Nýárstónleikar Tónlistarfélags Reykjanesbæjar: Reynum að höfða til sem flestra
-Tríó Reykjavíkur ásamt stórsöngvurunum Diddú og Bergþóri Pálssyni.
Það hefur kannski ekki farið fram hjá mörgum, að Tónlistarfélag Reykjanesbæjar hefur verið endurvakið. Félagið er byggt á gömlum grunni, stofnað í október1957, en hefur því miður starfað með rykkjum og skrykkjum og ekkert síðan 1998. Fyrstu tónleikar félagsins voru haldnir 4. des. s.l. í Ytri Njarðvíkurkirkju, en þar spilaði Kammersveit Reykjavíkur. Næstu tónleikar félagsins verða haldnir á morgun, föstudaginn 13. des. kl. 20:00 í Listasafni Reykjanesbæjar í Duus húsum. Þetta eru nýárstónleikar með Tríói Reykjavíkur, þó eitthvað sé nú liðið á árið. Sérstakir gestir tónleikanna eru stórsöngvararnir Diddú og Bergþór Pálsson.
Að sögn Unu Steinsdóttur formanns tónlistarfélagsins er ætlunin að bjóða upp á glæsilega tónleika.
„Við ætlum að hafa þessa tónleika nokkuð sérstaka, enda tilefni til, en tvö fyrirtæki hafa tekið það að sér að bjóða upp á léttar veitingar í hléi. Þetta verða örugglega skemmtilegir tónleikar, sem enginn má missa af. Við höfum einnig nú þegar ákveðið næstu tónleika en Íslenska óperan hefur óskað eftir samstarfi við Tónlistarfélagið. Hádegistónleikaröðin þeirra hefur vakið mikla athygli og er að skapa sér fastan sess í menningarlífi borgarinnar. Við erum því stolt af því að geta boðið upp á þetta hér í bæ. Þriðjudaginn 2. mars. kl. 12:15 í Listasafni Reykjanesbæjar, mun Davíð Ólafsson, ásamt lítilli hljómsveit flytja dagskrá sem þau nefna “Nú er það svart”. Hér er komið kjörið tækifæri fyrir alla þá sem vilja hlusta á tónlist frekar en fréttir í hádeginu og fá það beint í æð.“
Að sögn Unu hefur tilgangur Tónlistarfélagsins ætíð verið að kynna, efla og útbreiða tónlist í Reykjanesbæ.
„Þetta er starfsvettvangur áhugamanna um tónlist í bæjarfélaginu. Markmiðin eru skýr, eða að halda a.m.k. þrenna tónleika á hverju starfsári. Áherslan verður eflaust á klassísku hliðinni, en þá er þetta líka spurning um skilgreiningu á klassík, mér finnst t.a.m. jazz, blús og vísnasöngur geta flokkast undir það að vera klassísk tónlist. Við munum reyna að höfða til breiðs hóps tónlistaráhugamanna og markmiðið er að tónleikarnir séu áhugaverðir og skemmtilegir fyrir þá sem hlýða.
Við í stjórninni erum full áhuga og metnaðurinn er mikill, en auðvitað eru okkur sett mörk, og þá fyrst og fremst fjárhagsleg mörk. Nýlega gerði Reykjanesbær samning við félagið, sem tryggir félaginu ákveðna fjárhæð til tónleikjahalds næstu 3 árin. Þetta gefur okkur góðan meðbyr. Allir félagar í tónlistarfélaginu eru styrktarfélagar. Það var ákveðið á síðasta aðalfundi að styrktarfélagsgjaldið væri kr. 3.000,- og fengi þá hver félagi um leið 2 aðgöngumiða. Nú þegar hafa fjölmargir skráð sig og við notum tækifærið hér að kalla eftir fleirum.“
Nýárstónleikarnir hefjast kl. 20:00 í Listasafni Reykjanesbæjar og fer forsala aðgöngumiða fram á Bókasafni Reykjanesbæjar. Einnig verða miðar seldir við inngang. Miðaverð er kr. 2.000 fyrir þá sem ekki eru styrktarfélagar.