Öflugt Kiwanisstarf í Keflavík
Björn B. Kristinsson tekur við embætti umdæmisstjóra af Jóhönnu Maríu Einarsdóttur
Jóhanna María Einarsdóttir, félagi í Kiwanisklúbbnum Vörðu í Keflavík, lét á dögunum af embætti umdæmisstjóra Kiwanisumdæmisins Ísland – Færeyjar. Embættið er þó áfram til staðar í Keflavík því við því tók Björn B. Kristinsson, sem er félagi í Kiwanisklúbbnum Keili. Kiwanis hélt 53. umdæmisþing Kiwanisumdæmisins Ísland – Færeyjar í Reykjanesbæ dagana 15. til 16. september síðastliðna, eins og greint hefur verið frá í blaðinu. Þingið var haldið í Hljómahöllinni en það var í umsjá Kiwanisklúbbanna Keilis og Vörðu. Þetta var í þriðja sinn sem þingið er haldið í Reykjanesbæ. Fyrst var það haldið árið 2000 þegar Guðmundur Pétursson var umdæmisstjóri og aftur árið 2012 þegar Ragnar Örn Pétursson heitinn hafði gegnt embættinu. Umdæmisþingið verður þó ekki haldið aftur á næsta ári í Reykjanesbæ en Björn mun ljúka sínu embættisári með þingi í Færeyjum að ári.
Víkurfréttir tóku þau Jóhönnu og Björn tali eftir umdæmisþingið á dögunum. Fyrsta spurningin var um það hvort Kiwanishreyfingin væri svona öflug í bæjarfélaginu.
„Já, ég myndi segja það,“ segir Björn og Jóhanna bætir við að Ægissvæðið, sem er Hafnarfjörður, Kópavogur, Garðabær og Suðurnes sé mjög öflugt segir Jóhanna og Björn bætir því við að það séu tveir klúbbar í Keflavík og það er meira en í flestum öðrum bæjum, það eru tveir klúbbar á Sauðárkróki, þrír klúbbar í Hafnarfirði og auðvitað nokkrir í Reykjavík.
Styðja börn heimsins
Kiwanis er félagsskapur sem hefur það að markmiði að styðja börn heimsins. „Maður getur líka eflt sjálfan sig með því að fara í svona samtök. Þetta er ekki bara að láta gott af sér leiða. Ég get sagt um sjálfa mig að þetta hefur styrkt mig sjálfa,“ segir Jóhanna.
Stuðningur við börn hefur verið helsta verkefni Kiwanis alla tíð. K-lyklasalan hefur þó verið til stuðnings geðverndarmálum, árin 2016 og 2019 voru Píetasamtökin og BUGL styrkt, síðasta söfnun var svo til styrktar Píetasamtökunum og Berginu. Á þinginu sem haldið var í Reykjanesbæ í september var samþykkt að næsta K-lyklasala væri fyrir Einstök börn og þar með farið aftur í grunnmarkmið hreyfingarinnar.
Björn er að taka við embætti umdæmisstjóra af Jóhönnu og því liggur beinast við að spyrja hvaða verkefni umdæmisstjórinn hafi með höndum.
„Umdæmisstjórinn stýrir hreyfingunni á Íslandi og í Færeyjum. Það eru þrír klúbbar í Færeyjum og þrjátíu og einn á Íslandi. Við erum tíu í svokallaðri umdæmisstjórn og hún stýrir hreyfingunni og nefndum,“ segir Jóhanna.
Bæði vinna og ferðalög
Er þetta mikil vinna?
„Já, þetta verður það. Þetta er bæði vinna og ferðalög. Það er gott að hafa gott fólk í kringum sig til að dreifa verkefnum aðeins því þetta er mikið starf og æðsta embættið í Kiwanishreyfingunni á Íslandi og mikil heiður að taka við því,“ segir Björn.
Eiginmaður Jóhönnu, Andrés heitinn Hjaltason, var áhrifavaldur í lífi Björns þegar kom að því að ganga í Kiwanisklúbbinn Keili. Þeir höfðu verið að vinna saman í yngri flokkastarfi hjá fótboltanum í Keflavík og kynntust þar í gegnum dætur sínar. „Hann býður mér á fund og sækir mig og skutlar á fundi og aftur heim. Þannig gekk þetta næstum í heilan vetur þar til ég gekk til liðs við hreyfinguna. Hann veiddi mig,“ segir Björn.
„Þetta er gert svona. Ef þú ert að bjóða einhverjum á fund, þá þarftu að halda utan um þann einstakling,“ segir Jóhanna. Hún gekk í Kiwanishreyfinguna þegar Andrés heitinn var í framboði til Evrópuforseta og hún vildi geta kosið hann á Evrópuþingi. Þá gekk ég í klúbb í Hafnarfirði. Þegar sá klúbbur átti afmæli kom verðandi umdæmisstjóri á þann afmælisfund og sagði að ef einhver myndi stofna klúbb á sínu starfsári þá myndi hann raka af sér yfirvaraskeggið. Ég sagði já, ég skal gera það. Ég stofnaði klúbb í Keflavík og umdæmisstjórinn var rakaður á næsta umdæmisþingi. Skeggið fauk,“ segir Jóhanna og hlær af uppátækinu.
Félagsskapur sem tekur sér sumarfrí
Aðspurður hvort það væri mikil vinna að taka þátt í starfi Kiwanis, sagði Björn það ekki vera. Hreyfingin starfar bara á haustin og veturna en tekið er frí yfir sumartímann. Fundað er tvisvar í mánuði. Annars vegar er félagsmálafundur og svo almennur fundur þar sem reynt er að fá eitthvað skemmtilegt inn á fundinn eins og fyrirlesara eða eitthvað slíkt. Þá eru fjáraflanir. Keilir selur jólatré fyrir jólin og er með fjáröflunarkvöld. „Svo eflumst við við það að fara upp í pontu, lærum fundarsköp og eflum tengslanetið með því að vera í svona félagsskap. Þetta er ekki mikil vinna, en það þarf að hafa fyrir þessu og þetta er skemmtilegt,“ segir Björn.
Björn segir desember vera annasamastan hjá Keili vegna jólatréssölunnar. Jóhanna segir fjáröflun Vörðunnar vera vinkonukvöld og í fyrra var byrjað á að gera leiðisskreytingar og krossa fyrir Keili sem þeir selja svo á jólatréssölunni hjá sér.
Nýliðun gengur hægt
Kiwanisklúbbar á Íslandi eru ekki blandaðir kynjum, þeir eru annað hvort karla- eða kvennaklúbbar. Það er hins vegar ekkert í reglum Kiwanis sem bannar blandaða klúbba og einn slíkur er starfræktur í Færeyjum. Á Ísafirði var blandaður klúbbur en hann er orðinn að karlaklúbbi í dag.
Björn segir að nýliðun í Kiwanis gangi hægt og það þurfi að hafa fyrir hverjum og einum sem kemur inn, það sé helsta markmiðið bæði í Evrópu og Ameríku að fjölga í hreyfingunni.
Það er annasamt ár framundan. Hann ætlar sér að reyna að heimsækja sem flesta klúbba í umdæminu. Þá eru margskonar fundir, bæði í svæðum og umdæmum og fundahöld í útlöndum. Björn sagðist spenntur á að takast á við þessa áskorun og það leggist vel í hann að vera umdæmisstjóri Kiwanisumdæmisins Ísland – Færeyjar næsta árið.