Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Ofvirkur áhættufíkill
Sunnudagur 7. október 2012 kl. 11:39

Ofvirkur áhættufíkill

Þessa dagana er Heilsu- og forvarnarvika í Reykjanesbæ.  Þetta er í fimmta skiptið sem  þessi vika er haldin en markmiðið með heilsu- og forvarnarvikunni er að draga úr þeim áhættuþáttum sem einstaklingur getur staðið  frammi fyrir á lífsleiðinni og hlúa að verndandi þáttum með þátttöku allra bæjarbúa. Gunnar Örn Guðmundsson er 67 ára Njarðvíkingur sem hefur verið viðloðinn íþróttir og hreyfingu nánast allt sitt líf. Hann er á því að með því að halda sér ávallt í góðu formi hafi lífi hans verið þyrmt fyrr á þessu ári. Gunnar sem ávallt hefur verið við hestaheilsu fékk fyrir hjartað nú fyrr í ár en þá uppgötvaðist að hann var með erfðatengdan hjartasjúkdóm. Hann fór í hjartaaðgerð í janúar sl. en var fljótlega kominn á ról aftur. Í maí var hann farinn að taka þátt í hlaupum og hann hljóp svo 10 km í Reykjavíkurmaraþoninu nú í ágúst. Nú er það þríþrautin sem á hug hans allan.

Stelpan mín hún Sigurbjörg getur verið frekar ýtin, en hún fékk mig til þess að byrja á þessu,“ segir Gunnar en hann hafði eitthvað vílað því fyrir sér þar sem hann var nánast ósyndur. „Ég var einn af þessum óþekktaröngum í gamla daga sem nennti aldrei í sund, þannig að ég kunni ekki að synda fyrr en fyrir ári síðan. Til þess að geta verið með í þríþraut þá þarf maður að geta synt,“ segir Gunnar en hann er duglegur að synda núorðið enda er dóttir hans fyrrum afreksmaður í sundi og styður vel við bakið á þeim gamla. Gunnar hefur verið í ýmsu í gegnum tíðina og að eigin sögn hefur hann snert á flestum í þróttum.

Íþróttaferill Gunnars er orðinn æði langur en hann hófst í körfuboltanum með Njarðvík uppi á Keflavíkurflugvelli. Gunnar er margfaldur Íslandsmeistari í körfubolta í svokölluðum „old boys“ flokki en hann er enn að mæta á æfingar bæði í körfunni og fótboltanum sem hann hefur lengi lagt stund á. Það tæki líklega of mikið pláss að rita niður allar þær íþróttir sem Gunnar hefur lagt fyrir sig en hann hefur verið í nánast öllu nema sundi. „Ég hef verið nánast í öllu nema sundi, verið alger alæta á alla hreyfingu,“ en þar er Gunnar ekki að ýkja, hann hefur verið í boltaíþróttunum, hlaupi, tennis, badminton, stundað fjallgöngur og svo var hann öflugur í júdó.

Varð Íslandsmeistari í júdó
Júdóferillinn var blómlegur en Gunnar krækti sér þar í Íslandsmeistaratitil. „Ég byrjaði í júdó um þrítugt. Æfði eins og skepna í rúmt ár og varð Íslandsmeistari í 73 kg flokknum. Það var varla hægt að vera á fullu í júdóinu en maður var með fjölskyldu og að vinna mikið á þeim tíma. Við konan ákváðum að það yrði ár tekið í þetta á fullu og svo slakaði ég aðeins á í þessu,“ en það er eitthvað sem Gunnar á frekar erfitt með, að slaka á.

„Ég hefði sennilega getað verið sendur á Breiðavík á sínum tíma. Ég var ansi virkur skulum við segja,“ segir Gunnar og brosir út í annað. Það er saga að segja frá því að eftir hjartaaðgerðina í byrjun árs ætlaði Gunnar fremur geyst úr bælinu og ætlaði að taka endurhæfinguna á öðru hundraðinu. Læknirinn kallaði hann inn á teppið til sín „Hann sagði að ég þyrfti nú að átta mig á því að ég væri ofvirkur. Ég hef alltaf verið með góða hreyfigetu og maður er búinn að brjóta nánast hvert bein í líkamanum á þessu brölti í gegnum tíðina,“  en það var þó áður en Gunnar gerðist fjölskyldumaður og Ásdís Friðriksdóttir eiginkona hans náði að róa hann örlítið niður.

„Maður er samt áhættufíkill, það má alveg segja það,“ en Gunnar fékk gamlan draum uppfylltan fyrir nokkrum árum þegar hann sveif fram af 1000 metra klettabrún í Slóveníu í sviffallhlíf sem stjórnað var af þaulreyndum manni. „Við skutumst upp í miklu uppstreymi. Það henti okkur alveg hundrað metrum ofar og það var eitthvað það svakalegasta sem ég hef lent í. Kikkið var draumi líkast.“ Gunnar lætur ekki þar við sitja en hann stundar einnig flúðasiglingar og þeystist um á mótorhjólum hér á árum áður. „Ég slasaði mig alltaf hæfilega mikið“, segir Gunnar og hlær.

(framhald neðan við myndina)



Þríþrautin er Gunnari hugfanginn en hún á hug hans allan um þessar mundir. „Þetta er svo fjölskylduvænt. Þar er m.a. í boði hin stórsniðuga fjölskylduþraut, þar sem allir fjölskyldumeðlimir geta tekið þátt. Nú í ár tókum við hjónin og barnabarn okkar þátt í þrautinni en þá er greinunum skipt á milli fólks. Einn hleypur, annar hjólar og sá þriðji syndir. “ Gunnar er virkilega hrifinn af fyrirkomulaginu í þríþrautinni en þar er aðallega hugsað um að hver einstaklingur fari á sínum hraða og hreyfingin er það sem öllu skiptir. Þrisvar til fjórum sinnum í viku fer Gunnar og iðkar hreyfingu. „Mér finnst best að stunda alhliða hreyfingu. Maður á ekki að fúlsa við neinu og um að gera að hreyfa sig bara. Að mínu mati er alger skömm að nýta sér það ekki til fullnustu ef maður fæðist heilbrigður og getur stundað hreyfingu. Ég er rosalega þakklátur fyrir að hafa fæðst heilbrigður og geta haldið heilsunni við með því að hreyfa mig,“ segir orkuboltinn Gunnar.

Heilsan hefur alltaf skipt Gunnar máli og þrátt fyrir smá bakslag þá á hann hreyfingunni og íþróttum líf sitt að launa eins og áður segir. „Það eru engin vandamál hjá mér í dag. Ég er búinn að vinna bug á þessu.“ Hann segir þó mikla vinnu að baki en hann þurfti að byrja á núlli aftur eftir aðgerðina. „Læknarnir sögðu að ef ég væri ekki við svona góða heilsu þá væri ég löngu dauður,“ en eins og áður segir var það arfgengur sjúkdómur sem er þess eðlis að æðarnar stíflast upp af kalki sem varð til þess að Gunnar fékk fyrir hjartað. Að öðru leyti var hann stálsleginn.

Ellin bara hugarburður
Aldurinn er ekki að vefjast fyrir honum þótt hann sé orðinn löggilt gamalmenni. „Ég hef ekki gert mér grein fyrir því en ég er alltaf 20 árum eldri en allir aðrir þegar ég er á æfingum í fótboltanum og körfunni. Ég bara fatta það ekki, ég er bara ég og ég er ekkert að hugsa um aldur. Sennilega hefur það í för með sér að maður getur haldið lengur áfram. Maður er ekkert gamall, það er bara í hausnum á manni,“ segir Gunnar og hann er hvergi nærri hættur. „Ég var nú búinn að lofa því að hætta þegar ég yrði 65 ára. Ég sagði síðan við strákana sem eru með mér í „old boys“ að ég væri bara orðinn svo góður og hraður eftir aðgerðina að ég yrði bara að halda áfram,“ segir hann að lokum og skellir upp úr.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024