðtal við Önnu Huldu og Ólaf Berg er í spilaranum hér að neðan.

Myndir Ara Yates úr nýjustu sögunni.