Oddný þingkona: Tek til í garðinum ef veður leyfir
Það hafa verið miklar annir hjá Oddnýju G Harðardóttur alþingiskonu úr Garðinum á Alþingi í vetur. Hún á von á dætrum sínum, tengdasonum og barnabörnum í páskalambið í dag, páskadag. Í sumar á svo að fara í ferðalag með fellihýsið um kjördæmið.
- Hvernig á að verja páskunum?
„Um páskana verð ég heima í Garðinum. Eftir þrif á heimilinu sem lengi hafa setið á hakanum þá er meiningin að hafa það gott, lesa og hreinsa til í garðinum ef veður leyfir. Stelpurnar mínar, tengdasonur og barnabörn koma í páskalambið á páskadag“.
- Gefur þú mörg páskaegg eða færðu mörg egg?
„Ég gef dóttursonum mínum tveimur og yngri dótturinni páskaegg. Samkvæmt hefð eru þau falin og þeirra leitað á páskadag. Svo kaupi ég eitt handa mér og Eiríki sem við maulum með morgunkaffinu á páskadagsmorgun“.
- Hvað á að gera skemmtilegt í sumar?
„Við ætlum að ferðast innanlands með fellihýsið, fyrst og fremst um kjördæmið en einnig til Siglufjarðar með viðkomu á Fellsströnd þar sem vinir okkar Ása og Magnús eru með sumarbússtað. Hugmyndin er sú að njóta náttúrufegurðar, útivistar og samveru við góða vini“.
- Hvernig sumar fáum við?
„Sumarið verður það allra besta í háa herrans tíð. Við eigum það svo sannarlega skilið“.
- Hvað hefur þú verið að gera í vetur?
„Á þinginu hafa verið miklar annir í vetur. Ég varði mestum tíma mínum ásamt vinnu fyrir kjördæmið, í fjárlögin sem tóku vel í. Síðan tók Icesavemálið við með miklum fundarhöldum, lestri gagna og viðtölum við sérfræðinga. Ekkert mál hefur fengið eins mikla umfjöllun í þinginu og Icesavemálið og fjárlaganefndin hafði málið á sinni könnu frá upphafi. Ég kann það mál út og inn og varð óneitanlega fyrir vonbrigðum þegar ljóst var að meiri hluti þjóðarinnar komist ekki að sömu niðurstöðu og 9 af 11 fjárlaganefndarmönnum og 70% þingmanna, þ.e. að best væri að samþykkja frumvarpið. Niðurstaðan var hins vegar skýr og henni verður fylgt vel eftir. Veturinn var líka skemmtilegur því í tilefni þess að Eiríkur maðurinn minn varð 60 ára 1. janúar fórum við öll fjölskyldan til Tenerífe yfir áramótin. Svo fór ungviðið heim en við Eiríkur vorum eftir og höfðum það gott við bókarlestur og sjóböð í hálfan mánuð. Komum endurnærð til baka og tilbúin í verkefnin sem biðu okkar“.