Oftast að vinna um versló
Víkurfréttir spurðu Suðurnesjamenn út í áform þeirra um verslunarmannahelgina en fólk er ýmist á leið á útihátíðir með vinunum, í sumarbústað með fjölskyldunni eða slaka á heima við og njóta kyrrðarinnar.
Njarðvíkingurinn Óli Geir Jónsson sér um dagskrána á hátíðinni Ein með öllu, sem fram fer á Akureyri um verlunarmannahelgina. Óli Geir hefur oft þuft að vinna um þessa miklu ferðamannahelgi en helst væri hann til í vera í fríi með fjölskyldu og vinum.
Hvað á að gera um verslunarmannahelgina og hvert á að fara?
„Eins og allar verslunarmannahelgar er ég að vinna. Er að sjá um alla dagskrá sem fer fram á Akureyri. Er að sjá um Sjallann en þar koma fram t.d. Micha Moor, Páll Óskar, Sísý Ey, Úlfur Úlfur og fleiri. Mæli með að allir kynni sér Eina með öllu sem fer fram á Akureyri, www.einmedollu.is“
Er einhver verslunarmannahelgi sem er eftirminnilegri en aðrar hjá þér?
„Ójá. Það var áður en ég fór að sjá um allt á Akureyri. Þá fór ég á Þjóðhátíð 2-3 ár í röð, það var mjög spes en virkilega gaman, förum ekkert nánar út í það. Fór með góðum vinum í helgarferð, gerist ekki betra og í raun var það í einu skiptin sem ég var í fríi um versló síðan ég byrjaði í þessum bransa.“
Hvað finnst þér einkenna góða verslunarmanahelgi og finnst þér eitthvað vera ómissandi um þessa helgi?
„Góð verslunarmannahelgi hjá mér væri að vera í fríi, ekki hafa áhyggjur af neinu og ferðast með vinum og/eða fjölskyldu. Því miður geri ég það ekki nógu oft en ég ætla að reyna breyta því núna. Eina sem mér finnst kannski ómissandi þessa helgi er önnur útihátíð. Mér finnst alveg markaður fyrir aðra útihátíð með flotta dagskrá í þægilegri fjarlægð frá höfuðborgarsvæðinu og ódýrari miða, ég held að það myndi slá í gegn.“