Ný sýning hjá Listasafni Reykjanesbæjar opnar á laugardag
Listamennirnir Gabríela Kristín Friðriksdóttir og Björn Roth opna sýninguna Sporbaugur/Ellipse, hjá Listasafni Reykjanesbæjar laugardaginn 28. maí klukkan 14:00.
Gabríela Friðriksdóttir og Björn Roth eru bæði vel þekkt fyrir ævintýralegan myndheim þó með ólíkum hætti sé. Ein kynslóð listamanna skilur þau að en á sama tíma tilheyra verk þeirra sömu fjölskyldu. Bæði eru þau þekkt fyrir súrrealíska túlkun á heiminum, ásamt pönkuðu viðhorfi til heimsins.
Sýningin er gerð sérstaklega fyrir rými Listasafns Reykjanesbæjar.
Listamennirnir hafa ákveðið að vinna með hið þekkta fyrirbæri sem flest börn á vesturlöndum þekkja, en það eru litabækur.
Um efnistök þeirra Björns Roth og Gabríelu Friðriksdóttur, segir listfræðingurinn Jón Proppe:
„Litabækur fyrir börn eru í raun mjög undarleg fyrirbæri. Til hvers eru þær? Þær þroska ekki sköpunarkraftinn því það er bannað að lita út fyrir og eina sjálfstæða ákvörðun barnsins liggur í litavalinu. Kannski er uppeldislegt gildi þeirra ekki flóknara en þetta: Að kenna barninu að fylgja reglum og sætta sig við að fá ekki að ráða nema því sem minnstu skiptir í lífinu.
Litabók Gabríelu og Björns virðist fylgja þessum fyrirmyndum en hér skiptir samhengið þó öllu. Bókin er sett fram sem þáttur í listsýningu og litaðar útgáfur þeirra af myndunum hanga á veggjum safnsins: Bókin er orðin listaverk og opinberuð gestum safnsins á svipaðan hátt og þegar barn kemur hlaupandi til mömmu til að sýna henni hvað það litaði flott í litabókina sína. Þetta er allt eins og í ævintýri og þannig losnar ímyndunaraflið úr fjötrum. Innsetningar og myndbandsverk taka svo við og leiða okkur enn lengra inn í dularfullan heim þar sem allt getur gerst og allt getur orðið að list.“
Gabríela Friðriksdóttir (1971) vinnur gjarnan þvert á listform inn í innsetningar, þar sem óhefðbundinn efniviður sameinast listmiðlum eins og teikningum, málverki, skúlptúr og hreyfimyndum. Í verkunum birtast jafnan súrrealískir smáheimar í einstöku myndmáli á mörkum náttúru og draumkenndrar fantasíu í stöðugum umskiptum, með vísanir í táknfræði og andleg kerfi sem framsett eru í hennar eigin goðafræði.
Björn Roth (1961) hefur starfað við myndlist frá seinni hluta áttunda áratugarins, ferill sem hófst í samruna tónlistarsköpunar og gjörningalistar með Freddy and the Fighters (1975-1978) og Bruna BB (1979-1982). Hann vinnur í stöðugu flæði tilrauna, þar sem hversdagsleikinn rennur saman við listsköpun, með miðla eins og teikningu, málverk og skúlptúr í innsetningum sem jafnan eru unnar beint inn í rými.
Listasafn Reykjanesbæjar, gefur út bók af tilefni sýningarinnar Sporbaugur/Ellipse sem þjónar bæði sem sýningarskrá og litabók, gripurinn er númerað myndverk gefið út í 500 eintökum sem gestir safnsins geta eignast á hóflegu verði.
Sýningin Sporbaugur/Ellipse, er styrkt af Myndlistasjóði. Sýningin stendur til og með sunnudeginum 13 nóvember 2022.