Of ung fyrir krabbamein
– baráttusaga ungrar konu
Ljósmyndasýning um krabbameinsferli Sóleyjar Bjargar Ingibergsdóttur í Vatnaveröld.
Ljósmyndasýning sem sýnir myndir frá Sóleyju Björgu Ingibergsdóttur þegar hún gekk í gegnum krabbameinsferli verður opnuð í Vatnaveröld, Sundmiðstöð Keflavíkur miðvikudaginn 30. ágúst kl.18. Brakkasamtökin bjóða á sýninguna sem er eftir Þórdísi Erlu Ágústsdóttur.
„Við erum stolt af því að ljósmyndasýningin hefur farið um landið, byrjaði í Reykjavík, fór þaðan til Vestmannaeyja síðan Reyðarfjarðar, Akureyrar og er nú að koma í heimabæ Sóleyjar,“ segir í tilkynningu frá Brakkasamtökunum sem bjóða upp á sýninguna.
„Það verður áhugavert að sjá þessar myndir aftur af erfiðasta og stærsta verkefni sem ég hef fengið. Þægindaramminn hvarf þegar ég ákvað að taka þátt í þessu verkefni með elsku Þórdísi og er ég stolt og ánægð með útkomuna, svo hráar og tilfinningalegar myndir sem sýna nákvæmlega frá öllu mínu Krabbameinsferli,“ segir Sóley Björg.
Víkurfréttir ræddu við Sóleyju fyrir tveimur árum og sögðu sögu hennar.
Þegar Sóley Björg var 25 ára og Íslensk erfðagreining opnaði aðgang að upplýsingum um vissar stökkbreytingar á svipuðum tíma datt henni í hug að athuga hvort hún hefði BRCA2 meinvaldandi breytingu sem eykur líkur á krabbameini. Það kom í ljós að hún er BRCA arfberi. Þar sem hún var 25 ára á þessum tíma og ekki þekkt áhætta um krabbamein í fjölskyldu hennar fékk hún ekki að fara í reglulegt eftirlit. Tveimur árum síðar fann Sóley Björg sjálf hnút í brjósti og greinist í kjölfarið með brjóstakrabbamein. Hún undirgekkst lyfjameðferð, tvöfalt brjóstnám og geislameðferð.
Markmið ljósmyndarans, Þórdísar Erlu Ágústsdóttur, er að sýna á raunsæjan hátt hvernig BRCA getur umbylt lífi fólks. Lífið með krabbamein er hörð og miskunnarlaus barátta. Jafnframt er sýningin hugsuð til vitundarvakningar.
Sýningin verður opin í u.þ.b. mánuð.
Viðtalið við Sóleyju í Suðurnesjamagasíni í fyrra má sjá í spilaranum hér að neðan.