Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Nýtur þess að stússast í eldhúsinu
Sunnudagur 28. desember 2014 kl. 11:00

Nýtur þess að stússast í eldhúsinu

Sigrún Árnadóttir bæjarstjóri í Sandgerði í jólaspjalli

Á bæjarskrifstofunni í Sandgerði eru haldin litlu jól hjá starfsmönnum. Sigrún bæjarstjóri horfir á kvikmyndina Polar Express og hlustar á gömul íslensk jólakvæði til þess að komast í jólaskapið. Sigrún notar Þorláksmessu til þess að klára innkaup, undirbúa mat, þrífa, skreyta jólatréð, og hitta vini eða fjölskyldu.

Eru einhverjar hefðir hjá ykkur á bæjarskrifstofunni þegar kemur að jólunum?
Já, við höldum „litlu jólin“ og borðum þá saman, færum gjafir og njótum samverunnar á ýmsan hátt.  Auk þess hittumst við eina kvöldstund  og búum til eitthvað fallegt fyrir jólin.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Hvernig eru jólahefðir hjá þér?
Jólahefðir eru mjög sterkar hér á landi og þó þær séu misjafnar frá einni fjölskyldu til annarrar þá eru þær keimlíkar. Aðventan er upphaf jólahátíðarinnar og það finnst mér yndislegur tími. Þá byrjum við í minni fjölskyldu að setja upp jólaljós og fjölga kertum, og gera ýmislegt annað hefðbundið eins og t.d. að baka smákökur og  fara á jólatónleika sem mér finnst alveg ómissandi þáttur í aðdraganda jóla.

Hver er besta jólamyndin?
Ætli það sé ekki „The Polar Express“ sem ég hef margoft horft á með dóttursonum mínum og okkur finnst hún ævintýraleg og falleg.

Hvaða lag kemur þér í jólaskap?
Við tendrun jólaljósanna á jólatrénu hér í Sandgerði þann 3. desember  voru ýmis gömul og góð lög sem komu mér í jólaskap. Það voru lög eins og „Jólasveinar einn og átta“, „Nú er Gunna á nýju skónum“ og „Jólasveinar ganga um gólf“.

Ertu vanaföst um jólin, eitthvað sem þú gerir alltaf?
Það er margt sem ég geri alltaf þó ég sé ekkert sérstaklega vanaföst. Ég á  t.d. erfitt með að leggja þann sið af að skrifa jólakort og senda þess í stað rafræn. Hef prófað það en fannst þá eitthvað vanta svo ég helda bara áfram að skrifa á  jólakort og senda þau í pósti.

Hvernig er aðfangadagur hjá þér?
Aðfangadagur er ljúfur og rólegur, ég nýt þess að stússast í eldhúsinu, fara með pakka til systkina minna eða fá þau í heimsókn. Svo á góð vinkona mín afmæli á aðfangadag og hjá henni er alltaf opið hús í hádeginu og stundum lít ég við.

Eftirminnilegasta jólagjöf sem þú hefur fengið?
Satt best að segja kemur ekkert ákveðið upp í hugann, en mér finnst alveg nauðsynlegt að fá eins og eina bók.

Hvað er í matinn á aðfangadag?
Núna verða rjúpur í matinn á aðfangadagskvöld. Rjúpurnar og allt sem þeim fylgir gera  jólin enn hátíðlegri og við erum svo heppin að fá rjúpur annað árið í röð frá gömlum bekkjarfélaga mínum að austan.

Eftirminnilegustu jólin?
Það eru mörg jól sem eru mér eftirminnileg frá því ég var barn, jólin  með fyrsta barnabarninu, jól  í Jerúsalem sem þrátt fyrir allt voru svo miklu minna „jólaleg“ en við eigum að venjast hér heima.

Hvað langar þig í jólagjöf?
Bók.

Borðar þú skötu?
Já, ég borða skötu en get ekki sagt að ég hafi sérstakt dálæti á henni. Borða hana í mesta lagi einu sinni á ári og þá bara svona til að vera með.

Eru einhverjar hefðir í kringum Þorláksmessu hjá þér?
Það eru engar fastar hefðir á Þorláksmessu, dagurinn fer oft í að klára innkaup, undirbúa mat, skúra, skreyta jólatréð, og hitta vini eða fjölskyldu.