Nýjar sýningar í Duus Safnahúsum
Nokkrar nýjar sýningar hafa verið opnaðar í Duus Safnahúsum. Fyrsta ber að nefna „ÁGÚSTMYNDIR SEPTEMBERMANNA - Myndir úr safni Braga Guðlaugssonar“. Listasafn Reykjanesbæjar opnar sýningu á verkum úr safni ástríðusafnarans Braga Guðlaugssonar. Á sýningunni verða verk eftir þrettán íslenska listamenn sem endurspegla mikið umbrotaskeið íslenskrar myndlistar, verkin sem kynslóð eftirstríðsáranna gerði í aðdraganda myndlistarbyltingarinnar sem kennd er við Septembersýningarnar 1947-1952.
„FÖR“ er sýning á verkum unnin með blandaðri tækni og einþrykk eftir Elvu Hreiðarsdóttur en sýningin er í Bíósal Duus Safnahúsa..
Sýningin „PERSÓNULEGAR SÖGUR“ er unnin af listakonunni Venu Naskrecka og Adam Calicki í tilefni pólskrar menningarhátíðar sem fram fór í Reykjanesbæ á dögunum. Sýningin fjallar um með hvaða hætti persónuleg tengsl geta myndast á milli fólks af ólíkum uppruna. Vena og Adam, eiga það sameiginlegt að vera bæði frá Póllandi og að búa nú í Reykjanesbæ.
Að lokum má nefna að Jana Birta Björnsdóttir sýnir verk sem ætlað er að vekja athygli á fjölbreytileikanum í mannlegu samfélagi með því að sýna notkun hjálpartækja í jákvæðu samhengi.
Sýningarsalir Duus Safnahúsa eru opnir alla daga frá kl. 12 - 17.