Nuddarinn á hvíta tjaldinu
Guðbrandur Sigurðsson nuddari úr Keflavík hefur búið í Kaliforníu í Bandaríkjunum í næstum tvo áratugi. Guðbrandur, eða Gubbi, eins og hann er oftast kallaður er kunnur í Kaliforníu og víðar fyrir starf sitt sem nuddari á meðal íþróttafólks. Hann var nuddari íþróttamanna í Ólympíuþorpunum bæði þegar leikarnir voru haldnir í Salt Lake í Bandaríkjunum og einnig í Aþenu. Nú er Gubbi kominn í þriðja og síðasta úrtak fyrir Ólympíuleikana sem haldnir verða í London á næsta ári. „Ég vona að mér verði boðið að vinna þar á íþróttafólkinu,“ segir hann í samtali við Víkurfréttir.
Víkurfréttir fluttu síðast fréttir af Gubba í Tímariti Víkurfrétta árið 2004 en þá var hann einmitt að fara til Grikklands á Ólympíuleikana. Gubbi hefur einnig verið að fikta við leiklist og tekið þátt í nokkrum kvikmyndaverkum, smærri sem stærri. Gubbi var t.a.m. á hvíta tjaldinu á Íslandi í sumar í kvikmyndinni Thor. Myndin er nýkomin út á DVD. Reyndar heyrist eingöngu rödd hans í myndinni en Gubbi annaðist hljóðsetningu í atriðum þar sem Thor er í Goðheimum. Þar sér Gubbi um íslenskar raddir og söng. „Þeir vildu heyra íslenskar raddir og ég var fenginn til verksins,“ segir Gubbi. Hann segir verkefnið hafa verið skemmtilegt en leikarar myndarinnar hafi verið víðsfjarri og aðeins þeir sem unnu við hljóðsetninguna á staðnum.
Gubbi hefur unnið við fjölda kvikmynda og auglýsinga í San Diego og Los Angeles á síðustu árum. Vinna við raddsetningu hófst með þátttöku hans í The Night At The Museum. Þá hefur hann einnig raddsett í kvikmyndinni Pathfinder. Nýjasta verkefnið sem Gubbi vinnur að er kvikmyndin um Prúðuleikarana sem verður sýnd í kvikmyndahúsum um næstu jól.
Hann segir skemmtilegt að fylgjast með frægum leikurum og leikstjórum á tökustað og vinna með þeim. Gubba hefur brugðið fyrir á ýmsum stöðum á hvíta tjaldinu en hann hefur einnig orðið fyrir því að vera klipptur út úr myndum þegar þær eru komnar í eftirvinnslu.
„Mín minnisstæðasta sena úr kvikmynd var klippt út úr bíómyndinni Charlie Wilson's War. Þar lék ég aðstoðarmann Ned Betty í myndinni og í þessari senu voru bara Keflvíkingurinn Gubbi, Ned Betty, Julia Roberts, Tom Hanks og Philip Saymour Hoffman, allt leikarar í topp klassa. Senan var klippt út en maður heldur bara ótrauður áfram og hefur gaman af þessu, enda veit maður aldrei hvað morgundagurinn ber í skauti sér,“ segir Gubbi í samtali við Víkurfréttir.
Gubbi er búsettur ásamt fjölskyldu sinni í San Diego þar sem hann hefur rekið eigin nuddstofu í Del Mar síðan 1993. Þar starfar einnig eiginkona hans, Helen. Hún sér einnig um að aka börnunum í og úr skóla, á fótboltaæfingar, í söng, reiðþjálfun eða leiklist. Það er í sjálfu sér full vinna í Ameríku. Sjálfur segist Gubbi vera á kafi í fótboltanum til að halda sér í formi.
„Sonur minn, Thor, sem er 14 ára, er á fullu í söng og leiklist. Hann spilar einnig á gítar. Hann er núna á fullu við æfingar við nýtt leikrit hjá leikfélagi hér í bæ og fer þar með aðalhlutverk. Emma dóttir mín, sem er 10 ára, er bæði í fótbolta og hestamennsku. Hún á tvo hesta sem hún keppir á í stökki. Það er alltaf nóg að gera hjá börnunum,“ segir Gubbi. Fjölskyldan flutti á síðasta ári í nýtt húsnæði sem er nær skólanum sem börnin sækja. Þau eru í einkaskóla í San Diego.
Gubbi kemur reglulega í heimsókn til Íslands til að viðhalda tengslum við ættingja og vini. Þannig var hann hér á ferð í vetur í 60 ára brúðkaupsafmæli foreldra sinna. Þá fór stórfjölskyldan saman út að borða og skemmta sér. Hann kom svo aftur í sumar á ættarmót í júlí. Þegar Gubbi er á Íslandi eru gömlu vinirnir kallaðir saman og rifjaðir upp gamlir tímar.
„Það er alltaf gaman að koma til Íslands og krökkunum finnst gaman að hitta afa og ömmu og allt hitt skyldfólkið,“ segir Gubbi.
Nokkrir Suðurnesjamenn og aðrir Íslendingar búa í næsta nágrenni við Gubba í Kaliforníu en hann segir að samskiptin mættu vera meiri. Það séu allir uppteknir með sínum fjölskyldum. Að endingu hvetur Gubbi þá Suðurnesjamenn sem ætla í sumarfrí til San Diego að vera í sambandi.