Oddný Harðar: Mun beita mér fyrir Suðurnesin
„Aðalmálið hér á Suðurnesjum, sem og annars staðar á landinu, er baráttan við atvinnuleysið. Það er bölið. Það þarf að huga að alvarlegum aukaverkunum atvinnuleysis. Það þarf að huga vel að börnum sem að alast upp við atvinnuleysi foreldra. Það verður að grípa inn í þetta ástand,“ segir Oddný Harðardóttir, þingmaður Suðurkjördæmis og formaður fjárlaganefndar Alþingis í viðtali við Víkurfréttir.
„Það er sérstakt áhyggjuefni hve margir í yngri kantinum hér eru án atvinnu. Það eru starfandi tveir aðilar á vegum menntamálaráðuneytisins til þess að hlúa að menntamálum hér á svæðinu en þau eru ráðin til tveggja ára til að vinna að þeim markmiðum að Suðurnesin standi jafnfætis öðrum þegar kemur að menntunarstiginu. Skólasókn hér á svæðinu er lakari en annars staðar en of margir ungir Suðurnesjamenn eru hvergi í skóla, ekki bara að þeir séu ekki í Fjölbrautaskólanum okkar, heldur eru þessir nemendur ekki að skila sér í framhaldsskóla yfir höfuð.“
Oddný segir menn hafi haldið að skýringarnar væru helst þær að aðgengi að atvinnu á meðan herinn var hér hafi verið svo gott. „Síðan fer herinn árið 2006 og þá er auðvitað öll þessi þensla og næga atvinnu að hafa. Atvinnuleysi hér á svæðinu byrjar svo snemma árið 2008 og heldur síðan áfram, en skólasóknin eykst ekki. Þannig að þessi skýring sem við töldum að væri orsökin, sem sagt gott aðgengi að atvinnu sem krafðist ekki mikillar menntunar átti ekki lengur við.“
En hver er þá skýringin núna?
„Við þurfum að komast að því, tölurnar sýna okkur að meðal 19 ára drengja á svæðinu eru 53% þeirra í námi á meðan 73% allra á þeim aldri á landinu eru í framhaldsskóla. Þetta eru sláandi tölur og þetta er eitthvað sem að allir í samfélaginu þurfa að sameinast um að finna lausn á.“
Oddný segir að Fjölbrautaskóli Suðurnesja hafi ekki staðið fjárhagslega illa og þrátt fyrir að vísa hafi þurft nemendum frá í fyrra þá sé ríkisstjórnin búin að standa við það að tryggja menntastofnunum hér á svæðinu rekstrargrundvöll og nú í haust hafi ekki þurft að vísa neinum frá.
En hvað með háskólasamfélagið Keili á Ásbrú?
„Keilir er einkastofnum og við höfum lagt á það áherslu að skólinn fengi samning við menntamálaráðuneytið. Upphaflega var hann settur á stofn með svokölluðum þorskígildispeningum, þetta var þá hugsað sem uppbót fyrir svæðið því kvótinn hafði dregist saman. Það var tímabundið framlag. Síðan var aldrei gerður framtíðarsamningur við skólann, og það gengur auðvitað ekki fyrir stofnunina að það sé einhver óvissa frá ári til árs hversu margar krónur séu settar í skólann.“
Hefur þú beitt þér sérstaklega í málefnum sem snúa að Keili?
„Ég beiti mér fyrst og fremst fyrir málefnum Suðurnesja og þegar það eru vandamál hjá Keili þá beiti ég mér þar m.a. með því að knýja fram samning fyrir skólann og skapa þannig öruggan starfsgrundvöll. Ef við ætlum í alvöru að byggja upp þessa stofnun, sem ég tel mikilvægt, þá verður að gera það á grundvelli samninga. Ríkið verður líka að horfa til allra einkaskóla í landinu og gera það upp við sig hvað eigi að kaupa af þessum einkafyrirtækjum, hvað er það sem að við erum ekki að fá í ríkisreknu skólunum? Hvað er það sem réttlætir að einkaskólar sem reknir eru fyrir ríkisfé rukki nemendur svo um hátt skólagjald? Ég get alveg sagt fyrir mitt leyti að ég er ekki hrifin af því að ríkið sjái meira og minna um rekstur einkaskóla og síðan komi eigendur skólanna og rukki nemendur um hundruð þúsunda á önn aukreitis, og það er ríkið sem lánar fyrir skólagjöldunum. Við þurfum aðeins að staldra við þetta. Ég er ekki að tala um að banna einkaskóla, alls ekki, en mér finnst það mjög skrítinn kapítalismi að setja upp einkaskóla og ná svo í peninga til ríkisins. Við þurfum að kanna hver þörfin sé og hvað það er sem ríkið á að leggja pening í. Mér þætti skynsamlegt að ríkið léti skólana fá fé með því skilyrði að þeir rukkuðu ekki nemendur um skólagjöld.“
Oddný bætir því við að núna séu rúmlega 1200 nemendur með lögheimili á Suðurnesjum í Fjölbrautaskóla Suðurnesja og henni finnst að við mættum beina sjónum oftar að framhaldsskólanum okkar, FS, þar sem fjöldinn sé og ekki þarf að borga háar summur í skólagjöld. „Þarna er okkar mannauður að stærstum hluta saman kominn.“
Sjálfstæðismenn vilja ekkert með þessa ríkisstjórn hafa
Hvað gerir þingmaður Suðurnesjamanna til að vera í sem bestu sambandi við íbúana?
„Ég nýti kjördæmadagana vel og sem formaður fjárlaganefndar þá er ég mikið í sambandi við fólk í gegnum það starf. Ég legg mig líka fram við að fara í heimsóknir svo sem til sveitarfélaga og stofnana ef ég hef stund aflögu.
Oddný segist vera í góðu sambandi við ráðamenn á Suðurnesjum og að sumir bæjarstjórar leiti til hennar. „Ég hringi auðvitað í fólk og er t.d. í fínu sambandi við bæjarstjórann í Grindavík og í Sandgerði og í ágætu sambandi við bæjarstjórann í Vogum. Auðvitað litar það samskipti mín við bæjarstjórann í Garði, þar sem ég bý, hvernig hann hagar sér, ef ég get sagt sem svo. Hans grímulausa andstaða og áróður gegn mér og ríkisstjórninni auðveldar ekki samskiptin. En ég er í góðu sambandi við bæjarfulltrúa minnihlutans í Garði og fylgist vel með bæjarmálunum. Árni Sigfússon hefur aldrei hringt í mig af fyrra bragði en ég hef hringt í hann, bæði til að ræða atvinnumál og málefni Keilis þar sem hann er stjórnarformaður. Mér finnst það svolítið merkilegt, verandi með þingmann í lykilstöðu að bæjarstjórarnir í Garði og Reykjanesbæ leiti ekki meira til manns. Ég held að þar að baki búi bara „pjúra“ pólitík. Þeir eru bara sjálfstæðismenn og vilja ekkert með þessa ríkisstjórn hafa og helst vilja þeir ekki eiga Suðurnesjaþingmann úr þessum flokki sem ég tilheyri. Þetta blasir við í greinaskrifum og öðru. Þetta þykir mér slæmt því auðvitað eigum við að standa saman og vinna í því saman að koma okkur út úr þessari kreppu hvar í flokki sem við stöndum.“
Líður vart sá dagur að ekki séu mál Suðurnesjanna rædd
Nú hefur þú verið gagnrýnd fyrir að vera ekki að beita þér fyrir Suðurnesin, hvernig kýstu að svara því?
„Það er ekkert annað en kjaftæði og pólitík. Það er ótrúlegt að framkvæmdastjórar sveitarfélaga sem eiga að sjá hvernig ástandið er að þeir skuli nota sinn dýrmæta tíma í að gera þingmann Suðurnesjamanna tortryggilegan, það finnst mér mjög ábyrgðarlaust. Ég hef reynt að fara ekki niður á þetta plan í greinaskrifum mínum, hugsa frekar að svona sé pólitíkin og þar sé svona brögðum beitt. Ég er ekki hafin yfir gagnrýni fremur en þeir. En sé farið yfir það sem við erum að gera þá líður ekki sá dagur að ég sé ekki á einhverjum fundi með ráðherrum eða þingmönnum að ræða atvinnumál á Suðurnesjum. Mér kannski lætur ekki vel að vera að monta mig af því sem ég er að gera, ég er bara að sinna mínum skyldum. Ég bauð mig fram fyrir Suðurnesjamenn og er í raun bara þjónn íbúanna og reyni að haga mér sem slíkur. Sumir segja að ég þurfi að hrópa og kalla meira, það er kannski það sem að þarf að gera. Ég er auðvitað ekki ráðherra, ég er bara í því að ýta málum áfram og vinna bak við tjöldin.“
Oddný segist auðvitað vera stuðningsmaður ríkisstjórnarinnar þó að hún sé ekki sammála öllu sem þar hefur verið gert.
„Ég get auðvitað listað upp það sem við höfum gert hér á Suðurnesjum en mönnum þykir það kannski ekki nógu gott því við höfum ekki getað sagt hókus pókus – álver komið og allt komið á fullt. En við höfum gert allt sem í okkar valdi stendur til þess að komast þangað.“
Hver er staða álversins í Helguvík?
„Forsvarsmenn í Garði og Reykjanesbæ segja að það sé að einhverju leyti mér að kenna að hér sé álverið ekki farið í gang, hvernig í ósköpunum má það vera?
Hefurðu verið í sambandi við þá menn hjá Magma og HS Orku varðandi þau mál?
„Ég, Björgvin G. Sigurðsson og Róbert Marshall skiptum með okkur verkum og ég hef mikið verið í sambandi við Norðurál en auðvitað hina líka og fundað með þeim margoft. Auðvitað haka ég ekki við í hvert skipti sem ég hringi eða sit fundi, það er bara ekki þannig. Það er bara svo gjörsamlega fáránlegt að halda því fram að ég, eða við þingmenn höfum að einhverju leyti staðið í vegi fyrir þessu verkefni, það er alveg galið. Það vita þessir menn sem halda því fram, af því að þeir þekkja málin. Þeir eru sjálfstæðismenn og vilja ekki þessa ríkisstjórn, það er bara einfalda svarið. Menn eru líka að segja það að ríkisstjórnin hafi staðið í vegi fyrir álverinu, þá hlýt ég að spyrja mig af því, hvernig má það vera? Þessi ríkisstjórn stóð að fjárfestingarsamningi fyrir þetta álver. Ég er sjálf búin að fylgjast með og vinna að þessu álveri frá upphafi. Það er bara ekkert hægt að aðhafast núna fyrr en gerðadómur er fallinn um orkuverðið, það mun enginn hreyfa sig fyrr en hann fellur.“
„Síðan er það gagnaverið, þar er það sama uppi á teningnum. Þar hefur staðið á viðskiptavinum, ekki nokkrum öðrum hlut. Það sama má segja um kísilverið. Þar var fyrirtækið að gera nýjan samning um tæknibúnað og þess vegna dróst það á langinn að byrja framkvæmdir. Hvað gátum við gert í því, áttum við að banna þeim að gera nýjan samning? Hvaða bull er þetta eiginlega?“
Oddný telur umræðuna um atvinnumál hérna vera grátlega. „Eins og við gætum haft hana einhvern veginn öðruvísi og betri ef að við myndum bara vinna öll saman“.
Engir sjúklingar fyrir sjúkrahúsið á Ásbrú
„Svo er verið að ræða sjúkrahúsið á vellinum. Það er ríkið sem er að gera ferðatengda sjúkraþjónustu á Ásbrú að veruleika. Og ef við erum svona rosalega mikið á móti þessu, af hverju erum við þá að gera þetta? Verkefnið stendur bara þannig að það eru engin viðskipti, engir sjúklingar. Þannig er það víða í Evrópu. Þessi viðskiptahugmynd gæti þó verið góð til framtíðar og við gefumst ekki upp heldur leitum á önnur mið.“
Varðandi fyrirhugað fangelsi á Rockville svæðinu þá segist Oddný ekki hafa verið hrifin af því að það væri verið að kveikja í sveitarfélögum til að keppa um staðsetningu fangelsins og gera síðan ekkert úr því. Hins vegar er það hennar skoðun að öryggisfangelsi eigi aðeins að vera á einum stað á Íslandi. „Við þurfum ekki að vera með tvö slík og ef að það á að byggja öryggisfangelsi þá finnst mér bara að það eigi að bæta aðstöðuna á Litla-Hrauni. Hins vegar hefur verið rætt um að byggja komu- og gæsluvarðhaldsfangelsi á höfuðborgarsvæðinu. Fólk áttar sig ekki á því hvað er verið að tala um þegar talað er um öryggisfangelsi. Við myndum aldrei athuga hvort ódýrara væri að byggja fleiri flugbrautir t.d. á Akureyri heldur en hér fyrir millilandaflug. Við þurfum ekki að byggja upp tvo alþjóðaflugvelli. Við þurfum líka að horfa á þetta í þjóðhagslegu samhengi. Við setjum ekki upp öryggisfangelsi á Suðurnesjum sem atvinnubótavinnu fyrir atvinnulaust fólk, það er bara rugl. Við verðum að taka dæmið lengra. Mér fannst þessi staðsetning á Rockville svæðinu fyrir gæsluvarðhaldsfangelsi vera fín en ég hefði ekki viljað hafa fangelsi uppi á Ásbrú. Það hefur sýnt sig að það er varasamt að setja upp fangelsi á stöðum eins og á Ásbrú. Þar sem að fangelsi hafa verið reist á fyrrum herstöðvum hefur ekkert annað blómstrað á svæðinu. Við vildum frekar byggja þar á flugi, menntun og heilsu, vísindum og orku.“
Landhelgisgæslan er svo eitt af málunum. Hvað geturðu sagt okkur um stöðuna þar?
„Við þingmennirnir í kjördæminu erum öll að vinna að því að fá Landhelgisgæsluna hingað og vorum að senda aftur inn þingsályktunartillögu varðandi flutninginn. Hagkvæmismat það sem gert var á flutningnum kom illa út fyrir okkur. Við vildum hins vegar meina að allt sem gæti verið á móti flutningnum hafi verið tekið inn í dæmið, en ekki endilega það jákvæða. Þarna er allt til alls fyrir Landhelgisgæsluna til að sinna hlutverki sínu vel og dafna. Við ætlum bara að halda áfram að hjakka á þessu og ég tel að við verðum að stíga þetta skref. Ég tel að við eigum að fara með þessa stofnun upp á flugvöll, þó það kosti eitthvað í upphafi. Það væri stór sigur fyrir okkur Suðurnesjamenn enda búið að berjast fyrir þessu í mörg ár og ég tel að af þessu geti orðið.“
Hvað finnst þér um þá þróun að fólk kjósi jafnvel frekar að vera á bótum en að þiggja láglaunastörf sem í boði eru?
„Ég held að það sé ástæða til að hafa áhyggjur af þessu. En auðvitað er þetta dálítið á bak við tjöldin þar sem þetta er svo siðferðislega rangt. Svo er það önnur saga sem gengur um Suðurnesin að hér séu margir sem þiggi bætur og láti hafa eftir sér að ef að þeir vinni svart í eina viku þá hafa þeir svipaðar tekjur nettó og þeir voru með áður en þeir misstu vinnuna. Ástæðan er kannski sú að lægstu launin eru svo lág. En á móti kemur, hvað eigum við að gera? Lækka bætur? Mér finnst það ekki koma til greina. Auðvitað þarftu að fylgja ákveðnum skilyrðum varðandi bætur og vera virkur í öllum þeim úrræðum sem eru í boði. Einhverjir hugsa sjálfssagt með sér að þeir vilji ekki ómaka sig við vinnu sem er lítið betri en bæturnar, láta almenning borga framfærsluna og það er auðvitað bara siðblinda, bara rangt. Því þarf að taka á án þess þó að þeir sem að virkilega þurfa á bótunum að halda missi sitt. Það er hættan þegar girða á fyrir þá sem vilja svindla á kerfinu.
Eitt er það að vera atvinnulaus í 2-3 mánuði, annað er langtíma atvinnuleysi. Það fólk sem glímir við það þarf mikla aðstoð við að koma sér út úr því ástandi sem afleiðing langtíma atvinnuleysis er. Þar held ég að dugi ekkert annað en maður á mann. Það má líkja þessu við að ég t.d. hef mig ekki í leikfimi en ef ég væri með einkaþjálfara sem væri að djöflast í mér stanslaust þá myndi ég frekar hreyfa mig. Ég held að eitthvað slíkt vanti til þess að virkja þetta unga fólk.“
Er það ekkert dýrt?
„Auðvitað er það dýrt en afleiðingar langtímaatvinnuleysis er dýrara.“
Oddný segist finna fyrir því að nú séu loks alvöru teikn á lofti um að ástandið sé að skána í atvinnumálum og að tekist hafi að skapa fyrirtækjum umhverfi til að komst úr sporunum. „Hér er ekki þessi mikla óvissa sem ríkti árið 2009. Þannig að þetta fer hægt batnandi sem betur fer. Það er það sem stjórnvöld þurfa að gera, glíma við atvinnuleysið og gera allt sem við getum til að skapa fyrirtækjum frjótt umhverfi án þess að með því fari þau að ganga á náttúruauðlindir. Málin séu hugsuð til lengri tíma.“
Mun beita mér fyrir Suðurnesin
Muntu beita þér sem formaður fjárlaganefndar fyrir því að setja pening í uppbyggingu á Suðurnesjum?
„Ég mun vinna að málefnum svæðisins en ég hreinlega veit ekki hvort ég verð formaður fjárlaganefndar eftir viku þegar nýtt þing kemur saman. Þar er búið að breyta öllu skipulaginu, þó svo að við alþingismenn gerum aldrei neitt að margra sögn. Við höfum bætt þingsköpin og í því felst m.a. að fækka nefndum. Þó að ég sé ekki formaður fjárlaganefndar þá á ég að eiga auðvelt með að beita mér fyrir svæðið og mun gera það.“
Að lokum vildi Oddný hvetja til samvinnu og að menn hefji sig upp úr þessum kjánalegu skotgröfum í stjórnmálum sem séu engum til gagns. „Ef við vinnum okkur upp úr þeim og vinnum saman í þágu svæðisins þá held ég að við finnum leiðir til að leysa vandamálin.“