Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Ný listsýning í DUUS-húsum
Miðvikudagur 17. mars 2004 kl. 15:41

Ný listsýning í DUUS-húsum

Laugardaginn 20. mars kl. 15.00 verður opnuð í sýningarsal Listasafns Reykjanesbæjar í Duushúsum sýning á verkum Kristján Jónsonar listmálara. Um er að ræða verk unnin með blandaðri tækni á striga og mdf-plötur. 

Kristján er fæddur í Reykjavík árið 1960. Eftir BA nám í auglýsingadeild University of South Florida árið 1984 sótti Kristján fjölmörg námskeið í teikningu, bæði í Reykjavík og Barcelona. Á árunum 1989-93 stundaði hann nám í grafík og listmálun við listaskólanum Massana í Barcelona.  Kristján hefur síðan tekið þátt í ýmsum verkefnum m.a. samstarfsverkefninu  Námur undir umsjón Dr. Guðmundar Emilssonar og einnig sá hann um rekstur Höfðaborgarinnar, leikhúss og gallerís í Hafnarhúsinu í Reykjavík 1996-97. Hann starfar nú jöfnum höndum við myndlist og auglýsingagerð.  Kristján hefur sýnt á ýmsum stöðum m.a. Gallerí Sólon Íslandus 1996, Hafnarborg 1998, Listasafni Borgarness 1999 og Stöðlakoti 2001.  Síðast sýndi Kristján á Hverfisgötu 39 í Reykjavík árið 2002.  Verk eftir Kristján eru til í eigu safna, opinberra aðila og fyrirtækja.  Sjá má eitt verka Kirstjáns í nýbyggingu Nýherja í Reykjavík og er þar um að ræða 70 fm glerlistaverk.

Í sýningarskrá segir Aðalsteinn Ingólfsson listfræðingur m.a.um verk Kristjáns: ” Leit Kristjáns Jónssonar listmálara er knúin áfram af vitundinni um mótsagnakennda náttúru sköpunarinnar. Listsköpun er inngrip í eitthvað sem fyrir er, í málaralistinni útilokar einn pensildráttur annan. Tómur strigi er ævinlega uppfullur með óendanlega möguleika. Sérhver mynd á striga segir því sögu allra þeirra mynda sem ekki rötuðu á strigann. Leið Kristjáns framhjá þessari mótsögn er að búa sér til myndveröld á mörkum sköpunar og eyðingar, veru og óveru. “

Sýningin er opin alla daga frá  kl. 13.00 – 17.00 og stendur til 2. maí.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024