Núvitund er forvörn til framtíðar fyrir alla
Núvitundarverkefnið Hér og nú í skólum Grindavíkur fær ekki styrk fyrir næsta skólaár
Núvitundarverkefnið Hér og nú hófst á Heilsuleikskólanum Króki í Grindavík og Grunnskóla Grindavíkur árið 2015. Til að byrja með fékk verkefnið styrk úr Sprotasjóði en allir nemendur leikskólans tóku þátt ásamt 1.-3. bekk Hópsskóla. Í upphafi var verkefnið lagt þannig upp að núvitund var kynnt fyrir börnunum og voru ýmsar æfingar þróaðar og prófaðar. Markmið verkefnisins er að núvitund verði daglegur hluti í lífi nemenda á leik- og grunnskólastigi og að kennarar og nemendur þekki til núvitundar og áhrifa hennar á líf þeirra, til að ná þessum markmiðum þurfti að vera með öfluga fræðslu í núvitund frá viðurkenndum kennurum. Þær Halldóra Halldórsdóttir, grunnskólakennari frá Grunnskóla Grindavíkur, og Harpa Rakel Hallgrímsdóttir, leikskólakennari frá Heilsuleikskólanum Króki, eru báðar menntaðir jógakennarar en þær hafa haldið utan um verkefnið frá byrjun. Salbjörg Júlía Þorsteinsdóttir, leikskólakennari, er tengiliður á Heilsuleikskólanum Króki og Guðlaug Björk Klemensdóttir, leikskólakennari, frá leikskólanum Laut.
Verkefnið hefur gengið vonum framar og segja þær að bæði börn og kennarar séu farin að nýta sér þá tækni sem þau hafa lært úr núvitundinni til þess að róa sig og láta sig líða vel. Börnin eru rólegri, meðvitaðri og láta minna trufla sig, þau eru farin að átta sig á því þegar þau þurfa á smá pásu að halda og kúpla sig út. Þær segjast einnig hafa tekið eftir áhrifum á skólabrag í skólunum.
Salbjörg, Guðlaug, Halldóra og Harpa
Frá árinu 2016 hefur Grindavíkurbær styrkt verkefnið og var þá ákveðið að leikskólinn Laut tæki einnig þátt því. Stýrihópurinn, sem samanstendur af Halldóru, Hörpu og Huldu Jóhannsdóttur leikskólastjóra, töldu mikilvægt að innleiða Hér og nú í allar skólastofnanir bæjarins. Beðið var um áframhaldandi styrk sem ekki fékkst samþykktur í fjárhagsáætlun fyrir þetta ár. Þær eru allar sammála því að það hafi verið forréttindi að taka þátt í þessu verkefni og að það sé vilji allra að halda áfram. Þær telja að ekki aðeins börn og kennarar njóti góðs af jákvæðra áhrifa núvitundar heldur allt samfélagið í heild. Í raun og veru sé þetta forvörn til framtíðar fyrir alla og ætti því að vera hluti af forvarnarstefnu Grindavíkur. Víkurfréttir hittu þær stöllur á dögunum þar sem að þær sögðu frá verkefninu og þróun þess.
Nemendur búa sjálfir til núvitundaræfingar
Guðlaug, sem starfar á leikskólanum Laut, segir hún að þetta sé frábært verkefni og að það séu forréttindi að fá að taka þátt í því vegna þess að verkefnið skili sér til allra innan veggja leikskólans. „Núna er það virkilega að koma í ljós hvaða árangri þetta er að skila, þau eru farin að búa til núvitundaræfingar alveg sjálf og vilja ólm sýna manni hvaða æfingar þau eru búin að búa til,“ segir Halldóra. Allir frá átján mánaða aldri til sjötta bekkjar fá æfingarnar til að prófa þær. Nemendur fá æfingarnar heim á blaði og segir Halldóra að þeir sem hafa búið til sínar eigin æfingar fari stolt heim með blaðið og segi frá því heimavið. Æfingarnar sem nemendum eru kenndar eru fjölbreyttar og margar. „Ég segi við krakkana að við erum svo ólík og þurfum svo misjafnt, kannski finnst einhverjum ákveðin æfing leiðinleg en önnur virkar fyrir hann. Þau fá þannig mismunandi tæki í hendurnar,“ segir Halldóra.
Teygjur á leikskólanum Laut, hér eru yngstu nemendur leikskólans einbeittir
Börnin orðin meðvitaðri um sig sjálf
Harpa Rakel er sammála Halldóru og segir að þau séu orðin mun meðvitaðri um sig sjálf. „Þau eru farin að geta útskýrt af hverju þeim líður vel eða hvaða æfing lætur þeim líða vel, þau geta útskýrt hvers vegna, af því þetta róar hugann og svo framvegis. Við erum ekki einu sinni að biðja þau um að útskýra þetta fyrir okkur en þau gera það samt. Þau gætu alveg sagt bara að þeim líður vel án þess að útskýra það eitthvað nánar, þau segja líka frá því ef þeim líður illa og hver ástæðan er, þau gerðu það ekki fyrst en eru orðin svo meðvituð um sig sjálf núna að þau geta útskýrt hvers vegna þeim líður svona eða hinsegin.“ Nemendur fá spurningalista sem þau svara og þannig geta þau sagt frá hvaða æfing lætur þeim líða vel, hver er þeirra uppáhaldsæfing og hvaða æfing hentar alls ekki. Salbjörg segir að það sé skemmtilegt að sjá hvað allir séu glaðir í svörum sínum og að henni finnist gaman að sjá hvað hún fær mörg ólík svör frá nemendum en uppáhaldsæfingin er mjög einstaklingsbundin. „Það segir okkur að þau eru að tileinka sér ólíka hluti í stað þess að allir séu að tileinka sér það sama, þannig að þú ert að finna hvað hentar þér,“ segir Halldóra. Hún segir einnig að það sé æðislegt þegar nemendur segi henni frá því þegar þau eru að gera æfingar heima með mömmu sinni og pabba, eða bara alveg sjálf, jafnvel áður en þau fara að sofa eða ef þau geta ekki sofnað. „Þá segja þau manni hvaða æfingu þau eru að gera til að hjálpa sér að sofna. Mér finnst það alveg frábært.“
Af hverju byrjaði verkefnið?
„Það var Heilsuleikskólinn Krókur sem byrjaði á þessu,“ segir Halldóra. Harpa var þá nýbúin í jóganámi og Hulda leikskólastjóri á Króki spurði hana hvort það væri ekki hægt að færa núvitund dýpra inn í námið þeirra því skólinn hafði unnið með jóga í nokkur ár. „Svo var ég í heimsókn á Króki með hóp úr skólanum og þá barst þetta í tal, ég spyr hvort ég megi vera með án þess að spyrja mína yfirmenn, en mér fannst þetta einfaldlega bara svo spennandi,“ segir Halldóra. Þá var Heilsuleikskólinn Krókur að fara af stað með þróunarverkefni sem átti bara að vera á leikskólanum þeirra en Hópsskóli, ásamt Halldóru, datt inn í verkefnið. Leikskólinn Laut kom síðan inn í verkefnið ári seinna. „Við fengum styrk frá Sprotasjóði og ætluðum að sækja um áframhaldandi styrk þar en fengum það ekki.
Við vildum víkka verkefnið og vildum fara niður á leikskólann Laut og upp í sjötta bekk þannig að við sóttum um til bæjarins í forvarnarteymið og fengum þar vilyrði fyrir því áramótin 2016–2017. Þetta átti að ganga áfram í þrjú ár en hefur verið í eitt og hálft ár núna. Svo fékk forvarnarteymið ekki nægt fjármagn til að geta haldið áfram og við fáum ekki styrkinn á næsta skólaári frá forvarnarteyminu. Svörin sem við fengum voru þau að skólarnir ættu að taka þetta svolítið til sín en það er nú bara þannig með það, ef það á að vera svona stórt verkefni í nokkrum skólastofnunum, þá þarf einhver að vera yfir því til þess að það gangi. Það er bara þannig, annars týnist þetta bara undir borðinu. Það þarf að halda þessu við og fræða nýtt fólk og svolítið að vera á tánum.
Það er svo skemmtilegt við þetta að allar starfstöðvar eru að gera sömu æfingarnar í tvær vikur sem skilar sér svo vel til allra,“ segir Halldóra.
Allir nemendur eru þátttakendur
„Þau verða líka bara svo glöð þegar þau sjá æfingu frá einhverjum sem þau þekkja og tengjast, þau verða svo kát og það er svo gaman að fá æfingar frá gömlum nemendum,“ segir Salbjörg. Halldóra segir að það sé einmitt það sem skipti svo miklu máli í þessu verkefni, það er að allir fá að taka þátt í því, það sé ekki verið að velja einhvern einstakling úr stórum hópi, heldur séu allir þátttakendur. „Það eru líka oft þeir hljóðu sem sitja úti í horni sem þurfa á þessu að halda, þau gleymast bara og fá enga hjálp en taka þátt með okkur í verkefninu,“ segir Harpa. Halldóra segir að maður viti aldrei hvenær maður þurfi á því að halda að nýta sér þessar æfingar í lífinu. „Þetta er að ryðja sér til rúms núna, það eru líka forréttindi að fá að taka þátt í svona verkefni og líka forréttindi að fá að leiðbeina svona mörgum börnum og fullorðnum.“
Allir taka virkan þátt í Kyrrðarstund á Heilsuleikskólanum Króki
Mikilvægt að læra hvert af öðru
Verkefnið Hér og nú hefur staðið yfir í þrjú ár í Hópsskóla og Heilsuleikskólanum Króki en Leikskólinn Laut hefur verið með í tvö ár. „Við Guðlaug gerðumst síðan tengiliðir skólanna núna um áramótin og förum í heimsókn í alla skólana og skoðum hvað hinir eru að gera,“ segir Salbjörg. „Við frá Leikskólanum Laut höfum líka verið að fara í heimsóknir en þær eru líka mikilvægar til að læra hvert af öðru. Mér finnst svo magnað að sjá að þau börn sem eru eitthvað til baka eða eiga eitthvað erfitt eru þau börn sem eru að sækja í þetta,“ segir Guðlaug. Halldóra segir frá því að hún hafi verið með nemanda sem hafði átt í erfiðleikum með æfingarnar síðustu þrjú árin en að hann hafi dottið inn í þetta með vorinu. „Honum fór að þykja þetta notalegt og það er svo gaman að sjá muninn á barninu. Þetta tekur tíma, eins og allt sem við erum að læra. Hvort sem það er að lesa, hjóla eða annað. Við erum með fjölbreytni í þessu, þau fá nasaþefinn af hinu og þessu og síðan velja þau sjálf hvað þau vilja gera og hvað þeim finnst best.“
Núvitund í Hópsskóla, nemendur í 1.-3. bekk taka virkan þátt einu sinni í viku ásamt starfsfólki
Nú eruð þið að missa styrkinn ykkar frá forvarnarteyminu, er eitthvað annað sem þið getið leitað í til þess að fá styrk fyrir verkefnið?
Harpa: „Við erum búin að berjast fyrir þessu verkefni í eitt og hálft ár og þetta endalausa hjakk tekur svolítið á. Við erum bara að vonast til þess að það eigi eitthvað eftir að koma.“
Halldóra: „Skólaár er frá september og fram í maí og þú þarft að geta verið tilbúinn og vita að þú getir byrjað í september og fram í maí því þetta er verkefni sem þú byrjar ekkert á á miðju skólaári. Þetta þarf að passa inn í stundatöflu og annað, það er ekki hægt að setja þetta bara inn í töflu á miðju skólaári og okkur finnst þetta líka bara vera svo gott forvarnarstarf.“
Salbjörg: „Þetta hefur líka góð áhrif á starfsfólkið, við vitum það alveg að það eru ekki allir sem fíla þetta en það er farið að vera jákvæðara og taka meiri þátt.“
Guðlaug: „Við erum mjög jákvæð fyrir þessu á Laut og í vetur datt þetta alveg almennilega inn hjá okkur. Við fylgjum þessu vel eftir en tengiliðirnir leggja þetta fyrir starfsfólkið sem eru síðan með stundirnar. Þeim finnst þetta virka og tala um það sín á milli. Þetta er stutt, þægilegt og virkar.“
Halldóra segir að þróunarstarf sé til að læra af og reka sig á, maður þurfi að prufa ýmislegt og læra margt, sem er gríðarlega gott og lærdómsríkt. „Við höfum alltaf gert viðhorfskannanir meðal nemenda og kennara og alltaf fengið góða svörun til þess að geta farið í réttar áttir, í staðinn fyrir að spyrja aldrei og fá engin svör þá bara rápar þú eitthvað, gerir bara það sem þú heldur að sé gott fyrir aðra. Svo segi ég líka við fólk þegar það svarar, það skiptir ekki máli hvað það segir, þetta er þróunarverkefni. Sumar æfingar virka bara ekki og þá fær maður endursögn frá kennurum að hún hafi ekki virkað, hún virkar kannski ekki inni í kennslustofu en kannski er betra að gera hana úti og við rekumst á og lærum en það er bara gaman.“