Ofurfæða í eldhúsið
Á Suðurnesjum er mjög fjölbreytt úrval næringarríkra þörunga í fjörunni
Baunir eru úrvalsfæða og auðvelt að nota í alla matreiðslu. Vilji fólk lækka matarreikninginn ætti það endilega að bæta baunum á innkaupalistann. Baunir eru hollar, trefjaríkar og innihalda steinefni, fjölda vítamína og mjög próteinríkar.
Þarinn í fjörunni er einnig mjög næringarríkur og kostar ekki krónu ef þú vilt byrja að nýta hann í eldhúsinu þínu
Hummus, eða kjúklingabaunamauk, er gott meðlæti með mat eða sem álegg. Þegar þú vilt búa til hummus frá grunni þá þarftu þurrkaðar kjúklingabaunir sem einnig kallast kíkertur en þær fást í heilsudeild matvöruverslanna. Það eru að vísu til kjúklingabaunir niðursoðnar í dós en þær eru blaðakonu ekki að skapi sem elskar að laga mat frá grunni.
Það getur verið hvimleitt að borða baunafæði því baunir valda gasmyndun í þörmum hjá sumu fólki en til þess að koma í veg fyrir það þá er best að leggja þær í bleyti yfir nótt með til dæmis einu blaði af þara en efnin í þara draga úr gasmyndun í þörmum. Þá hellirðu vatninu af þeim eftir nóttina og setur þær í pott ásamt fersku vatni, sýður þær með þessu sama þarablaði í rúman hálftíma og í leiðinni losna næringarefni þarans út í vatnið og gera hummusið þitt enn hollara.
Hvar fæ ég þara?
Undirrituð var orðin uppiskroppa með þara af ákveðinni tegund sem stundum er kallaður kombu. Einu sinni var hægt að kaupa umræddan þara út í búð á Íslandi frá íslenskum framleiðanda en því miður er það ekki hægt lengur, því nú er þarinn aðeins seldur til útflutnings og erlendir aðilar eru vitlausir í hann enda gæða hollustuvara frá hreina Íslandi.
Eydís Mary Jónsdóttir, er land- og umhverfisfræðingur að mennt. Hún hefur sérhæft sig í þörungum og fjörunytjum. Sjálfbærni er henni mjög hugleikin, hvernig við mennirnir getum nýtt okkur þessa nærandi matarkistu hafsins sem vex við strendur landsins.
Hér á Suðurnesjum er mjög fjölbreytt úrval næringarríkra þörunga í fjörunni, sem hægt er að nota til matargerðar.
Við Eydís mæltum okkur mót við Guðnýjarbraut í Innri-Njarðvík en þaðan gengum við ofan í fjöru, klifruðum í klettum rétt áður en sjórinn féll að. Eydís var hvergi smeyk við sjóinn enda þaulvön fjörukona, veit nákvæmlega hvenær er flóð og fjara. Tilgangur þessa stefnumóts okkar var aðallega að kenna blaðakonu og áhugasömum lesendum að tína fjöruþörunga. Eydís er hafsjór af þekkingu hvað þetta varðar. Árstíminn var kannski ekki sá skynsamlegasti en blaðakonu vantaði þara/kombu í kjúklingabaunamaukið sitt og Eydís er aðalkonan í þessum fræðum hér á Suðurnesjum. Allavega sú allra þekktasta enda hefur hún farið oft með fólki í fjöruferðir í þeim tilgangi að kenna fólki að tína fjörunytjar.
Hvenær er best að tína þara?
„Passaðu þig bara á að ganga þar sem þú sérð ekki klaka á steinunum, skorðaðu fótinn vel í skorum á milli steinanna svo þú hafir alltaf festu í svona aðgengi eins og er í dag. Það er hált. Annars er best að fara í fjöruna á sumrin og tína allskonar matþörunga en núna færðu að vísu nýsprottinn þara því hann byrjaði að vaxa í nóvember. Tunglstaðan hefur einnig áhrif á hvað við finnum, vindáttir, lægðir og fleira,“ segir Eydís um leið og blaðakona klöngrast á eftir henni ofan í klettabeltið til þess að komast nær plöntunum, þörungunum sem vaxa á klöppinni niður við sjó. Blaðakona hugsar með sér að kannski hefði nú verið sniðugara að mæla sér mót við sérfræðinginn Eydísi að sumarlagi en hún bara vissi ósköp lítið um þara annað en að hann er góður í eldhúsið til að sjóða með baunum og hreinsa þar með gasmyndunarefnin úr þeim.
Eydís bendir á margskonar tegundir matþörunga sem vaxa ofan á steinunum í klettabeltinu.
„Hér er nori sem er notaður í sushi. Smakkaðu!“ Blaðakonan setur nori upp í sig; „Já, allt í lagi með þetta bragð – en má maður borða allt í fjörunni, allan þarann?“
„Já, já það er alveg óhætt, það er ekkert eitrað í fjörunni. Þari og aðrir fjöruþörungar eru sprengfullir af bætiefnum. Þari er mjög joðríkur en við Íslandsstrendur eru sjö þarategundir. Þessar plöntur og aðrir sjávarþörungar eru mjög steinefnaríkir og vítamínríkir. Þeir innihalda fjölsykrur sem hafa mikla lífvirkni og mjög góð áhrif á líkamsstarfsemi okkar. Þari er ofurfæða náttúrunnar,“ segir Eydís hress í bragði og blaðakona virðir hana fyrir sér. Eydís geislar af heilbrigði og maður ímyndar sér að hún borði þara og annan sjávargróður mjög oft. „Já, ég geri það og smygla honum út í matinn hjá fjölskyldunni en við hjónin eigum fjóra stráka sem eru aldir upp við matþörunga og annan fjörugróður. Sjálfri finnst mér mjög gott að borða þarann eins og snakk en til þess að börnin mín fái einnig þessa ofurfæðu og öll bætiefnin sem henni fylgja þá hef ég valið að koma henni oft út í matinn sem ég laga, til dæmis lasagna. Þú finnur það ekki en veist að þarna ertu með miklu hollari útgáfu af lasagna,“ segir Eydís sposk og brosir.
Hrein ofurfæða við strendur Íslands
Eydís tínir upp hvern matþörunginn af fætur öðrum og réttir blaðakonu sem bragðar á þessu lostæti eða þannig. Þetta er ekkert gott á bragðið en heldur ekki vont, bragðið venst. Tilfinningin er aðallega góð þar sem þú veist að þú ert að fá fullt af bætiefnum í kroppinn. Við Eydís höldum áfram að spjalla og smakka þar sem við erum staddar niður við sjó. Lífríkið er mjög fjölbreytt í klettabeltinu og við tölum um nýtingu þessara gersema og hvers vegna Íslendingar almennt borða ekki lengur þessa næringarríku auðlind. Hér við Íslandsstrendur er náttúran hrein. Gaman er að geta þess að Japanir sem eru langlífir, hafa nýtt sér sjávargróður til matar og eru á meðal hraustustu þjóða heims. Hvers vegna borðum við Íslendingar ekki meira af söl og þara?
Fyrr á tímum þá nýtti fólk þetta fjörufæði og bjargaði mörgu kotbýlinu þegar fólkið fór ofan í fjöru og tíndi sér þara til matar. Rollurnar átu þetta einnig. Þessi næringarkista hafsins stendur okkur enn til boða.
Eydís sýnir blaðakonu hvernig á að finna þarann sem hún var að leita að í hummusgerðina sína. Kombu nefnist þessi tiltekni þari. Eydís bendir jafnframt á að hægt sé að nota alls konar þara þegar þú vilt koma í veg fyrir gasmyndun í baunaréttum. Kombu, eða hrossaþari á íslensku, vex neðst í fjörunni en það má líka oft finna hann í fjörupollum ofar í fjörunni og þegar hann er tekinn á þessum árstíma í janúar, þá er hann mýkri en ella, því hann eins og annar sjávargróður byrjar að vaxa í nóvember.
„Í fjörunni er aldrei vetur. Fjaran sefur aldrei eins og náttúran gerir á landi. Aðalvaxtartími flestra tegundanna, þara og þangs, er frá nóvember og fram í febrúar. Besti tíminn til að tína er frá vori og fram á haust og þá er aðgengið einnig betra heldur en yfir vetrartímann. Fyrir mér byrjar tínslutímabilið á vorjafndægri, sem er oftast í kringum 21. mars. Þá, og á haustjafndægri, er mesta stórstreymi ársins og því auðvelt að nálgast þær tegundir sem vaxa neðst í fjörunni. Á vorin er nýsprottni þarinn líka brakandi ferskur og þunnur en hann þykknar með tímanum. Eins og þú sérð hér núna í janúar er hált og varasamt. Matþörungar eru langmest tíndir á sumrin og fram á haust og þá er auðvelt að þurrka en það gerir maður með því að leggja plönturnar á svalan stað, ofan á handklæði eða lak. Ef veður leyfir þurrka ég út í garði en annars inni í bílskúr. Stærri tegundir eins og beltisþara þurrka ég einfaldlega á snúrunni. Söl er þó best að tína á haustin en þá eru þau sætari á bragðið og C vítamínríkari. Sumarið hefur góð áhrif á þessar plöntur eins og aðrar plöntur sem vaxa í hefðbundinni náttúru. Yfir sumartíman safnast upp fjölsykrur í matþörungunum og þeir verða eilítið sætari eftir því sem líður á sumarið og haustið. Á veturna ef mig vantar söl þá kaupi ég þau út í búð, mjúk söl í pokum, tek hann úr umbúðunum og þurrka hann í tvo daga. Svo set ég hann í matvinnsluvélina en þannig nýti ég sölin mest, mulið í matargerð,“ segir Eydís.
„Fyrr á tímum þá nýtti fólk þetta fjörufæði og bjargaði mörgu kotbýlinu þegar fólkið fór ofan í fjöru og tíndi sér þara til matar.“
Að nýta náttúruna sér til matar
„Ég hef alltaf verið náttúrubarn. Bernskuminningar mínar tengjast berjamó með mömmu eða sveppamó. Hún kenndi mér að nýta náttúruna mér til matar. Þegar ég bjó á Reyðarfirði tólf ára gömul þá bjuggum við í útjaðri bæjarins og ég labbaði alltaf sandfjöruna í skólann. Þá sparkaði ég illa lyktandi þaranum, að mér fannst þá, til hliðar í fjörunni svo ég kæmist leiðar minnar. Ég tengdi slímugan þarann aðeins við vonda lykt. Mörgum árum seinna, þegar ég var nýútskrifuð úr háskólanámi, úr greinum sem tengjast sjálfbærni, landfræði og umhverfisfræði, fékk ég starf hjá Náttúrustofu Reykjaness og það var þar sem ég lærði að kunna að meta þörunga og það einstaka lífríki sem finna má í fjörum. Strendurnar hér við Reykjanesskaga, Faxaflóa og Breiðafjörð eru ríkustu svæði landsins hvað fjörur varðar, sannkallað gósenland matþörunga. Hér er hlýrri sjór en annars staðar við landið, sem hefur áhrif á fjölbreytileikann og landfræðin er þannig að hér er að finna víðáttumestu fjörusvæði landsins. Fyrsta starf mitt hjá Náttúrustofu var að aðstoða við kortlagningu fjöruvistgerða hér á Suðurnesjum. Samhliða kortlagningunni vann ég verkefni um fjörunytjar og þá sérstaklega hvaða tegundir hefðu verið notaðar hér áður fyrr og hvaða nýtingarmöguleikar væru til staðar fyrir þessar tegundir í dag. Í leiðinni vorum við að smakka og prófa það sem við fundum í fjörunni í matargerð með Stebba á Vitanum sem djúpsteikti og gerði allskonar spennandi tilraunir með mér. Þetta sumar stakk ég upp í mig allskonar jurtum hafsins, vissi ekki neitt um neitt. Þetta var mjög skemmtilegt verkefni sem opnaði alveg nýjan fæðuheim fyrir mér. Ég lærði heitin á mismunandi tegundum, lærði að ekkert er eitrað, kannski misbragðgott eða skemmtilegt undir tönn, en allt mjög ríkt af allskonar næringarefnum og lífvirkum efnum. Þetta eru byggingarefni sem líkaminn þekkir. Ein kenningin er sú að lífið komi upphaflega úr hafinu. Plöntur á landi þróuðust út frá grænþörungum í sjó, þess vegna eru langflestar jurtir grænar á litinn en ekki rauðar eða brúnar þó að það þekkist. Hafið er móðurlíf jarðarinnar. Þar er upphafið og það heldur í okkur lífinu enn þann dag í dag, því meira en helmingur alls súrefnis á jörðinni kemur frá þörungum í hafinu. Án hafsins hefðum við ekki þróast og án þess gætum við ekki lifað,“ segir Eydís með áherslu.
Býr til krem fyrir þurra, viðkvæma húð
Hún er ekki aðeins liðtæk í fjöruferð. Það má einnig kalla Eydísi vísindakonu og frumkvöðul því hún hefur unnið að þróun snyrtivörulínu frá árinu 2016 úr hrossaþara sem gefið hefur góða raun.
„Ég hef verið að þróa krem og aðrar húð og hárvörur úr hrossaþaraþykkni sem Zeto hefur þróað. Vörurnar eru sérþróaðar fyrir íslenskar aðstæður. Árið 2020 átti að vera stóra árið mitt í markaðssetningu og ég var klár með okkar fyrstu vöru í byrjun ársins. Þetta er rakaserum sem er einstakt að því leyti að það er hannað til að vernda viðkvæma húð fyrir rakatapi í mjög þurru lofti, eins og oft vill verða í loftræstu umhverfi í flugvélum og stórum byggingum eins og til dæmis í flugstöðinni en þar hef ég unnið tvö sumur og fann fljótt hvað loftið þar hafði neikvæð áhrif á húðina mína og þurrkaði hana. Sú reynsla varð hvatinn að því að ég hóf þróun á húðkreminu. Ég lét útbúa handhægar umbúðir sem henta sérstaklega vel fyrir fólk á flugferðalögum. Þetta er fyrirferðarlítil pakkning sem er ætlað til sölu í flugstöðvum og flugvélum, upplagt að taka með sér í fríið – en þá kom Covid og lamaði allt flug og því ákváðum við að bíða með að setja vöruna á markað. Vörurnar sem ég er að þróa byggja allar á lífvirku þykkni úr íslenskum hrossaþara en rannsóknir okkar á því benda til þess að það hafi bólguhemjandi áhrif á húðfrumur, hjálpi til við að stilla kláða ásamt því að viðhalda heilbrigði og raka húðarinnar. Kremin eru hrein og náttúruleg en hugsun mín er sú að allt sem fer á okkur endar út í sjó. Ég passa því mjög vel upp á að í vörunum séu engin innihaldsefni sem geti haft neikvæð áhrif á lífríki hafsins eða lífríki húðarinnar. Í mars ætlum við að koma með nýstárlegt þörungasjampó á markað og opna í leiðinni heimasíðuna zeto.is og bíðum spennt eftir viðbrögðum almennings. Við höfum prófað vörurnar okkar með mjög góðum árangri á um þriðja hundrað manns og þar af fólki sem þjáðist af exemi og kláða og allskonar húðvandamálum. Niðurstöður þessara prófanna eru virkilega lofandi og við erum spennt að sjá hvernig markaðurinn tekur við vörunum,“ segir Eydís glöð í bragði.
Tilnefnd til Fjöruverðlauna
Árið 2020 var alls ekki alslæmt að mati Eydísar því hún ásamt mágkonu sinni, þingkonunni Silju Dögg Gunnarsdóttur, Hinrik Carl Ellertssyni og Karli Petersson gáfu út mjög áhugaverða matreiðslubók rétt fyrir jólin 2020 sem nefnist Íslenskir matþörungar – Ofurfæða úr fjörunni. Samhliða bókinni hafa þau byggt upp hóp á Facebook sem nefnist Íslenskir matþörungar fyrir þá sem vilja læra meira um matþörunga og deila með öðrum.
„Bókin okkar hefur fengið mjög góðar viðtökur og almenningur er forvitinn um þær uppskriftir sem í bókinni eru en þarna erum við bæði að kenna fólki allt um íslenska matþörunga, hvernig á að þekkja þá, finna þá, tína þá og matreiða. Þú sérð ljósmyndir af þeim og færð í leiðinni uppskriftir að girnilegum öðruvísi mat, sem er sprengfullur af bætiefnum. Þetta var mjög skemmtilegt vinnuferli og lærdómsríkt. Við erum stolt af bókinni okkar sem er tilnefnd til Fjöruverðlauna í hópi fræðibóka en þau verða afhent með vorinu, auk þess sem við hlutum Gjöf Jóns Sigurðssonar, sem er mikill heiður,“ segir þessi geðþekka kona að lokum, sem gaman var að hitta og fræðast um ofurfæðuna sem liggur í fjörunni allt í kringum okkur.
Nú er bara að byrja að prófa sig áfram í eldhúsinu með öðruvísi matargerð eða borða matþörunga eins og hvert annað snakk.