NÝBÚAR LJÚKA ÍSLENSKUNÁMSKEIÐI
Mikið var um dýrðir s.l. föstudagskvöld í Grunnskólanum í Grindavík þegar grunnnámskeiði í íslensku fyrir nýbúa lauk með pompi og prakt. Boðið var upp á læri með brúnuðum kartöflum, sveppasósu og tilheyrandi grænmeti og sultu og jólablandi úr malti og appelsíni að viðstöddum kennurum, rauðakrossfólki, bæjarstjóra Grindavíkurbæjar og símenntunarstjóra. Námskeiðið hófst þann 11.október s.l. og þótti vel heppnað í alla staði. Um þrjátíu útlendingar, frá Póllandi, Júgóslavíu, Kosovo, Nepal, Filipseyjum, Víetnam, Úkraínu og Frakklandi, tóku þátt í þessum fyrsta hluta íslenskunámsins.Námskeiðið var haldið á vegum Miðstöðvar símenntunar á Suðurnesjum en Rauða Kross-deildin í Grindavík annaðist félagslega þátt námsins, m.a. með kaffiveitingum í hléum og stuðningi við þátttakendur á námskeiðinu. Einnig hefur Grindavíkurbær og fyrirtækin, sem nýbúarnir starfa hjá, stutt þá til námsins. Gert er ráð fyrir að annar hlut námsins verði á vormisseri árið 2000.