Ný bætiefnalína þróuð fyrir þarfir íslenskra kvenna
Venja er ný bætiefnalína þróuð frá grunni fyrir konur á mismunandi lífsskeiðum. Þær Sirrý Svöludóttir og Rakel Guðmundsdóttir standa að baki Venju en markmið þeirra er að einfalda líf kvenna með því að færa konum bætiefni sem hönnuð eru til að mæta þörfum þeirra. Sirrý og Rakel segja bætiefnamarkaðinn vera háðan tískubylgjum og vera ruglandi fyrir neytendur og því ætla þær að breyta.
Hugmyndin að Venju hefur verið í þróun síðustu tvö ár og hafa Sirrý og Rakel fengið í för með sér sérfræðinga og fagfólk. „Fyrst átti Venja að vera tæknilausn sem átti að auðvelda öllum þeim sem þyrftu að taka bætiefni að skera úr um hvaða bætiefni hentuðu þörfum þeirra. Við áttuðum okkur svo fljótt á því hvað þarfir kvenna eru gjörólíkar karla og sáum að enginn á markaðnum var að horfa til þessara breytilegu þarfa þeirra. Því hófum við þá vegferð að þróa bætiefni fyrir konur frá grunni í samvinnu við sérfræðinga og fagfólk,“ segir Sirrý.
Þær Sirrý og Rakel segja bætiefnamarkaðinn miða af þörfum karla. „Nær engin bætiefni á markaðnum taka mið af breytilegum þörfum kvenna og hafa þá nálgun að sama vítamínið dugi konum alla ævi,“ segir Sirrý.
Vilja opna samtalið um kvenheilsu
Í ferli Sirrýjar og Rakelar tóku þær til greina þau gögn sem til eru um mataræði íslenskra kvenna og segja þær það geta reynst konum krefjandi að nálgast öll mikilvægu næringarefnin frá fæðunni einni. Sirrý og Rakel segja tíðahring, hormónastarfsemi, kvensjúkdóma og breytingaskeið vera meðal þeirra þátta sem konur hafa talað undir rós svo árum skiptir. „Við viljum opna á samtalið um kvenheilsu og í stað þess að horfa framhjá því að kvenlíkaminn er margslunginn viljum við frekar tala hann upp. Næringarþörf okkar breytist í takt við flókna og síbreytilega hormónastarfsemi, því ættu bætiefnin sem við tökum að gera það líka,“ segja þær. „Líkami konu breytist ekki eingöngu mánaðarlega í takt við tíðahringinn, heldur alla ævi,“ segir Sirrý. Þær telja því að Venja svari kalli kvenna um betri bætiefni sem höfða til þeirra.
Eitt af markmiðum Venju er að einfalda ferlið sem viðkemur bætiefnum: „Það endurspeglast m.a. í umbúðunum okkar en bætiefnunum er pakkað í dagpakka svo konur þurfa ekki lengur að flokka í vítamínbox og geta auðveldlega ferðast með bætiefnin sín. Konur eiga ekki að þurfa eyða tímanum sínum í að stúdera bætiefni og því sendum við konum pakkann heim mánaðarlega í gegnum áskrift á heimasíðu Venju, www.venja.is,“ segir Sirrý.
Sirrý og Rakel segja viðtökurnar hafa farið fram úr þeirra björtustu vonum. „Við vissum að það væri gat á markaðnum en okkur óraði ekki við þeim frábæru viðtökum sem við höfum fengið,“ segir Sirrý.