Nútímadjass í Bókasafni Sandgerðis
Það voru þýðir tónar sem ómuðu um Bókasafn Sandgerðis þegar bassaleikarinn Sigmar Þór Matthíasson, ásamt þeim Ásgeiri Ásgeirssyni (oud og önnur strengjahljóðfæri), Hauki Gröndal (klarinett), Matthíasi Hemstock (trommur) og píanóleikaranum Inga Bjarna Skúlasyni, léku við hvern sinn fingur á tónleikum Jazzfjelags Suðurnesjabæjar sem haldnir voru í Bókasafni Sandgerðis í síðustu viku.
Á tónleikunum var frumflutt frumsamið efni þar sem áhrifa austrænnar þjóðlagatónlistar og annarrar heimstónlistar gætti í bland við nútímadjass en Sigmar Þór hefur hafið undirbúning hljómplötu sem ber vinnuheitið Metaphor og er áætlað að gefa út í byrjun næst árs. Sigmar gaf út sína fyrstu sólóplötu, Áróra, árið 2018 og hlaut sú plata tvennar tilnefningar til Íslensku tónlistarverðlaunanna í flokki djass- og blústónlistar.
Jazzfjelag Suðurnesjabæjar stendur reglulega fyrir ýmiss konar og ekki var annað að sjá en gestir tónleikanna kynnu vel að meta tónlistina og stemmninguna sem Sigmar og félagar göldruðu fram enda afburða færir tónlistarmenn þar á ferð.
Jóhann Páll mætti á tónleikana og tók meðfylgjandi ljósmyndir.