Ný mörk á endurbætta skólalóð
– Völlurinn var hættulegur til knattspyrnuiðkunnar
Ný mörk voru sett á knattspyrnuvöllinn á skólalóð Gerðaskóla í Garði og lauk þar með þeim framkvæmdum sem farið var í sl. sumar. Um tíma hafði völlurinn verið hættulegur til knattspyrnuiðkunnar, þar sem grjót og klappir stóðu upp úr vellinum, segir á vef Sveitarfélagsins Garðs.
Í sumar var farið í að bæta völlinn, um tuttugu bílhlöss af mold voru sett í lóðina, slétt úr og torf lagt yfir. Í síðustu viku kom loks að því að hægt var að setja mörk, á nýtt grasið, en þau gömlu voru úr sér gengin og höfðu skilað sínu.
Nemendur Gerðaskóla geta því tekið gleði sína á ný og sparkað bolta í hverjum frímínútum á fínum og flottum grasvelli með glansandi fínum mörkum, segir í fréttinni.
Myndir af vef Sveitarfélagsins Garðs. Ljósmyndari GJS.