Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

  • Nýta sjóinn sem útikennslustofu
  • Nýta sjóinn sem útikennslustofu
Mánudagur 22. maí 2017 kl. 06:00

Nýta sjóinn sem útikennslustofu

-Boðið er upp á kajakróður í Stóru-Voga

Stóru-Vogaskóli er staðsettur við mikla fjöru í lygnri vík, Vogavík. Þar er því einstakt tækifæri til að efla útikennslu og náttúruupplifun en á undanförnum árum hefur útikennsla við skólann verið aukin sem viðbót við fjölbreytta kennsluhætti. Einn liður í útikennslu við Stóru-Vogaskóla er valfag í kajakróðri. Í kajaktímum er öryggið í fyrirrúmi og fara því alltaf tveir kennarar í róður með hverjum hópi. Kajaktímarnir eru valfög á unglingastigi og hafa notið vinsælda, enda kærkomin tilbreyting frá inniveru og bókalestri. „Nemendur hafa tekið því vel að geta valið sér skemmtilegt fag úti í náttúrunni. Fagið er hluti af þeirri auknu áherslu sem víða er verið að leggja á útikennslu. Stóru-Vogaskóli er staðsettur við þessa frábæru fjöru og Stapann og hefur fallega umgjörð frá náttúrunnar hendi,“ segir Hilmar E. Sveinbjörnsson, kennari við Stóru-Vogaskóla.

Aðeins eru um 50 metrar frá Stóru-Vogaskóla niður í fjöru svo að það er ekki langt að fara í róður. Sökum veðurs er ekki hægt að sigla allt skólaárið um kring. Fyrstu tvo, þrjá mánuðina á haustin er róið og svo aftur tvo, þrjá síðustu á vorin. „Þetta fer líka alltaf eftir veðrinu. Þumalputtareglan hjá okkur er að ef það er hvítt í öldunni er vindur of mikill til að róa. Þá ráða sumir krakkarnir illa við bátana. Sömuleiðis þarf að taka tillit til þess hvort það sé vindur af landi eða sjó,“ segir Hilmar. Yfirleitt rær hópurinn í fjörunni, nálægt landi og út að Stapa. Ef aðstæður leyfa er farið aðeins utar og þá jafnvel til að renna fyrir fisk.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Það voru fjórir kennarar við Stóru-Vogaskóla sem upphaflega fengu hugmyndina að því að bjóða upp á kajak sem valfag. Þeir vinna sjálfir að fjáröflun fyrir kaupum á kajökum og búnaði. Að sögn Hilmars hafa bæði Stóru-Vogaskóli og sveitarfélagið Vogar sýnt málefninu stuðning. Enn vanti þó talsvert upp á svo að vel megi við una. Til þessa hafa nokkur fyrirtæki í Vogum styrkt verkefnið. Fyrirtækin eru Beitir, Nesbú og Þorbjörn. Vill Hilmar fyrir hönd kajakræðara færa þeim bestu þakkir fyrir.

[email protected]