Öðruvísi jól sumra sökum annríkis
Er búin með jólaundirbúninginn 1. desember
Flestir, hugsanlega allir, sjá jólaaðventuna fyrir sér sem tíma til að njóta og drekka í sig jólaandann í aðdraganda hinnar heilögu hátíðar en sumir hafa einfaldlega ekki tækifæri til þess sökum annríkis – við að gera öðrum kleift að gera sig fín(a) fyrir jólin, það á t.d. við um hársnyrtinn Önnu Maríu Reynisdóttur.
Anna klippir og greiðir á hársnyrtistofunni Hárstofan í Grindavík en hún man aðventuna ekki öðruvísi en sveitt með skærin í hönd, nánast til kl. 18 á aðfangadegi.
„Ég reyni að hafa sem reglu að vera búin með þann jólaundirbúning sem snýr að mér 1. desember en minn jólaundirbúningur snýr aðallega að því að kaupa jólagjafir. Ég hef einfaldlega ekki tíma til að standa í stórum þrifum og baka endalausar smákökutegundir en ég er heppin að því leytinu til að Gaui, maðurinn minn, er meira heima við í desember og mamma er mjög góður bakari. Ég nýt því jólaaðventunnar á annan máta og kvarta ekkert, það er mjög gaman að taka þátt í að gera fólk ánægt með sig áður en jólahátíðin ber upp. Við spilum jólalögin, bjóðum upp á piparkökur svo ég nýt aðventunnar líka. Tímarnir eru breyttir, nú vill fólk gera sig fínt fyrr en áður því það er svo margt í boði á aðventunni, jólatónleikar o.fl. svo húsmóðirin vill frekar vera fín á þeim tíma frekar en bara sveitt í eldhúsinu á aðfangadegi,“ segir Anna.