Atnorth
Atnorth

Mannlíf

Fimmtudagur 21. janúar 1999 kl. 15:04

NÝJAR FORYRSTU Í KJÖRDÆMIÐ

Af hverju á Reykjanes engan ráðherra en Reykjavík fjóra af tíu ráðherrum? Við því er einungis eitt svar. Slappir stjórnarþingmenn. Þeir koma ekki til greina í alvöru embætti en mega vera með og láta hafa sig í að greiða atkvæði gegn hagsmunum kjördæmisins eins og Kristján Pálsson og Hjálmar Árnason gerðu þegar þeir felldu tillögur um að hefja undirbúning vegar milli Grindavíkur og Þorlákshafnar og aukin framlög til málefna fatlaðra í Reykjaneskjördæmi. Ég lagði fram slíkar tillögur á Alþingi í síðasta mánuði ásamt fjármögnun en þeir felldu þær. Framsóknarúrræðin duga ekki Stefnan gagnvart Suðurnesjum á að laða að störf sem skila hærri tekjum. Suðurnes mega ekki vera láglaunasvæði. Til að hér verði breyting á þarf atvinnu sem byggir á menntun og sérstöðu á sviði náttúru, flugumferðar og hafna. Ég hef barist fyrir því að meira fé verði varið í menntamálin en þau eru vanrækt af ríkisstjórninni. Menntun er lykillinn að hærri meðaltekjum á svæðinu. Fjölmörg hátæknistörf geta orðið til á næstu árum á Suðurnesjum, m.a. í tengslum við starfsemi varnarliðsins. Íslendingar geta tekið yfir störf og ný verkefni á sviði öryggismála í Evrópu. Hlutdeild útflutnings mun vaxa í þjóðarbúskapnum á næstu árum og þá liggja Suðurnes vel við. Einu afskipti ríkisstjórnarinnar af atvinnustarfsemi á Keflavíkurflugvelli er að ráða framsóknarmenn í nýjar stöður. Kjördæmi án forustu Reykjavík sýnir hroka gagnvart Suðurnesjum. Hitaveita Suðurnesja beið árum saman eftir að fá leyfi til virkjanaframkvæmda og sölu rafmagns á svæðinu vegna andstöðu Landsvirkjunar. Reykjavík keypti fjallið Keili, tákn Reykjaness, og gerði grín að Reyknesingum þegar þeir kvörtuðu yfir þessum yfirgangi. Vonandi ganga heimamenn inn í kaupin. Hvar er forustan gegn veldi Reykavíkur? Hana er hvergi að sjá. Það þarf nýja forustu í kjördæmið. Sjálfstæðis- og Framsóknarmenn hafa fengið sín tækifæri og staðið sig illa. Nú er Samfylkingin að undirbúa framboð sitt og þá þarf að velja öfluga talsmenn hagsmuna kjördæmisins, aðila sem þora að hafa pólitískar skoðanir og fara í pólitíska andstæðinga, ekki einungis þá á Suðurnesjum, heldur í Davíð Oddsson, Árna Mathiesen og Gunnar Birgisson. Stjórnmál eru barátta fyrir hugmyndum og átök við andstæðinga. Ef ná á árangri fyrir Suðurnes þarf að efla forustuna. Ágúst Einarsson Höfundur er þingmaður
Bílakjarninn
Bílakjarninn