Of góð sjónvarpsdagskrá setur jólafagnað í uppnám
Grindvíkingar kalla ekki allt ömmu sína. Nú hefur RÚV hins vegar sett grindvískar ömmur og afa í uppnám. Sjónvarpsdagskráin er svo góð föstudagskvöld eitt í desember að ömmurnar og afarnir ætla að sitja yfir imbanum í stað þess að storma á jólafagnað.
Ástæðan fyrir góðu sjónvarpsdagskránni er að sjálfsögðu að lið Grindavíkur ætlar að keppa í Útsvari föstudagskvöldið 7. desember. Þess í stað ætla grindvískir eldri borgarar að fórna sjónvarpsglápi laugardaginn 8. des og halda þá sinn árlega jólafagnað í Miðgarði. Fjörið hefst kl. 18:00 og eru eldri borgarar í Grindavík hvattir til að taka daginn frá.