Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Ný skipslíkön Gríms sýnd í íþróttahúsinu
Fimmtudagur 28. júní 2007 kl. 15:01

Ný skipslíkön Gríms sýnd í íþróttahúsinu

Fimmtudaginn 5. júlí kl. 15.00 verður opnuð sýning á nýjum skipslíkönum eftir Grím Karlsson í íþróttahúsinu við Sunnubraut.  Sýningin samanstendur af 30 líkönum ásamt munum og myndum tengdum sjávarútvegi sem eru í eigu Gríms. Sýningin verður opin alla daga frá kl. 13.00 – 17.00 og stendur fram yfir verslunarmannahelgi. Aðgangur er ókeypis og allir velkomnir. 

Á sýningunni má sjá Marsley, skip Hans Söbslad.  Einnig Ónefnda skipið sem aldrei fékk nafn og aldrei var byggt.  Sjá má Gránu, Helgu og Sophie Wheatly sem mörkuðu djúp spor í sjálfstæðisbaráttu og verslunarsögu þjóðarinnar.

11 Svíþjóðabátar eru á sýningunni.  Þar á meðal fyrsti og síðasti báturinn sem komu, Hafdís RE 66 og otur RE 32 og sá eini sem eftir er í dag af 80 skipa flota sem kom frá Svíþjóð eftir stríðið, Þorsteinn GK 15.

Einnig er fróðlegt að skoða ýmsa muni og handverkfæri sem notuð voru fyrir vélvæðinguna í fiskiðnaði.  „Þessi verkfæri og handleggirnir á fólkinu sáu um fyrstu stóriðju Íslendinga fram yfir 1950,“ segir Grímur Karlsson, en líkönin, myndirnar og munirnir eru í hans eigu.

Sýningin er haldin á vegum Félags áhugamanna um Bátasafn Gríms Karlssonar með aðstoð Reykjanesbæjar.

Áhugasömum er einnig bent á sýninguna Bátaflota Gríms Karlssonar í Duushúsum þar sem sjá má auk tæplegra 90 bátalíkana, muni og myndir sem tengjast sjávarútvegssögu þjóðarinnar.

VF-Mynd úr safni - Séð yfir bátasafnið í Duushúsum
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024