Nýtt verslunar- og veitingasvæði opnað á Keflavíkurflugvelli
Fimm nýir drykkjar- og matsölustaðir hafa opnað á fríhafnarsvæðinu.
Í gær var nýtt verslunar- og veitingasvæði í Flugstöð Leifs Eiríkssonar opnað formlega eftir gagngerar endurbætur. Svæðið er orðið hið glæsilegasta með fjölbreyttu úrvali þjónustu. Verslanirnar bjóða stóraukið úrval af fatnaði, gjafavöru, íslenskri hönnun og handverki og veitingasvæðið er mun stærra og fjölbreyttara en áður.
Við opnunina buðu Isavia og rekstraraðilar á svæðinu til fagnaðar þar sem verslanir og veitingastaðir kynntu vörur sínar og buðu upp á fjölbreyttar veitingar. Haldin var glæsileg tískusýning, framleidd af Ingibjörgu Grétu Gísladóttur. Þema sýningarinnar var ferðalög og útivist og sýndar voru vörur úr verslununum í flugstöðinni. Landsleikurinn var að sjálfsögðu sýndur í beinni á hinum nýja Loksins bar.
Fimm nýir drykkjar- og matsölustaðir og tvær nýjar verslanir
Fimm nýir drykkjar- og matsölustaðir hafa opnað á fríhafnarsvæðinu. Það eru Mathús , Loksins bar, Segafredo, Nord og Joe and the Juice. Verslanirnar Bláa Lónið, Elko, Penninn Eymundsson, Optical Studio, 66°N og Rammagerðin hafa allar opnað nýjar og endurbættar verslanir. Auk þess hafa tískuvöruverslunin Airport fashion og sælkeraverslunin Pure food hall bæst við flóruna.
Við hönnun var horft til þess að efnis- og litaval væri innblásið af íslenskri menningu og sögu og endurspeglaði sérstöðu og margbreytileika landsins. Fjölmargir íslenskir hönnuðir og arkitektar komu að ferlinu, bæði við heildarhönnun svæðisins og einstakra verslana og veitingastaða.
Keflavíkurflugvöllur hefur þrisvar sinnum verið valinn sá besti í Evrópu í þjónustukönnun alþjóðasamtaka flugvalla, ACI og árið 2014 var hann tekinn inn í heiðurshöll samtakanna. Frá því að flugstöðin var vígð árið 1987 hefur farþegafjöldi fimmfaldast, en tæpar fjórar milljónir farþega fóru um flugvöllinn árið 2014 og búist er við yfir 4,5 milljónum í ár.
Björn Óli Hauksson, forstjóri Isavia:
„Þetta nýja og glæsilega verslunar- og veitingasvæði sem við fögnum hér í kvöld er lykilþáttur í framtíðaruppbyggingu Keflavíkurflugvallar, hér skapast mjög mikilvægar tekjur sem nýtast beint í stækkun og þróun flugvallarins og sú fagmennska sem hér er viðhöfð hjá öllum rekstraraðilum er meðal þess sem gerir það að verkum að við munum geta ráðist í mikilvægar fjárfestingar í takt við farþegaaukninguna, án þess að ríkið þurfi að hafa aðkomu að.“
Fleiri myndir má sjá í myndasafni með því að smella hér.
Ragnheiður Elín Árnadóttir Iðnaðar- og viðskiptaráðherra var ánægð með nýtt svæði.
Amabadama tóku nokkur lög fyrir gesti.