Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Nýr söngleikur í Frumleikhúsinu – Mystery Boy
Föstudagur 23. febrúar 2018 kl. 09:20

Nýr söngleikur í Frumleikhúsinu – Mystery Boy

Í kjölfarið á ótrúlegri velgengni á sýningunni „Dýrin í Hálsaskógi“ hefur Leikfélag Keflavíkur ákveðið að venda kvæði sínu í kross og setja á svið glænýjan söngleik sem hefur verið í smíðum undanfarin misseri og stefnt er að því að frumsýna í apríl. Um er að ræða verk eftir Gudmundson sem er listamannsnafn Smára Guðmundssonar sem Suðurnesjamenn ættu flestir að kannast við fyrir afrek sín á sviði tónlistar, en hann hefur átt góðu gengi að fagna sem meðlimur hljómsveitarinnar Klassart og fleiri verkefna.

Söngleikurinn er saminn í kring um hliðarsjálf Smára, Mystery Boy, og hefur hann lagt nótt við nýtan dag undanfarið við að skrifa söngleikinn auk þess sem hann semur alla tónlist verksins sjálfur. Mystery Boy er kómísk ástarsaga um ungt fólk sem í leit sinni að sannleikanum og ástinni lendir í furðulegu ferðalagi og óvæntum ævintýrum. Sagan er lauslega byggð á reynslu höfundar af baráttu við fíknina og dvölum hans á meðferðarheimilum. En þrátt fyrir að viðfangsefnið sé alvarlegt er mikilvægt að koma auga á spaugilegu hliðarnar og hafa gaman. Því má með sanni segja að um sé að ræða verk beint frá býli, sjálfbært og án allra aukaefna.

Félagið hefur ráðið til sín leikstjórann Jóel Inga Sæmundsson sem margir ættu að þekkja úr nýlegri uppsetningu á hinu sívinsæla verki „Hellisbúinn“ sem enn verið að sýna víða um landið. Jóel hefur einnig nýlega lokið við að leika aðalhlutverkið í sænsku stórmyndinni „Pity The Lovers“ sem frumsýnd verður á þessu ári. Þekktastur er hann þó líklega fyrir að hafa verið maðurinn sem opnaði dyrnar á þyrlunni í þáttaröðinni „Ófærð“ sem hélt landsmönnum í heljargreipum í upphafi síðasta árs.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Jóel hefur einnig látið til sín taka á körfuboltavellinum og þótti liðtækur þegar hann lék með KR á árum áður. Jóel sótti leikaramenntun sína til London og hefur starfað við fagið frá útskrift. Aðspurður segist Jóel vera mjög spenntur fyrir því sem framundan er og þá sérstaklega að fá að kljást við nýtt verk með nýrri tónlist. Jóel er mjög hrifinn af aðstöðunni sem Leikfélagið hefur á að skipa og efast ekki um að hann fái að hitta sem flesta á kynningarfundi sem haldinn verður í Frumleikhúsinu þriðjudaginn 27.febrúar klukkan 20:00. Allir þeir sem hafa náð átján ára aldri og hafa áhuga á því að taka þátt að einhverju leyti eru velkomnir.