Oddvitar allra framboða í Reykjanesbæ eru konur
Hvað segja þær á 30 ára afmæli sveitarfélagsins?
Valgerður Björk Pálsdóttir, oddviti Beinnar leiðar:
Meiri fjölbreytileiki
Hvernig finnst þér Reykjanesbær hafa þróast á 30 árum?
Mér finnst bæði margt og lítið hafa breyst. Mér finnst að einhverju leyti ennþá svipuð „allir þekkja alla stemning“, ennþá skemmtilegur rígur á milli íþróttaliðanna og amma er enn að röfla yfir hvar landamærin á milli Njarðvíkur og Keflavíkur eru „raunverulega“. En 23 þúsund manna bær er samt líka með öðruvísi stemningu heldur en 9 þúsund manna bær eins og var í þegar ég var að alast upp í kringum aldamótin. Meiri fjölbreytileiki núna.. í fólki, menningu, mat og hugsunarhætti.
Hverjar hafa helstu áskoranir sveitarfélagsins verið á þessum tíma?
Fyrst og fremst mjög hröð fólksfjölgun á stuttum tíma, brottför varnarliðsins af vellinum og krefjandi aðstæður í rekstri sveitarfélagsins vegna skuldsetningar og fjárfestinga.
Hvað finnst þér sem íbúi best í sveitarfélaginu og hvar gæti Reykjanesbæ bætt sig?
Mér finnst þjónustan sem börnin mín fá vera rosalega góð, bæði á leikskólaárunum og núna í grunnskólanum, frístund, í tónlistarnámi og í íþróttum. Við fjölskyldan elskum líka bókasafn bæjarins, bakaríin og leikvelli leik- og grunnskólanna. Einnig eru rosaleg lífsgæði í því að búa í hverfi þar sem er hægt að nálgast þjónustu og verslun í göngufjarlægð eins og hjá okkur í Ytri Njarðvík. Ég nota hjól mikið sem samgöngumáta og er ánægð að það sé búið að gera slatta af göngu/hjólastígum en væri mikið til í að sjá enn meiri fjölgun á þeim sem og betri almenningssamgöngur því það eru allir að kvarta yfir aukinni bílaumferð (sem lagast bara ef fólk fækkar ferðum sínum á einkabílnum). Ég hef líka rætt í bæjarstjórn að mér finnst mikilvægast að forgangsraða fjármunum í allt sem við kemur líðan barnanna okkar, hvort sem það er heima eða í skólanum, með stuðningi við foreldra, kennara og börnin sjálf. Einnig hef ég lagt áherslu á að sveitarfélagið geri íþróttir og tómstundir barna enn aðgengilegri, sérstaklega fyrir þá hópa sem taka nú þegar minni þátt, sem eru börn af erlendum uppruna og börn með fjölbreyttar stuðningsþarfir.
Hvernig sérðu Reykjanesbæ fyrir þér í framtíðinni?
Stórt sameinað sveitarfélag sem fagnar fjölbreytileikanum og býður áfram upp á góða grunnþjónustu, sérstaklega er varðar börn í skólum, íþróttum og tómstundum. Fleiri fyrirtæki verða á svæðinu og því enn meira úrval af góðum vinnustöðum, verslunum, alls konar þjónustu og vonandi kaffihúsum.
Sérðu Reykjanesbæ sameinast nágrannasveitarfélögunum á næstunni og hvernig sæirðu slíkt sveitarfélag fyrir þér?
Já ég er hugmyndafræðilega mjög hlynnt sameiningu sveitarfélaga um allt land. Þannig að ég er opin fyrir sameiningu sveitarfélaganna á Suðurnesjum þó að sú vinna sé bara á óformlegu stigi núna og við bæjarfulltrúar höfum ekki fengið allar upplýsingar um hvaða áhrif það myndi hafa á Reykjanesbæ. En yfir höfuð eru margir kostir við sameiningu sveitarfélaga, hún leiðir til stærri sveitarfélaga sem hafa þá fjárhagslega getu til að standa að góðri mennta- og velferðarþjónustu til dæmis. Auðvitað þarf að passa upp á lýðræðið, að það sé hlustað á allar raddir en það eru til dæmi um vel heppnaðar heimastjórnir í fjölkjarnasveitarfélögum á landsbyggðinni sem væri hægt að horfa til.
Halldóra Fríða Þorvaldsdóttir, oddviti Framsóknarflokks:
Við stöndum saman – sama hvað!
Hvernig finnst þér Reykjanesbær hafa þróast á 30 árum?
Eðlilega hefur mjög margt breyst á þessum tíma en mér finnst þróunin hafa verið góð á svo margan hátt og það hefur verið skemmtilegt að fá að taka þátt í henni sem íbúi, starfsmaður sveitarfélagsins og sem kjörinn fulltrúi. Ég er búin að búa í Reykjanesbæ í um 27 ár og það sem mér finnst augljósast er gríðarleg fjölgun íbúa og með því breytist margt eins og t.d. að hverfi stækka og tengjast, aukin umferð er um göturnar, gríðarleg þörf hefur verið á að byggja nýjar stofnanir eins og leik- og grunnskóla og ýmislegt í þeim dúr. Það má svo ekki gleyma allri annarri þjónustu sem íbúar treysta á að sé til staðar sem aðrir en sveitarfélagið veita eins og verslun og þjónusta sem hefur tekið stakkaskiptum á þessum tíma. Eins hefur verið mikil gróska í atvinnulífinu og ljóst að sú þróun mun halda áfram bæði í fjölbreyttum og rótgrónum atvinnugreinum sem og í nýsköpun sem er spennandi að fylgjast með. Svo verð ég líka að minnast á að stór breyting hefur orðið í heilbrigðismálum með innspýtingu bæði með gríðarlegum úrbótum á HSS og með því að einkarekin heilsugæsla opnaði í sveitarfélaginu. Staðan er orðin gjörbreytt og heldur áfram að verða enn betri með nýrri heilsugæslu sem stendur til að opna í Innri-Njarðvík.
En ef ég horfi á samfélagið í Reykjanesbæ þá finnst mér ótrúlega skemmtilegt að sjá hve fjölbreytt íbúasamsetningin okkar er og líka hvernig okkur hefur tekist að fagna fjölbreytileikanum. Helsta breytingin þar er auðvitað að það er stærri hluti íbúa sem á ekki rætur að rekja til Reykjanesbæjar en við sem erum aðflutt festum hér rætur og ölum okkar börn upp í þessu frábæra samfélagi með öllum þeim mannauð sem hér býr.
Hverjar hafa helstu áskoranir sveitarfélagsins verið á þessum tíma?
Þær hafa verið nokkuð margar en þær hafa jafnframt sýnt fram á seigluna í samfélaginu sem stendur einhvern veginn alltaf upp aftur, dustar rykið af sér og heldur áfram. Við látum ekkert stoppa okkur. Hvort sem við erum að tala um háa vexti og verðbólgu, bankahrun, brotthvarf Varnarliðsins og fall tveggja flugfélaga með tilheyrandi atvinnuleysi eða fordæmalausa fólksfjölgun, heimsfaraldur og eldsumbrot þá sýnum við alltaf hvað í okkur býr. Við stöndum saman – sama hvað!
Flest þekkja sennilega þann fjárhagslega vanda sem við sveitarfélaginu blasti en á síðustu árum hefur verið lögð gríðarleg áhersla á að rétta úr kútnum og tryggja ábyrga fjármálastjórn og það verðum við að gera áfram. Staðan er betri en þrátt fyrir það þá koma upp ýmsar nýjar áskoranir eins og kostnaðarsamar framkvæmdir hvort sem það snýr að uppbyggingu innviða til að mæta íbúafjölgun eða stórar viðhaldsframkvæmdir eins og við þekkjum vel í nokkrum stofnunum okkar. En við mætum þessu öllu og erum t.a.m. að verða fyrirmynd fyrir önnur sveitarfélög og stofnanir sem eru í sambærilegum framkvæmdum þar sem þær eru vandaðar og fjárfestingin gerð til að endast, allt með það að markmiði að bjóða upp á heilsusamlegt starfsumhverfi fyrir nemendur og starfsfólk.
Hvað finnst þér sem íbúi best í sveitarfélaginu og hvar gæti Reykjanesbær bætt sig?
Það sem mér finnst best sem íbúi er það öfluga starf sem er í íþrótta- og tómstundastarfi, metnaðurinn í menntamálum á öllum skólastigum og í menningarmálum og alúðin sem lögð er í þjónustu í velferðarmálum. Þetta þekkjum við íbúar sem höfum alið upp börnin okkar í Reykjanesbæ. Auk þess finnst mér frábært að nýta mér þjónustu í verslunum og veitingastöðum í Reykjanesbæ. Við fjölskyldan leggjum okkur fram við að styðja við verslun í heimabyggð og það er svo sannarlega ekki erfitt því hér fær maður nánast allt sem þarf. Mér finnst ofboðslega gaman að fara með fjölskyldunni, vinum eða vinnufélögum út að borða og líka í ýmsa afþreyingu og þá er um margt að velja og alltaf að bætast í flóruna. Svo bíður maður auðvitað alltaf spenntur eftir Ljósanótt og mér finnst ótrúlega skemmtilegt að reyna að komast yfir sem mest en þá þarf líka að skipuleggja sig vel því það eru svo ótalmargar sýningar og aðrir viðburðir sem vekja áhuga sem sýnir okkur líka alla gróskuna í menningarlífinu í bænum.
Við í Reykjanesbæ gætum kannski helst bætt okkur í að tala á jákvæðan hátt um samfélagið okkar og bæinn okkar. Það er svo margt sem er frábært í Reykjanesbæ og við getum verið svo miklu duglegri að hrósa fyrir og benda á það. Viðhorf skipta svo miklu máli og þau byrja hjá okkur sjálfum.
Hvernig sérðu Reykjanesbæ fyrir þér í framtíðinni?
Ég sé Reykjanesbæ halda áfram að vaxa og dafna eins og hann hefur gert hingað til. Hér heldur áfram að byggjast upp öflugt samheldið samfélag og á sama tíma byggist upp fjölbreytt atvinnustarfsemi í mörgum ólíkum atvinnugreinum. Við finnum mikinn áhuga á uppbyggingu í sveitarfélaginu og við íbúar höfum nú þegar heyrt af uppbyggingu til dæmis í ýmsum útflutningsgreinum, grænum iðnaði og ferðaþjónustu og það verður spennandi að sjá þær hugmyndir raungerast. Við munum án efa halda áfram að vera þekkt fyrir að vera íþróttabær, menningarbær og svæði sem er með þessa stórbrotnu náttúru allt í kringum okkur. Þannig að ég sé mjög bjarta framtíð fyrir Reykjanesbæ því hér eru svo sannarlega ótalmörg tækifæri.
Sérðu Reykjanesbæ sameinast nágrannasveitarfélögunum á næstunni og hvernig sæirðu slíkt sveitarfélag fyrir þér?
Já ég held að það séu möguleikar á sameiningu sveitarfélaga á næstu árum. Nú standa yfir óformlegar sameiningarviðræður milli Voga, Suðurnesjabæjar og Reykjanesbæjar og ef það verður ákveðið að fara í formlegar viðræður þá eru það íbúar sem munu taka lokaákvörðun í íbúakosningu. Ég tel að með einu stóru og öflugu sveitarfélagi á Suðurnesjum geti skapast mörg tækifæri en það þarf að vanda til verka og við verðum öll að telja að við munum hagnast á því hvort sem litið er til bættrar þjónustu við íbúa, hagræðingar í rekstri, aukinna tekjumöguleika eða annarra þátta. Ég sé slíkt sveitarfélag vera góðan stað til að búa á með fjölbreyttum atvinnutækifærum og öflugri þjónustu við íbúa og gesti.
Guðný Birna Guðmundsdóttir, oddviti Samfylkingar:
Kostur að vera hluti af samfélaginu
Hvernig finnst þér Reykjanesbær hafa þróast á 30 árum?
Reykjanesbær hefur fyrst og fremst stækkað alveg gríðarlega. Nú í ár eru 30 ár frá sameiningu Keflavíkur, Njarðvíkur og Hafna og það helsta sem ég sé sem mikla breytingu er þessi aukning íbúa. Við erum auðvitað mjög ánægð með það, að fólk kjósi að setjast hér að því hér er mjög gott að búa. Við erum með góða leikskóla og grunnskóla og framhaldsskólinn okkar einn sá besti á landinu.
Hverjar hafa helstu áskoranir sveitarfélagsins verið á þessum tíma?
Við höfum orðið fyrir áföllum nokkrum sinnum hvort sem það hefur verið fjárhagslegt, vegna atvinnuleysis, vegna náttúruhamfara eða enduruppbyggingu húsa vegna raka. Allt eru þetta snúin verkefni sem taka langan tíma og kosta mikið. En við erum ótrúlega seig og úrræðagóð og búum yfir miklum mannauði í starfsfólki sem er mjög dýrmætt.
Áskoranir hafa einnig verið þannig að innviðir ríkisins hafa stækkað seint með okkur en það er aðeins að breytast eins og með tilkomu nýrrar heilsugæslu. Lögreglan í sveitarfélaginu þyrfti að fara í mun rýmra húsnæði og fjölga stöðugildum í takt við aukinn íbúafjölda. Við værum einnig mjög áhugasöm fyrir að fá fleiri stofnanir ríkisins til starfa í Reykjanesbæ en það sem hefur einkennt okkur oft er að við erum stundum hluti af landsbyggðinni og stundum hluti af höfuðborgarsvæðinu. Það er svo sem engin áskorun fólgin í því en það er oft á tíðum litið til okkar sem annaðhvort. Stór fyrirtæki sem starfa hér eru stundum með höfuðstöðvar á höfuðborgarsvæðinu en við viljum að fyrirtæki komi til okkar. Hér er gott að vera, þjónusta til staðar, minni umferð og nóg landsvæði til. Svo er alveg grátbroslegt að margir sem starfa hér í góðum störfum búa ekki á svæðinu. Auðvitað býr fólk þar sem það vill búa en það er kostur að vera hér hluti af samfélaginu sem verið er að vinna fyrir, en það er mín skoðun.
Hvað finnst þér sem íbúi best í sveitarfélaginu og hvar gæti Reykjanesbær bætt sig?
Allt sem kemur að barnastarfi er til algjörrar fyrirmyndar. Við erum með flottustu sundlaug landsins, erum með frábær ungmennafélög og íþróttastarf sem býður alla velkomna. Að þessu starfi vinnur fjöldi fólks í sjálfboðavinnu sem er ómetanlegt.
Við getum bætt okkur í umhverfinu okkar með tiltekt og það er eitthvað sem við erum að vinna að. Verið var að samþykkja samþykkt um umgengni og þrifnað utanhúss sem mun nýtast vel í átak sem farið verður í. Við þurfum að vera stolt af bænum okkar og vinna saman að því að láta hann líta sem best út.
Varðandi bætingu þá væri ég einnig mjög til í það að fyrirtæki myndu líta í auknum mæli til okkar og opna hér rekstur. Hér búa um 24 þúsund manns í Reykjanesbæ eingöngu en um 30 þúsund á Suðurnesjum. Hér koma allir ferðamenn sem koma til landsins á fyrsta og síðasta degi og því gríðarleg tækifæri að opna fyrirtæki hér og auka þjónustu við íbúa.
Hvernig sérðu Reykjanesbæ fyrir þér í framtíðinni?
Þróunin sem hefur verið í gangi mun halda áfram, þ.e. að fólk mun halda áfram að koma til okkar. Bærinn heldur áfram að stækka og við þurfum að halda vel utan um það ferli. Við eigum að taka vel á móti fólki og þurfum að gæta þess að hér líði fólki vel. Reykjanesbær er perla sem er að stækka og við þurfum að vera stolt af því. Ef einhvers staðar liggja tækifæri til framtíðar þá eru þau hér.
Sérðu Reykjanesbæ sameinast nágrannasveitarfélögunum á næstunni og hvernig sæirðu slíkt sveitarfélag fyrir þér?
Ég tel alveg möguleika á því já. Ég er hlynnt sameiningu sveitarfélaga því það er hagstæðara að reka stórt sveitarfélag en mörg lítil. Þjónustan til íbúa verður betri og það á að vera áherslupunkturinn okkar í öllu sem við gerum.
Nú hafa verið svokallaðar óformlegar viðræður í gangi í tæpt ár en málið fer í tvær umræður í bæjarstjórn hjá okkur um hvort að við kjósum um að fara í formlegar viðræður eða ekki. Þannig stendur málið núna.
Við þurfum að rýna málið og greina kosti og galla en það er vissulega hagræðing og einföldun í mörgum málum að sameinast, sérstaklega á svæði sem er ekki landfræðilega stærra en Suðurnesin eru. En hvað verður, kemur í ljós en þetta er spennandi ferli sem bíður upp á mörg tækifæri.
Margrét Sanders, oddviti Sjálfstæðisflokks:
Best ef öll sveitarfélögin myndu sameinast
Hvernig finnst þér Reykjanesbær hafa þróast á 30 árum?
Vel að mörgu leyti. Framan af fannst mér jákvæð uppbygging mikil en hef ekki verið eins ánægð með heildarmynd sveitarfélagsins síðustu ár. Við þurfum að spyrja okkur, hver er framtíðarsýnin og hvernig sveitarfélag viljum við vera?
Hverjar hafa helstu áskoranir sveitarfélagsins verið á þessum tíma?
Einsleitt atvinnulíf sem hefur orðið til þess að atvinnuleysi hefur oft verið hvað hæst á landinu og miklar tekjusveiflur. Brotthvarf hersins og nú síðustu ár höfum við treyst mikið á fyrirtæki tengd ferðaþjónustu sem hefur reynst ansi brothætt. Þetta hefur haft mikil áhrif á uppbyggingu í sveitarfélaginu og fjárhagsstöðu þess. Nú síðustu ár hafa tekjur aukist gríðarlega, fjárhagsstaða batnað en gríðarlegar áskoranir framundan og margt sem hefur setið á hakanum.
Vernd og uppbygging innviða vegna endurtekinna eldgosa er gríðarleg áskorun.
Hvað finnst þér sem íbúi best í sveitarfélaginu og hvar gæti bæjarfélagið bætt sig?
Ræturnar þar sem kraftur hefur verið í fólkinu, samkennd og stolt. Við erum fljót að aðlagast breytingum þannig að eftir er tekið. Ég er stolt af því hvernig við höfum verið íþrótta-og tónlistarbær en nú síðustu ár tel ég að við séum ekki að halda í og hlúa að rótunum.
Hvernig sérðu Reykjanesbæ fyrir þér í framtíðinni?
Með því að byggja upp fjölbreyttara atvinnulíf er ég mjög bjartsýn og tel að við getum náð því markmiði að verða öflugasta sveitarfélag landsins enda erum við með góðar hafnir, nægt landsvæði, alþjóðaflugvöll og vinnuafl. Við eigum að standa í lappirnar varðandi þrýsting á einhverju sem er ekki samkvæmt okkar markmiðum s.s. að við séum að taka á móti óeðlilega háu hlutfalli af hælisleitendum, þurfum að spyrja okkur hvernig atvinnuuppbyggingu við viljum í sveitarfélaginu og svo má lengi telja. Ef við stýrum ferðinni þá náum við markmiðum okkar. Eins og ég sagði fyrr, hvernig sveitarfélag viljum við vera?
Sérðu Reykjansbæ sameinast nágrannasveitarfélögunum á næstunni og hvernig sæirðu slíkt sveitarfélag fyrir þér?
Á von á að einhverjar sameiningar séu væntanlegar en væntanlega ekki öll sveitarfélögin á Suðurnesjum að þessu sinni.
Ekki spurning að best væri ef öll sveitarfélög á Suðurnesjum sameinast í eitt öflugt sveitarfélag. Við eigum margt sameiginlegt og getum saman barist fyrir hagsmunum svæðisins. Fjölbreytni atvinnulífsins er á þessum svæðum. Skipulagsmálin verða einfaldari og öll þjónusta í heild skilvirkari.
Öll yfirbygging ætti að verða minni og skilvirkari, t.d. í stað Sambands sveitarfélaga yrðum við með eina stjórnsýslu yfir heildinni.
Framtíðin er björt á Suðurnesjum, það er í höndum okkar að vinna saman og nýta tækifærin með skýra framtíðarsýn fyrir öll sveitarfélögin sem heild.
Margrét Þórarinsdóttir, oddviti Umbótar:
Allt önnur ásýnd
Hvernig finnst þér RNB hafa þróast á 30 árum?
Ég hafði svo sem ekki getað ímyndað mér fyrir 30 árum að Reykjanesbær ætti eftir að verða fjórða stærsta sveitarfélagið á landinu. Bærinn hefur breyst mikið á þessum tíma. Ásýndin er allt önnur. Bærinn er fjölskylduvænni, snyrtilegri og meira aðlaðandi en hann var. Við eigum orðið glæsilega leik- og grunnskóla. Verslun og þjónusta er betri og menningarlífið er öflugt. Ferðaþjónustan er orðin stærsta atvinnugreinin á Íslandi og það hefur fært okkur öfluga atvinnuuppbyggingu á flugvallarsvæðinu, sem skiptir okkur miklu máli. Við höfum vissulega lent í áföllum á þessum þremur áratugum og þá sérstaklega hvað varðar atvinnumálin, en unnið úr þeim af skynsemi og dugnaði að mínu mati. Þróun Reykjanesbæjar á 30 árum er tvímælalaust jákvæð að mínu mati.
Hverjar hafa helstu áskoranir sveitarfélagsins verið á þessum tíma?
Það er af mörgu að taka þegar horft er 30 ár aftur í tímann þegar kemur að áskorunum. Á þessu tíma var t.d. oftar en einu sinni kallað eftir sértækum aðgerðum í atvinnumálum Suðurnesjamanna þar sem atvinnuástandið var dökkt. Fiskveiðikvótinn var að stórum hluta seldur til annarra staða á landinu og fiskvinnsla í Reykjanesbæ varð svipur hjá sjón. Í dag sést varla bátur í höfninni í Keflavík. Varnarliðið hvarf af landi brott og á annað þúsund störf töpuðust. Það er stærsta áskorunin sem við þurftum að takast á við og hún var ekki auðveld. Heilbrigðismálin hafa verið baráttumál til fjölda ára og síðustu misseri er það svo hin öra fólksfjölgun sem hefur verið mikil áskorun, ekki síst fyrir skólakerfið, húsnæðismarkaðinn, heilsugæsluna ofl. Sveitarfélagið hefur á þessu tíma staðið frammi fyrir fjárhagslegum áskorunum, sem helguðust sumar hverjar af mannanna verkum.
Sú mikla en jákvæða uppbygging sem hefur átt sér stað í Leifsstöð á undanförnum árum hefur verið áskorun fyrir Reykjanesbæ og þá sérstaklega þegar kemur að húsnæðismálum fyrir starfsfólk sem vinnur í tengslum við flugið, auk þess þurfa allir þessi nýbúar þjónustu.
Síðan verður ekki komist hjá því að minnast á hælisleitendamálin sem hafa verið mjög fyrirferðamikil síðustu ár. Reykjanesbær var brautryðjandi í móttöku flóttafólks en málaflokkurinn hefur hins vegar farið úr böndunum og margir íbúar ósáttir við það hvernig þau mál hafa þróast. Ég tel að Reykjanesbær hafi gert mistök með því að taka á móti svo mörgum hælisleitendum. Fleiri sveitarfélög hefðu átt að koma að þessu verkefni sem hefur verið mikil áskorun.
Hvað finnst þér sem íbúi best í sveitarfélaginu og hvar gæti Reykjanesbær bætt sig?
Ég er fædd og uppalin í Keflavík og líður hvergi betur. Samfélagið hér er gott og mér þykir að sjálfsögðu vænt um bæjarfélagið mitt. Hér er gott að ala upp börn. Íþróttastarfið, grunnskólarnir, fjölbrautaskólinn, tónlistaskólinn - við getum öll verið stolt af því frábæra fólki sem kennir og leiðbeinir börnunum okkar í Reykjanesbæ og aðstaðan er til fyrirmyndar. Ég er einnig ánægð með það hvernig okkur hefur tekist að sinna og mæta þörfum eldri borgara. Nesvellir eru glæsilegir og hér hafa verið byggðar íbúðir fyrir 60 plús, sem mikill sómi er af. Það má að sjálfsögðu alltaf gera betur. Ég tel að við getum bætt okkur í félagslegu þjónustunni, sálfræðiþjónustu og stuðningi við efnaminni fjölskyldur. Auk þess þarf stórátak í íslenskukennslu fyrir útlendinga og fyrir börn sem hafa ekki íslensku sem móðurmál.
Hvernig sérðu Reykjanesbæ fyrir þér í framtíðinni?
Ég sé Reykjanesbæ fyrir mér sem sveitarfélag sem áfram verður eftirsóknarvert að búa og starfa í. Öflugt sveitarfélag sem veitir góða þjónustu fyrir íbúanna á hvaða aldri sem þeir eru. Bær sem fólki líður vel að búa í. Ég sé Reykjanesbæ áfram sem barnvænt sveitarfélag með góða skóla og öflugt íþrótta og tómstundastarf. Sveitarfélag með gott atvinnulíf og mikil tækifæri til framtíðar.
Sérðu Reykjanesbæ sameinast nágrannasveitarfélögunum á næstunni og hvernig sæirðu slíkt sveitarfélag fyrir þér?
Til framtíðar tel ég að sameina ætti öll sveitarfélögin á Suðurnesjum. Sameining styrkir sveitarfélögin, gerir þau sjálfstæðari og öflugri t.d. gagnvart ríkisvaldinu og til að takast á við óvænta atburði eins og náttúruvá. Eykur sjálfbærni þeirra og færni til að takast á við framtíðaráskoranir. Vaxandi ábyrgð sveitarfélaganna á þjónustu við íbúana kallar á öflugari sveitarfélög. Ég bind vonir við að Vogar og Reykjanesbær nái saman um sameiningu og vonandi fylgir Suðurnesjabær í kjölfarið. Þetta er að sjálfsögðu að endingu ákvörðun íbúanna sjálfra, en ávinningurinn er augljós að mínu mati.