Nýtt lag frá strákunum í Valdimar
Plata á næsta leyti.
Keflvíska hljómsveitin Valdimar hefur gefið út nýtt lag. Lagið heitir Sýn og er fyrsta smákífan af plötunni Um Stund sem væntanleg er í hillur verslana um miðjan október. Hægt er að hlýða á lagið í sérstakri forhlustun á gogoyoko.com.
Hljómsveitina Valdimar stofnaði Valdimar Guðmundsson ásamt vini sínum Ásgeiri Aðalsteinssyni árið 2009. Hægt og rólega bætust fleiri í hópinn og nú er Valdimar orðin að 6 manna hljómsveit. Auk Valdimars og Ásgeirs skipa sveitina þeir Guðlaugur Már Guðmundsson, Þorvaldur Halldórsson, Kristinn Evertsson og Högni Þorsteinsson.
Fyrsta plata hljómsveitarinnar, Undraland, kom út árið 2010. Platan fékk góðar viðtökur og nutu lögin Yfirgefinn, Brotlentur og Undraland mikilla vinsælda í útvarpi. Fyrir plötuna hlaut sveitin tilnefningu sem bjartasta vonin á íslensku tónlistarverðlaununum auk þess sem hún var valin á úrvalslista Kraums.