Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Mannlíf

Öðruvísi fermingarundirbúningur hjá grindvískum fermingarbörnum
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson skrifar
laugardaginn 9. mars 2024 kl. 09:00

Öðruvísi fermingarundirbúningur hjá grindvískum fermingarbörnum

„Við fórum í aðra ferð í Vatnaskóg og náðum þannig að vinna upp þann tíma sem tapaðist frá og með 10. nóvember,“ segir sr. Elínborg Gísladóttir, sóknarprestur í Grindavík. Eðli málsins skv. riðlaðist fermingarundirbúningur grindvískra fermingarbarna en vatnið finnur alltaf leiðir, Elínborg skipulagði aðra ferð í Vatnaskóg og þar fengu börnin ekki bara fermingarfræðslu, heldur líka fræðslu um lífið sjálft.

Fermingarfræðslan hófst með hefðbundnu sniði, alltaf er farið í Vatnaskóg og gist í fimm nætur í upphafi skólaárs. Sr. Elínborg annaðist fræðslu ásamt þremur öðrum prestum, m.a. sr. Sigurði Grétari Sigurðssyni, sóknarpresti í Hvalsnes- og Útskálasókn en fermingarbörnin frá Garði og Sandgerði fara alltaf með í þessa árlegu ferð. Þessi ferð var ekkert frábrugðin ferðum undanfarinna ára segir sr. Elínborg.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

„Fermingarundirbúningurinn hefst alltaf með þessari árlegu ferð í Vatnaskóg. Í þessum ferðum er fræðsla alla morgna eftir morgunmat, morgunstund og söng. Fræðslan er frá tíu til hálf eitt og þá borðum við hádegisverð. Eftir það hafa börnin val um nokkrar leiðir í frjálsum tíma, allt frá því að sigla á bátum og leika sér inni í íþróttahúsi. Svo eru alltaf kvöldvökur á kvöldin þar sem börnin fá að kynnast harmonikuleik og dansa gömlu dansana, þau hafa alltaf mjög gaman af því. Síðasta kvöldið er síðan ball þar sem einhver plötuspilari [dj] mætir og skemmtir krökkunum. Þegar við komum heim úr þessari ferð er pása frá fermingarfræðslu, sem hefst svo aftur í lok september og er vikulega þaðan í frá. Þá fara börnin sömuleiðis að mæta í messur og svona gátum við haldið hefðbundinni dagskrá fram til 10. nóvember, þegar veruleiki okkar breyttist snarlega.“

Fermingarfræðslan breyttist

Föstudaginn örlagaríka var sr. Elínborg búin að fá fermingarbörnin til sín og var verið að skipuleggja fjáröflunarferð í hús í Grindavík, fyrir hjálparstarf kirkjunnar. Jörð var tekin að skjálfa en börnin ætluðu fyrst ekkert að láta það á sig fá en skelkaðir foreldrar fóru að hringja í börnin sín og Elínborg sá að það var ekki hægt að halda því áfram. Fermingarfræðslan breyttist í kjölfarið á hamförunum.

„Fermingarbörnin tvístruðust auðvitað í allar áttir og því var ekki hægt að halda vikulegri fræðslu áfram og því var brugðið á það ráð að fara aðra ferð með börnin í Vatnaskóg. Ég fékk sr. Sigurð með mér og við tókum aðra fimm daga með börnunum og gátum unnið upp þann tíma sem hafði tapast síðan 10. nóvember. Við gerðum gott betur, við fórum yfir áföll og hvernig eigi að takast á við þau, vonandi kom það sér vel því skömmu eftir að við komum heim úr þessari ferð, reið enn eitt áfallið yfir Grindavík, þegar gaus nærri bænum og þrjú hús fóru undir hraun,“ segir sr. Elínborg.

Bessastaðakirkja

Eiginlegri fermingarfræðslu er lokið, framundan er undirbúningur fyrir sjálfan fermingardaginn sem eðli málsins samkvæmt verður með breyttu sniði, börnin munu ekki fermast í Grindavíkurkirkju heldur Bessastaðakirkju. Þyrfti ekki að koma á óvart þótt börnin muni rekast á forseta vor, Guðna Th. Jóhannesson.

„Undir lok nóvember hugsaði ég með mér að ég þyrfti að fá kirkju fyrir fermingarnar, hafði samband við þau sem stýra Bessastaðakirkju og gat fengið kirkjuna fyrir okkar börn því Bessastaðasókn fermir börnin sín á laugardögum en við verðum á sunnudögum. Það gekk því vel upp og erum við því góða fólki sem stjórna Bessastaðakirkju, mjög þakklát. Guðni forseti er vanur að mæta í messur, ég geri ráð fyrir að börnin eigi eftir að hitta hann því þau klæða sig í kirtlana í ráðskonuhúsinu á Bessastöðum. Guðni er vanur að ávarpa fermingarbörnin þegar þau mæta þangað og klæða sig, ég á ekki von á öðru en hann geri það líka við okkar börn ef hann verður heima. Það verður gaman fyrir börnin að hitta forseta vor og ég ekki von á öðru en fermingarnar í ár muni ganga eins vel og undanfarin ár, þó svo að staðsetningin sé önnur núna og veturinn hafi verið eins og hann var. Börnin hafa fengið sömu fræðslu og jafnaldrar þeirra út um allt land svo það er ekkert að vanbúnaði að þau eigi yndislegan fermingardag,“ sagði sr. Elínborg Gísladóttir að lokum.