Nýja Elly mætti óvænt á Ellyjar-tónleika í Hljómahöll
Gestir á tónleikum Söngvaskálda um Elly Vilhálms í Hljómahöllinni sl. fimmtudag fengu óvæntan bónus þegar leikkonan Katrín Halldóra Sigurðardóttir ásamt Sigurði Guðmundssyni mættu og tóku fjögur lög. Katrín hefur undanfarin tvö ár sungið á söngskemmtuninni um Elly í Borgarleikhúsinu við metaðsókn.
Þau Sigurður og Katrín mættu við lok tónleikanna og settu punktinn yfir i-ið á vel heppnuðum tónleikum Söngvaskálda þar sem ferill Ellyjar var rakinn í máli, myndum og tónum. Öll bestu lög sem Elly söng á sínum tíma, ýmist ein, með Vilhjálmi bróður sínum eða öðrum, hljómuðu í Hljómahöllinni þetta kvöld. Elly var söngdíva landsins um árabil og var mjög áberandi í tónlistarlífi landsmanna á sínum tíma.
Tríóið með þeim Dagnýju Maggýjar, Elmari Þór Haukssyni og Arnóri Vilbergssyni fluttu sögu söngdívunnar og gerðu það mjög vel en þessi tónleikaröð þeirra hefur endurspeglað hvað Suðurnesjamenn hafa verið öflugir í tónlistarlífi landsins í langan tíma.
Lokatónleikar Söngvaskálda á þessu ári verða um Jóhann G. Jóhannsson í apríl en hann er einn af mörgum Suðurnesjamönnum sem hafa sett stóran svip á tónlistarheiminn á Íslandi með lögum sínum.
Hér að neðan er stutt myndskeið með brotum af tveimur lögum Ellyar og eitt með Söngvaskáldum.
Katrín og Sigurður með Söngvaskálda-tríóinu, Elmari, Dagnýju og Arnóri. VF-myndir/pket.