Öflugt félagslíf eftirminnilegt
Eldri FS-ingar í spjalli - 40 ára afmæli FS
Í haust mun Fjölbrautaskóli Suðurnesja fagna 40 ára afmæli sínu og til stendur að halda uppá daginn 24. september næstkomandi. Fjölbrautaskóli Suðurnesja, eða FS, hefur í gegnum árin boðið uppá fjölbreyttar námslínur og því alið af sér einstaklinga sem sinna hinum ýmsu störfum atvinnulífsins, bæði hérlendis og erlendis. Því er vel við hæfi að leita uppi gamla FS-inga og forvitnast um hvað á daga þeirra hefur drifið. Sumir þeirra luku stúdensprófi frá skólanum, aðrir luku iðnmenntun en enn aðrir komu við í skemmri tíma. Fram að afmælinu ætlum við að leita uppi gamla FS-inga.
Nafn og hvenær viðkomandi var við nám í FS
Ásgeir Margeirsson. Nám til stúdentsprófs á eðlisfræðibraut 1977-1980.
Hvað hefurðu verið að gera síðan þú útskrifaðist úr FS?
Lauk námi og framhaldsnámi í byggingarverkfræði. Hef síðan starfað í byggingariðnaði, skipaflutningum og lengst af í orkuiðnaði.
Hvernig fannst þér FS búa þig undir það nám sem þú fórst í?
Á þessum tíma var FS ungur skóli í mótun. Undirbúningur fyrir verkfræðinám var ekki fullnægjandi að mínu mati.
Hvernig skóli er FS í þínum augum?
Ég hef kannski ekki fylgst vel með því á seinni árum en ég held að FS sé góður skóli með fjölbreytt námsval.
Viltu deila með okkur eftirminnilegum minningum úr gamla skólanum þínum?
Jón Böðvarsson var skólameistari á þessum árum og er sannarlega um margt eftirminnilegur. Einnig eru margir góðir kennarar eftirminnilegir og ekki síður Vigga á skrifstofunni. En líklega er það félagslífið sem mest lifir í minningunni. Það var mjög öflugt og skemmtilegt.
Hvað stendur upp úr þegar þú horfir til baka?
Að hafa lokið námi og vistin í FS var mjög skemmtilegur tími.
Hver var eftirminnilegasti kennarinn?
Jón Böðvarsson
Uppáhalds náttúruperla á Suðurnesjum?
Trölladyngjusvæðið