NÝ AÐGERÐ VIÐ ÞVAGLEKA
Þvagleki er algengur kvilli meðal kvenna. Samkvæmt könnun sem gerð var hér í Keflavík á árunum 1984 - 1987 er talið að um 14 % kvenna á öllum aldri leki þvagi. Önnur hver kona verður fyrir því á lífsleiðinni að leka þvagi að því marki að það valdi henni verulegum óþægindum.Að leka þvagi hefur í för með sér mikla takmörkun á lífsgæðum. Að þurfa stöðugt að ganga með bleyjur og hafa á tilfinningunni að maður lykti, veldur því gjarnan að þessu konum finnst þær vera annars flokks. Tvær tegundir þvagleka eru algengastar. Annars vegar áreynsluþvagleki sem er tengdur skyndilegri áreynslu eins og hósta, hnerra, burði o.s.frv..Líkamsálag á konuna gegnum tíðina eins og barnsburður, erfiðisvinna og stöðugur hósti geta verið undirrót kvillans. Einnig er talið að arfgengur veikleiki í bandvef einstaklingsins veiki grindarbotninn sem heldur uppi neðri þvagvegunum. Þess vegna er þvagleki algengari í sumum ættum. Hin tegundin nefnist bráðaleki og einkennist af því að þvagblaðran dregst saman án þess að konan fái við nokkuð ráðið. Fylgir oft mikil þvaglátaþörf eins og flestir þekkja sem fengið hafa blöðrubólgu. Sýkingar, æxli og rýrar slímhúðir í neðri þvagvegum eru oft orsök lekans enda er hann sérstaklega algengur hjá eldri konum þegar áhrifa kvenhormóna gætir ekki lengur. Bráðaleka má meðhöndla með viðeigandi lyfjum og æfingum. Ný lyf hafa nú komið á markaðinn sem menn binda vonir við, þótt engin séu alveg laus við aukaverkanir.Áreynsluleka má meðhöndla með grindarbotnsæfinum ef lekinn er lítill. Æfingar þarf að stunda reglulega allt lífið því annars kemur lekinn til baka. Lýst hefur verið a.m.k. 120 mismunandi skurðaðgerðum til að lækna kvillann. Flestar þessara aðgerða krefjast lengri eða skemmri sjukrahúsvistar og a.m.k. 6 vikna fjarveru frá vinnu á eftir.Á H.S.S. hefur nú verið tekin upp aðgerð sem gerð er í staðdeyfingu og konan getur yfirgefið sjúkrahúsið strax á eftir eða í síðasta lagi daginn eftir. Komið er fyrir fínu neti undir þvagrásina og það leitt upp bak við lífbeinið með sérstökum nálum þar sem það er látið liggja laust strax undir húðinni. Netið er þannig riðið að vefirnir veita því nægjanlega festu án þess að það sé sérstaklega saumað. Þannig minnkar verulega hættan á því að viðkomandi geti ekki tæmt blöðruna eftir aðgerð sem stundum var vandamál við aðrar tegundir aðgerða. Rétt á meðan deyfingin er lögð er konan svæfð stutta stund en er síðan vakandi á meðan sjálf aðgerðin er gerð. Þannig getur maður stillt nákvæmlega með hjálp frá konunni hversu mikið tog á að vera á netinu.Konurnar þurfa ekki þvaglegg á eftir sem er mikill kostur og geta farið að vinna þegar eftir tvær vikur. Einu merkin eftir aðgerðina eru tveir smá skurðir ofan við lífbeinið.Árangur við aðgerðina er mjög góður og fylgikvillar fáir. Þó eru þeir til, eins og við allar aðgerðir. Við höfum þegar framkvæmt 14 slíkar aðgerðir sem allar lofa mjög góðu. Þannig er stöðugt verið að þróa nýjar aðferðir til að bregðast við þessum leiða kvilla.Góðar stundirKonráð Lúðvíksson