Of Monsters And Men á vínyl
Vínylplöturnar sífellt vinsælli
Töluvert er að færast í aukana að hljómsveitir gefi út plötur sínar á gamla góða vínyl forminu aftur. Vínylplötur eru sífellt að verða vinsælli og hafa margar íslenskar hljómsveitir gefið út verk sín á vínyl að undanförnu. Nú var að koma út plata fyrsta Of Monsters And Men, My Head Is An Animal á þessu formi en geisladiskurinn kom út fyrir ári síðan.
Nú er platan loksins fáanleg á vínyl og það í vægast sagt takmörkuðu upplagi. Aðeins 500 eintök framleidd og eru þau öll númeruð á bakhlið plötunnar frá 001 til 500.
Of Monsters and Men gaf út My Head Is An Animal utan Íslands á CD og vínyl fyrr á árinu en þó með annarri kápu og breyttum upptökum og lagalista. Á íslensku útgáfunni er að finna 2 lög sem ekki eru á erlendu útgáfunni og má því búast við að hörðustu aðdáendur sveitarinnar utan Íslands munu fara krókaleiðir til að tryggja sér eintak af þessari einstöku vínyl útgáfu. Útgáfan er vegleg, tvær litaðar gegnsæjar plötur í gatefold sleevi, eins og segir í lýsingu frá Record Records sem gefa út plötuna. Vínylnum fylgir stafrænt niðurhal af plötunni.