Ný þrautabraut í Vatnaveröld
Ungmennaráð Reykjanesbæjar hefur fjárfest í þrautabraut sem komið verður fyrir í Vatnaveröld. Þrautabrautin er svo kölluð Wibit-braut og er sautján metrar á lengd. Brautin samanstendur af fjölbreyttum þrautum og hindrunum sem krefjast mismunandi færni.
Ungmennaráðið fundaði með bæjarstjórn í lok síðasta árs og krafðist þess að bætt yrði aðstaða ungmenna í Reykjanesbæ. „Út frá því fengum við fimm milljónir í ráðstöfunarheimild fyrir árið 2022 og helmingurinn af þeirri ráðstöfunarheimild fer í þessa Wibit-braut,“ segir Hermann Borgar Jakobsson, varaformaður ungmennaráðsins.
Ungmennaráðið samanstendur af fulltrúum ungmenna í Reykjanesbæ og er til ráðgjafar bæjarstjórn í málefnum ungs fólks. Ólafur Bergur Ólafsson, umsjónarmaður ráðsins, segir starfið hafa breyst mikið á stuttum tíma. „Virkni ungmenna í ungmennaráðinu hefur aukist gríðarlega. Nú fundum við mánaðarlega í staðin fyrir að hittast tvisvar á ári. Við erum að vinna mikið í samstarfi við Barnvænt sveitarfélag þar sem við erum Hirti Magna til halds og trausts í einu og öllu,“ segir Óli Bergur, eins og hann er oft kallaður.
Aðspurð hver næstu verkefni ráðsins segir Betsý Ásta, formaður ungmennaráðs Reykjanesbæjar: „Við ætlum að gera alls konar fræðslumyndbönd í sumar. Þau verða til dæmis um það hvernig stjórnsýslan virkar, hvatagreiðslur og ýmislegt annað fyrir ungmenni. Þessum myndböndum er sem sagt beint að ungmennum til að fræða þau. Þannig geta ungmenni vitað hvað þau eiga að kjósa og fyrir hvað þau eru að kjósa þegar þau verða átján.“