Óð í óperur
Afþreying Suðurnesjamanna
Söngkonan Bylgja Dís Gunnarsdóttir segist vera alæta á tónlist. Hún hlustar þó mikið á óperutónlist enda hefur hún töluverða reynslu í þeim geira sjálf. Bylgja les mikið bækur sem tengjast tónlistinni en hún kennir við Tónlistarskóla Reykjanesbæjar en hefur undanfarin tvö ár búið í Hafnarfirði. Þegar kemur að sjónvarpsglápi þá verða heimildarmyndir oft fyrir valinu.
Bókin
Síðasta sumar kynntist ég bókunum hans Guðna Gunnarssonar Máttur athyglinnar og Máttur viljans og hef verið að lesa í þeim aftur og aftur, mæli eindregið með þeim. Textinn hjá Guðna er stílhreinn, meitlaður og áhrifamikill. Í kjölfarið fór ég að lesa bækur Eckhart Tolle og er á síðustu blaðsíðunum á bók hans Ný jörð. Verdi with a Vengeance eftir W. Berger, sem fjallar um líf og óperur Verdis, er líka á náttborðinu. Næst í röðinni hjá mér er bókin Everything is Connected - The Power of Music eftir Daniel Barenboim sem er einn af fremstu hljómsveitarstjórnendum í heiminum í dag, mjög spennt fyrir henni.
Tónlistin
Ég hlusta á nánast allar tegundir af tónlist. Nýjasta uppgötvunin hjá mér er samt Philipp Glass og Steve Reich sem semja minimalíska tónlist. Ég er svo lánsöm að vera gift manni sem er alltaf að fara inn á nýjar brautir músíklega og þetta er dæmi um eitthvað sem hann setur í spilarann og ég heillast með. Mæli með: Heroes sinfóníunni sem byggð er á samnefndri plötu David Bowie og Tehilim. Annars hlusta ég mjög mikið á óperutónlist og ljóðatónlist frá öllum tímabilum og á uppáhalds söngvara þar í löngum röðum. Ég er líka alltaf með bunka af tónlist sem ég er að læra, nótur og orð sem þarf að leysa úr álögum og það er fátt meira gaman en það.
Sjónvarpsþátturinn
Í sumar hef ég verið að horfa á heimildaþætti sem BBC gerði um málara, Van Goch og fleiri. Stuttir en afar áhugaverðir og vel gerðir þættir um líf og list hvers og eins sem varpar ljósi á svo margt í sögunni. Svo finnst mér gaman að horfa á Would I lie to you? á BBC Entertainment, ég og fjölskyldan hlægjum mikið yfir þeim. Annars er gaman að heyra viðtölin við Friðrik Þór á RÚV og rifja upp kvikmyndir hans, þær eru bara flottari og betri þegar maður horfir á þær í annað sinn. Svo er ég nýbúin að horfa á Woody Allen myndina Matchpoint sem var frábær, sterk skírskotun þar í óperur og eina af mínum uppáhaldsbókum, Glæpur og refsing eftir Dostojevskí.