Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Mannlíf

  • Ný bók eftir verðlaunahöfund
  • Ný bók eftir verðlaunahöfund
    Guðmundur Brynjólfsson.
Mánudagur 1. september 2014 kl. 09:19

Ný bók eftir verðlaunahöfund

– Gosbrunnur Guðmundar S. Brynjólfssonar

Út er komin skáldsaga, Gosbrunnurinn - sönn saga af stríði, eftir Vogamanninn, rithöfundinn og leikritaskáldið Guðmund S. Brynjólfsson.

Lyginn viðskiptablaðamaður
„Undirtitillinn vísar til þess að það eru mörg stríð í gangi - margir eiga við margt að stríða. Þessi hugmynd hefur líklega komið í hruninu. Sagan fjallar um mann sem hefur gefið sig út fyrir að vera viðskiptablaðamaður og skrifar í fjölmiðil sem slíkur. Allt sem hann skrifar lýgur hann um og bullar. Hann er hálfpartinn í felum og það er afhjúpað mjög snemma í bókinni. Hann hefur komið sér fyrir í þorpi þar sem geisar stríð,“ segir Guðmundur, sem skrifaði bókina í þremur áföngum. „Ég byrjaði á henni rétt fyrir jólin 2012 og svo lagði ég hana í salt því ég var að vinna við annað. Svo fór ég til Spánar í fyrra og náði þremur vikum þar. En ég kláraði hana svo núna eftir áramót þegar ég fékk þriggja mánaða listamannalaun.“

Listamannalaun skiptu sköpum
Að mati Guðmundar eru listamannalaun lýsandi dæmi fyrir það hvernig laun ættu að virka. „Ég vinn alltaf sem verktaki við kennslu og annað við Listaháskólann og Háskóla Íslands. Þarna fæ ég þrjá mánuði og náði að klára. Það skipti algjörlega sköpum, annars hefði hún ekki klárast á þessu ári. Það fer ótrúlega mikil vinna í svona síðustu vikurnar. Mjög skemmtileg vinna reyndar, lesandi textann upphátt og leggjandi lokahönd á verkið,“ segir Guðmundur, sem er mjög ánægður með bókina og viðtökur sem hún hefur fengið. Sagan sé einhvern veginn öðruvísi en aðrar sögur. Ekki hefðbundin skáldsaga.

Byrjaður á næstu bók
Guðmundur hefur getið sér gott orð sem rithöfundur og leikritaskáld og hefur unnið til margvíslegra verðlauna fyrir verk sín. Þar ber hæst Íslensku barnabókaverðlaunin (2009) og Grímuna (2010) og eru þá ótalin önnur verðlaun, viðurkenningar og tilnefningar. Síðasta bók Guðmundar, Kattasamsærið (2011), hlaut mikið lof gagnrýnenda. Þegar Víkurfréttir höfðu samband við Guðmund sagðist hann vera á leið til Gotlands í Svíþjóð eftir nokkra daga. „Ég fékk úthlutað aðstöðu í norrænni þýðinga- og rithöfundamiðstöð. Þar verð ég í mánuð og er að leggja drög að nýrri skáldsögu sem ég mun byrja á þar. Það er góður gangur í þessu,“ segir Guðmundur að lokum.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024